Veiðimenn með bogna stöng við Brunnhellishó í
morgun.
Veiðimenn fylgjast gjarnan spenntir með veiðinni á fyrstu vaktinni á urriðasvæðinu í Mývatnssveit. Í ár byrjaði ballið fjörlega, hátt í 80 fiskar komu á land og flestum þeirra var sleppt í ána að nýju. Samkvæmt upplýsingum Flugufrétta komu 20 til 30 fiskar á land í Laxárdalnum.
Besta veiðin í morgun var á svæði Helluvaðs, þar sem veitt er á þrjár stangir. Stærsti fiskurinn sem úr ánni kom í morgun var 61 sentímetri að lengd. Lítið hefur verið af flugu í vor og því er fiskurinn tæplega búinn að ná fullri þyngd að mati þeirra sem vel þekkja til.
Urriðinn tók jöfnum höndum púpur og straumflugur, af púpunum bar Phesant Tail hæst og Black Ghost var öflugt að vanda.
Pattaralegur urriði, einn af þeim sem Flugufréttir náðu
nú í morgun.
Veiðimenn voru brattir í sól og blíðu í Mývatnssveitinni og hlakka til næstu daga.