2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
14.6.2017

Lært á Köldukvísl

 Snævarr Örn Georgsson veiddi í Köldukvísl um Hvítasunnuhelgina. Hann og félagi hans lönduðu 13 bleikjum og segist Snævarr hafa getað tvöfaldað aflann eða þrefaldað ef hann hefði vitað fyrir það sem hann lærði þá.

Ég átti frábæran dag í Köldukvísl um Hvítasunnuhelgina. Fór með félaga mínum frá USA sem er algjör byrjandi í fluguveiði með það markmið að láta hann fá fisk og alls fékk hann 5 bleikjur. Ég var að koma þarna í fyrsta skipti og náði að landa 8 sjálfur og tvíbætti persónulegt met yfir stærstu bleikjuna mína. Ég var mikið í því að missa fiskana sem að ég setti í og það klaufalegasta var þegar að stór bleikja tók óvænta roku sem setti hjólið í yfirsnúning þar til að handfangið kræktist óvart í ermina á jakkanum svo það snögglæstist. Við það kom auðvitað alltof mikill kippur og átak á tauminn sem að slitnaði.

Fyrri hluta dags var helvíti sterkur vindur og töluverð rigning svo það var ekkert hægt að skyggna og ég hélt mig nálægt landi til að styggja ekki bleikjurnar. Náðum samt að kroppa upp nokkrar. Þegar leið á daginn lægði og hætti að rigna þannig að ég gat séð nákvæmlega hvar bleikjurnar voru og á hvernig stöðum þær lágu. Ég komst líka að því að ég gat vaðið þvers og kruss um svæðið án þess að bleikjurnar hættu að taka. Gat þannig veitt miklu stærra svæði miklu betur. Svo varð ég bara betri í að bregða við um leið og tökuvarinn hreyfðist, hef ekki verið nógu duglegur að nota tökuvara í gegnum tíðina en hann sannaði gildi sitt þarna. Ég sá það gerast a.m.k. tvisvar að bleikja tók púpuna og hrækti henni úr sér án þess að tökuvarinn hreyfðist.

Allavega, frábær dagur hjá tveimur byrjendum á svæðinu. Ef ég hefði vitað í upphafi dags það sem ég vissi í lok dags hefði veiðin örugglega verið tvöföld ef ekki þreföld!

-Snævarr Örn Georgsson

13.10.2017

Lax og urriðadans

8.8.2017

Fluga aldarinnar