Sem kunnugt er skapaðist nokkur ólga kringum veiðifyrirkomulag á svæðinu í fyrra þegar ,,silungsveiðimenn" töldu að sér vegið með því að fá ekki að kasta á laxalegustað ofar brúar. Ármenn fóru fram á endurskoðun reglna með þessari niðurstöðu sem nú er fengin.
Forsagan er all kyndug því mörg ár eru síðan ,,veitt og sleppt" fyrirkomulag var tekið upp á laxasvæði Vatnsdalsár. Það er hins vegar engin launung að á silungasvæðinu (sem nokkur hefur verið þrengt að undanfarin ár) hefur verið laxveiði með fornum hætti, það er, veitt og rotað. Lang besti hylurinn á silungasvæðinu var undir þjóðvegarbrúnni. Þegar ný brú var byggð breyttist legustaður laxa sem alla jafna höfðu stoppað undir brúnni sjálfri eða neðan hennar, og færðu þeir sig ofar og upp á ,,laxasvæðið" samkvæmt skilgreiningu leigusala og merkjum sem þá var komið fyrir ofar brúar.
Vitað er að ,,silungsveiðimenn" tóku þessum breyttu skilmálum laxa og leigusala heldur fálega og veiddu og rotuðu eftir sem áður. Eins og Flugufréttir sögðu svo frá í fyrrasumar kom til ,,átaka" við staðinn þegar veiðimaður setti í lax ofar brúar og neitaði aðvífandi leigusala um að sleppa fiskingum. Deilan fór alla leið inn á borð Ármanna (enda gerðist atburðurinn í fornfrægu Ármannaholli) og hefur nú verið til lykta leidd.
Veitt og sleppt verður í gildi ofar brúar en ,,silungsveiðimenn" fá að reyna við laxinn þar. Þess má geta að Brúarhylurinn er slakur silungsveiðistaður með afbrigðum.
Ármenn hafa nú auglýst hollið sitt með þessum skilmálum! (Sjá www.armenn.is)