Í erindi sem dr. Margaret J. Filardo, líffræðingur og forstöðumaður Fiskvegamiðstöðvarinnar (Fish Passage Center) í Oregonfylki í Bandaríkjunum, hélt í Háskólabíói í dag kom meðal annars fram að stíflur og virkjanir í ám valda mikilli röskun á vatnafari sem skaðar lífríkið með afdrifaríkum afleiðingum. Sums staðar hafa allt að því 85-90% fiskstofna dáið út. Árfarvegurinn fer á köflum undir uppistöðulón, annars staðar stórminnkar vatnsrennslið, kvíslar eru stíflaðar og aðrar breytingar gerðar á farveginum. Nær öll bestu búsvæðin í Þjórsá eru fyrir ofan Urriðafoss og á stöðum sem ráðgert er að virkja. Því hafa menn verulegar áhyggjur af fyrirhuguðum virkjunum sem hefðu í för með sér grundvallarbreytingar á lífskerfi fiskanna.
Breytingar á hitastigi, súrefnimagni, dreifingu botnsfalls og fánu vatnaskordýra eru gífurlegar og koma í veg fyrir að þau seiði sem kynnu að lifa af röskunina búi við nægilega góð skilyrði til að þroskast og ganga til sjávar.
Seiðaveitur og aðgerðir til að reyna að minnka umhverfisáhrif virkjana á laxfiska í Columbíaánni í Bandaríkjunum hafa kostað yfir 10 milljarða Bandaríkjadala á síðustu 35 árum, án þess að aðgerðirnar hafi komið í veg fyrir frekara hrun fiskistofna.
Laxaseiði ganga til hafs frá mars og fram í ágúst, þannig að það mun skerða gríðarlega hagkvæmni virkjunarinnar sé ætlunin að taka tillit til þessa líffræðilega þáttar og minnka orkuframleiðslu meðan á niðurgöngunni stendur.
Fyrir virkjanir var árleg laxveiði í Columbíaánni 10-16 milljón laxar. Nú er veiðin einungis 1,5 til 2 milljón laxar, en 75% þeirra koma úr seiðasleppingum. Veiðin hefur minnkað um 90% en af núverandi laxafjölda í ánni eru 75% eldislax úr seiðaeldisstöðvum, ekki upprunarlegur villtur lax, lax sem er erfðafræðilega mjög einsleitur og ekki líklegur til að viðhalda stofninum í ánni til langframa.
Meðfylgjandi mynd af Þjórsá er af heimasíðu Landsvirkjunar.