Klöppin við Ytri Rangá - áin stefnir í 10000 laxa
Lokatölur ársins í laxveiðinni verða mjög fínar ef svo heldur sem horfir því eftir að rigningar bættu í árnar hefur veiðin tekið kipp og september mjög góður víða. Ytri Rangá er komin yfir 9000 laxa og lang hæst, en Blanda, Miðfjarðará og Laxá á Ásum meira en tvöfalda afla síðasta árs. Miðfjarðará er reyndar komin í tæpa 4000 laxa samkvæmt angling.is í tölum vikunnar. Ytri Rangá sker sig algjörlega úr með meira en tvöfalt meiri afla en næstu ár, Miðfjarðará
og Eystri Rangá. Við höfum heyrt um marga góða hausttúra hjá mönnum, einn fékk nær 30 í Víðidalsá í september á stöngina og menn hafa ná svipuðum tölum í Leirvogsá. Sveiflurnar milli ára eru gríðarlegar í báðar áttir. Tvöföldun uppá við sumum húnvetnsku ánna meðan aðrar hrapa um tugi prósenta frá laxagóðærinu mikla 2008.
Í frétt frá Orra Vigfússyni er talið að heildarveiðin í ár verði 72.000 laxar sem er næstmest veiði frá upphafi.
Í töflu Orra má sjá eftirfarandi um bestu aflaárin:
2008 84.124 laxar
2009 72.000 laxar (spá)
2005 55,168 laxar
2007 53.703 laxar
1978 52.679 laxar
1988 47.979 laxar
1986 46.671 laxar
1975 45.882 laxar
2004 45.831 laxar
1979 43.955 laxar
Hins vegar ber að geta þess að umtalsverð breyting hefur orðið á samsetningu veiðanna frá 1978-79 sem eru með elstu tölur. Inn hafa komið stóraflaár með hreinræktaða hafbeit, eins og Rangárnar, Ytri og Eystri, auk Breiðdalsár, Tungufljóts í Biskupstungum og hugsanlega fleiri. Fróðlegt væri að vita hvort seiðasleppingar hafi aukist í öðrum ám eða staðið í stað á sama tíma. Heildartölur eru stórlega villandi um ástand villtra laxastofna í íslenskum ám. Sjá má að 1978 veiddust 52 000 laxar, sem er álíka mikið og 2007 og 2005 eftir að Rangárdæmin komu til sögunnar. Því má álykta að ástandi villtra stofna hafi hrakað sem nemur framlagi Rangánna til heildarveiðitölu.