12.7.2008
Laxveiði góð

Nessvæðið í Aðaldal er sjóðheitt þessa dagana með stórfiskum.
Rigning á suðurvesturhluta landsins gleður veiðimenn því sárlega hefur vantað vatn í þessum landshluta. Þverá hefur til dæmis varla verið virk nema á tveimur megin veiðistöðum að sögn heimildarmanns. Göngur hafa verið góðar í Elliðaánum til þessa, hátt í þúsund laxar gengnir en betur má ef duga skal. Júlí er helsti göngumánuður ánna þar sem menn vonast eftir að heildargöngur verði vel yfir 2000. Þúsund laxa múrinn er rofinn í Norðurá.
Veiðimaður sem var að koma úr Krossá í vikunni var heldur hress, með sex fyrir sig og hver félaganna með þrjá í hollinu. Að sögn Haraldar Eiríkssonar hjá SVFR eru menn að taka dreka á Nessvæðinu í Aðaldal, 19 pundari í gærkvöld og nokkrir álíka í vikunni, og þar var rofinn 20 punda múr. Gamalreyndur veiðimaður sem flugur.is ræddu við í morgun sagði áberandi alls staðar hve vel haldinn laxinn er: Við erum að ná okkur aftur upp úr niðursveiflu, þetta gerist alltaf á 11-12 ára fresti segir hann ábúðarmikill.