Þrátt fyrir gríðarlega öfluga byrjun í laxveiðinni, og í raun þá mest í stangveiðinni virðast þurrkarnir ætla að setja stórt strik í reikninginn ef rigningin fer ekki að láta sjá sig.

Jón Gnarr með maríulaxinn og þann fyrsta úr Elliðaá í sumar.
Samkvæmt Pressunni (www.pressan.is) sá veiðimaður dauða laxa á tveimur stöðum í Elliðaánum í gær. Áin er orðin vatnslítil og sama veðurfarið plagað árnir á suð-vesturhorninu eins og á vesturlandi. Auðvitað er ástandið ekki svona slæmt allstaðar, Blanda hefur nægt vatn sem og systurárnar, Ytri- og Eystri Rangárnar auk margra fleiri.
Það væri forvitnilegt að heyra í álit fróðari manna um hvaða áhrif svona tíð hefur á stórlaxinn, en eins og margir vita gengur hann snemma í árnar og má því vænta að hann verði meira fyrir barðinu á þurrkatíðinni hlutfallslega enda bíða oft smálaxatorfurnar þess að ganga í árnar þegar svona viðrar. Eru kannski þurrkasumrin undanfarin ár að einhverju leyti ábyrg fyrir hnignuninni?
Nú er bara að vona að rigningaspá sunnu- og mánudagsins haldi og lax og gróður fái einhverja vætu.