
Bubbi Morthens var í essinu sínu í Aðaldal á Nessvæðinu og setti í tröll á Kirkjuhólmabroti. ,,Þetta var 35 metra kast" sagði Bubbi, en Pétur leiðsögumaður hafði bent á þekktan stórlaxablett undan Kirkjuhólmabroti. Með vindinn í bakið tókst að þrusa flugunni út og það vildi til happs að á leiðinni norður hafði söngvaskáldið komið við á Akureyri og náð sér í 35 punda taum. Það var því hægt að halda fast við þegar sá stóri tók strikið. Kóngurinn sendi fréttaskeyti á flugur.is:
,,Ég fór til veiða í Laxá Aðadal, á Nessvæðið, ásamt syni mínum honum Brynjari Úlfi og lentum í stórum fiskum á tæpum 2 dögum. Hér koma myndir af 2 löxum sem við settum í og lönduðum, sá stóri tók á Kirkjuhólambroti, Black and blue númer 12 tók hann, og vóg hann rúm 22 pund í háfnum en 20 pund rúm án hans. Annar tók það sama á Núpfossbrún, vóg hann 15 pund. Sá þriðji tók í Vitasgjafa og vóg 16 pund og sá 4 tók í Sandeyrapolli og eyðilegði meðalþyngdina, hann vóg 9 pund. Samanlagt 60 pund. Meðan ég dvaldi þarna veiddust eingöngu risar, 18 pund, 16 pund, 15 pund. Veiðimenn voru í gleðikasti, hver einasti maður var að fá stórlax. Nóg var af laxi í ánni og það ógnastórum. Engin á á Íslandi hefur annan eins stórlaxastofn. Vil ég lýsa yfir þakklæti mínu að Stangó skuli vera með þessa fornfrægu perlu á sínum snærum og gera okkur kleift að veiða þarna þar sem erlendir veiðimenn hafa ráðið ríkjum áratugum saman, hver veit nema ég skrifi hér á þessum síðum um það ævintýri."
Bubbi Morthens.

Bubbi og Bryjnar Úlfur á Fossbrún með einn góðan.