Það er alltaf spennandi að heyra af opnuninni á urriðasvæðinu í Mývatnssveit, enda lífríkið þar eitthvert það merkilegasta um getur. Þar hafa verið miklar sveiflur undanfarin ár og áin skoluð og illveiðanleg síðustu tvö sumur. En það er mál manna að opnunin í ár hafi verið ein sú besta síðustu árin eins og kom fram í Flugufréttum vikunnar.
Árni Friðleifsson, formaður SVFR var í opnuninni og segir ána koma vel undan vetri sem reyndar fór mjúkum höndum um norðanmenn. Oft hefur það gerst að veiðimenn hafa lent í vonsku veðri í opnuninni, jafnvel hríðarhraglanda en það gerðist ekki í ár. "Lífríkið hefur sannarlega tekið við sér og veiðimenn höfðu orð á því að gróðurinn væri kominn allt að þremur vikum lengra en í meðal ári," segir Árni og nefnir að oft sé ófært niður á Hamar, neðsta svæðið sem tilheyrir Mývatnssveitinni, en nú var auðvelt að renna þangað.
En það sem skiptir máli var að veiðin var góð. "Það var mikið líf á öllum svæðum, öfugt við að sem oft er þegar veiðin hefst. Urriðinn var vel haldinn, sterkur og skemmtilegur. Um 140 fiskar veiddust á fyrstu vaktinni og það þykir mjög gott," segir Árni.
Nokkuð var um mý við ána, bæði vargur og rykmý ofan af Mývatni. Ástandið í vatninu virðist vera mun betra í ár en mörg síðustu ár. Mun meira er af mýflugu sem er undirstaða lífríkisins og uppistaða í fæðu fisks og fugls. Væntingar eru um að vatnið verði ekki eins litað í sumar og síðustu sumur, þannig að skilyrði til fluguveiða í þessari veiðiparadís ættu að vera ákjósanleg í sumar.
-þgg