Andstæðingar sjókvíaeldis á laxi í Eyjafirði hittu Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á fundi á Akureyri síðasta föstudag. Hún var þá að koma beint af ráðstefnu um sjókvíaeldi sem haldin var í Ólafsfirði og virtist gagngert boðað til í því augnamiði að sýna fram á kosti eldisins fyrir þjóðarbúið og hinar dreifðu byggðir landsins.
Á fundinum á Akureyri voru ræddar áhyggjur manna af áhrifum sjókvíaeldis á lífríkið og ferðaþjónustu, rædd voru sjónræn áhrif og áhrif á nytjastofna og fiskveiðar í firðinum. Þorgerði var gert fyllilega ljóst að alls ekki væri einhugur um þessar framkvæmdir í Eyjafirði.
Jón Helgi Björnsson, formaður Landsambands veiðifélaga, sagði að loknum fundinum: "Þorgerður gaf auðvitað ekkert út um sína afstöðu en sagði að það styttist í niðurstöður nefndar um stefnumótun í fiskeldi. Í framhaldi af þeirri vinnu myndu stjórnvöld taka afstöðu til umfangs þessarar starfsemi og skipulags. Þetta var nauðsynlegur og góður fundur."
Meðfylgjandi mynd var tekin í Berufirði og sýnir að sjókvíaeldið er lítið augnayndi, fyrir nú utan allt annað.
-rhr