
Dverghængar skila sínu til viðhalds stofnsins
Jón Kristjánsson fiskifræðingur hefur skýringar á ,,ástandinu" í vötnum og ám þessa dagana og sendir okkur línu um síbreytileika náttúrunnar: ,,Var að lesa Flugufréttir dags. 18. júlí. Hvað er nú í gangi, allt fullt af fiski, stórum laxi, feitri bleikju, sandsíli, maður veit ekki hvaðan stendur á sig veðrið! Var ekki allt að fara til fjandans í fyrra og síðustu ár? Stórlaxinn, var ekki búið að veiða upp erfðaefnið? Í Breiðdalsá um daginn rak ég augun í plakatið frá Veiðimálastofnun: "Verndum stórlaxinn": Sleppa öllum stórum laxi til að endurheimta erfðaefnið! Er þessi aðgerð farin að skila stórlaxi strax?
Nei þekkingin var ekki meiri...
...en svo að menn héldu að dvalartími laxa í sjó væri beinlínis erfðabundinn: Laxar sem dveldu tvö ár í sjó gæfu af sér laxa sem væru tvö ár í sjó, eða þannig. Þetta er nú ekki svona beintengt. Það sem er hins vegar erfðabundið er hæfileikinn til að svara breytingum í náttúrunni. Ef skilyrði eru góð, má vera úti í 2 ár, ef vaxtarskilyrði eru slæm, þá er að drífa sig heim eftir fyrsta árið og auka kyn sitt, ekki risikera því að drepast seinna árið." Pistillinn í heild er á spjallsíðu. Jón er þekktur fyrir skoðanir sínar en eitt er víst: Ekki eru allir sammála honum!