2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
15.6.2017

Fékk 90 sm hæng í opnun Kjarrár - "Held að maður þurfi ekkert að kvíða sumrinu"

Veitingamaðurinn Jón Mýrdal var í opnunarhollinu í Kjarrá og setti í 12 laxa þrátt fyrir kulda og vind. Þetta voru spikfeitir og glansandi laxar og Jóni líst vel á veiðisumarið.

"Veiðisumarið byrjaði reyndar hjá mér í vorveiðinni. Ég fór í Tungufljót og á Þingvelli. Í Villingaholtsósnum tók ég 12 fiska á svona tveimur tímum. Sá stærsti var 80 sm og sá minnsti 70 sm. Þetta voru risaurriðar, nokkuð gott start," segir Jón Mýrdal, veitingamaður á sjávarréttastaðnum Messanum við Lækjargötu.

Jón er mikill veiðimaður og var mjög ánægður þegar honum bauðst að vera í opnunarhollinu í Kjarrá um liðna helgi.

"Þetta var algjörlega frábær helgi, flott opnun, enda ekki við öðru að búast þegar maður veiðir með goðsögnum á borð við Tóta tönn. Það var að vísu ógeðslega kalt og mikill vindur. Ég var líka í opnuninni í fyrra. Þá tókum við rúmlega 90 fiska en við tókum 58 núna.

Ég fékk 12 fiska á mína stöng og þar af var bara einn smálax. Stærsti fiskurinn minn var 90 sentímetra fiskur, spikfeitur og glansandi hængur tekinn í hylnum Runka. Þeir voru allir svona, ógeðslega vel haldnir. Ég held að maður þurfi ekkert að kvíða sumrinu miðað við þessa fiska," segir Jón sem er afar hrifinn af Kjarrá.

"Það er rosa heiður að fá að opna þessa á, hún er einhver sú skemmtilegasta sem maður kemst í. Kjarrá er mjög krefjandi, þar er endalaust labb, príl og vesen. Ef maður ætlar að labba upp á efstu staði tekur það þrjá tíma aðra leið. Svartistokkur er til dæmis lengst upp á Holtavörðuheiði. En það getur vel verið þess virði, það kom til dæmis fiskur mjög víða þessa opnunarhelgi.

Kjarrá/Þverá er um 70 kílómetrar og þarna er enginn foss sem stoppar fiskinn. Þarna getur hann brunað upp á heiði án nokkurrar fyrirstöðu. Ég man ekki eftir nokkuri á í líkingu við þessar."

Þingvallavatn gaf vel í vor.

Hvað tóku þessir vænu fiskar þarna í Borgarfirðinum?
"Við notuðum ýmislegt. Til að mynda Sun Ray. En þar sem það var ógeðslega kalt notuðum við mikið litlar túpur. Þó komu nokkrir líka á hitch. Ég tók flesta fiskana á Haug. Ég fór til Sigga Haug fyrir ferðina og keypti nokkur leynivopn."

Jón segir að það hafi þurft að hafa fyrir öllum löxunum þessa helgi. "Þetta voru mjög sterkir fiskar, lúsugir og nýkomnir í ána. Það var ekkert hægt að þreyta þá á nokkrum mínútum, þetta var barátta. En að sama skapi voru þetta allt frábærar viðureignir og ógeðslega gaman!"

Hvað er svo framundan í sumar?

"Það er nóg framundan. Ég fer aftur í Kjarrá. Ég fer í Straumana núna 20. júní og í Víðidalsá um mánaðarmótin. Svo fer ég í Aðaldalinn. Það er ekki meira frágengið en það bætist alltaf eitthvað við."

13.10.2017

Lax og urriðadans

8.8.2017

Fluga aldarinnar