Langá og Grímsá bættu við sig 100 löxum hvor í vikunni er leið og Haffjarðará, Miðfjarðará, Selá og Laxá í Dölum eru á svipuðu róli, kringum 100 laxa á viku - en á flestum stöðum fer nú veiði að ljúka eða er lokið.
Niðurstöður fyrir árið eru mjög blendnar. Þannig má sjá á www.angling.is að þótt margar ár taki risastökk upp á við er það fráleitt um allar. Hrun er í Blöndu, úr 1200 löxum í fyrra í tæplega 700 núna og einnig í Laxá á Ásum. Svartá í Húnaþingi eru undir fyrra ári, Hrútá líka. Vatnsdalsá bætir við sig, auk Víðidalsár þar sem markverð uppsveifla er og svo er Miðfjarðará í uppsveiflu. Sem fróðir menn þekkja eru þessar ár í sama landshluta svo ekki virðast heimtur ráðast af því.
Fyrir austan má sjá að Selá heldur ekki aflatölu fyrra árs, 2170, þótt hún sé góð, komin yfir 1900. Hofsá er nær 300 löxum undir síðasta ári og Breiðdalsá fjarri marki um bætta veiði. Hins vegar bætir Laxá í Aðaldal sig úr 1000 í um 1200 laxa.
Það er því ekki skýrt mynstur í þessu, nema Suð-Vesturhornið bætir sig umtalsvert ef Eystri Rangá er frátalin af þeim sem teljast til stórveiðiáa, en fyrir norðan og austan er þetta blendið, þótt nærliggjandi ár séu teknar og skoðaðar eftir landshlutum.