2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
8.6.2017

Ritverk um Veiðivötn

 Líklega þekkir enginn Veiðivatnasvæðið jafn vel og Gunnar Guðmundsson frá Heiðarbrún. Hann sá um veiðivörslu í vötnunum frá árinu 1967 fram til ársins 1980. Hann hefur nú sent frá sér tveggja binda ritverk um Veiðivötn "og svæðið frá Þjórsá í vesti austur að Vatnajökli og norður fyrir Köldukvísl og suður að afrétti Landmanna og Skaftártungumana," eins og Gunnar segir.

 "Ég byrjaði á þessu verki sumarið 1984 en þurfti að vinna fulla vinnu með til að sjá fyrir minni lífsafkomu en hef ekki sinn öðru frá árinu 2008," segir Gunnar í Flugufréttum vikunnar.

Gunnar styðst bæði við ritaðar heimildir og munnlegar, "þannig að um töluverða rannsóknarvinnu er að ræða. Bæði að fara í gegnum gömul skjöl og vinna úr þeim, svo ekki sé talað um munnlegu heimildirnar og bera þær saman. Einnig fór töluverð vinna í að bera handritið saman við umhverfið sem verið er að lýsa, landslag og gróðurfar, svo eitthvað sé nefnt."

Í bókinni er sögð saga Veiðivatna allt frá ísöld þegar jökullinn hopaði og hrina öflugra eldgosa hófst og umhverfi vatnanna varð til með þessum merkilega stofni urriða sem kenndur er við ísöldina. Á síðustu árum hefur urriðinn reyndar hopað fyrir bleikjunni í mörgum vatnanna en bleikjuseiðum var á sínum tíma sleppt í Tungná.

Gunnar segist ekki vera hrifinn af þessari þróun. "Það var afleitt að bleikjuseiðum hafi verið sleppt í Tungná á sínum tíma. Bleikjan gekk upp í vötnin sem hafa aðgang að ánni og þar hefur bleikjan háð baráttu um lífsviðurværi í samkeppni við urriðann og hefur haft betur í samkeppni við þennan urriðastofn sem er einhver sérstakasti og merkilegasti urriðastofn sem fyrir finnst," segir Gunnar.

Gunnar gefur bækurnar út sjálfur, hann segir það vera vegna þess að hann hafi viljað halda verði bókanna í lámarki, eða 8.500 krónur fyrir bindin tvö. Gunnar hefur verið duglegur við að hringja til Veiðivatnamanna og selja þeim bókina sem er til sölu á fimm stöðum á landinu. Sölustaðirnir eru; Árvirkinn á Selfossi, Verslunin Veiðivon í Reykjavík, Söluskálinn Landvegamótum, Verslunin Mosfell á Hellu og Fóðurblandan á Hvolsvelli.

13.10.2017

Lax og urriðadans

8.8.2017

Fluga aldarinnar