Hann var svakalegur urriðinn sem Axel Sölvason veiddi í Grænavatni, einu af vötnum Veiðivatna nú um daginn, 11,5 pund hvorki meira né minna, pattaralegur drjóli eins og sést hér á myndinni.
Veiðimenn hafa reyndar oftar verið bjartsýnni fyrir opnun Veiðivatna en í ár. Veiðin í vötnunum hófst þann 18. júní við frekar erfiðar aðstæður. Óvenjulega mikið vatn var í vötnunum þannig að vatnshæð sumra þeirra var rúmum metra hærri en menn eiga að venjast. Þrátt fyrir þetta og rysjótta tíð var veiðin gleðilega mikil, eða 3.532 fiskar og til samanburðar má geta þess að fyrsta veiðivika síðasta sumar gaf 3.292. Munurinn er 240 silungar.
Þessa fyrstu viku í vötnunum veiddust 1.083 urriðar og 2.449 bleikjur. Snjóölduvatn var gjöfulast það gaf 1.814 fiska, mest bleikjur en meðalþyngdin úr vatninu fyrstu veiðivikuna var rétt tæpt pund, en sá stærsti sem þar veiddist reyndist vera 6 pund.
Stærsti fiskurinn til þessa, tröllið sem Axel veiddi var einn af þeim tíu urriðum sem komu úr Grænavatni. Meðalþyngdin úr vatninu þessa fyrstu viku veiðitímabilsins er rúmlega 6,5 pund sem verður að teljast ansi gott.
-þgg