Það er lífleg sjóbleikjuveiði á Norðausturlandi um þessar mundir. Pálmi Gunnarsson hefur verið þar við veiðar að undanförnu,mikið á bleikjusvæðunum í Hofsá í Vopnafirði og hann er kátur. "Sögur um tortímingu sjóbleikjunnar standast ekki, sem betur fer. Ég hef séð töluvert af sjóbleikju og hef heyrt frá mönnum hér að hún sé hreinlega út um allt," segir Pálmi.
Síðustu daga var hann í ánni ásamt börnum sínum "og við sáum stórar og miklar bleikjutorfur. Oft var hún dugleg að taka en það kom fyrir að takan datt alveg niður og hún leit ekki við neinu sem við buðum henni fyrr en ég dró Héraeyrað upp úr boxinu, þá gerðust ævintýrin. Ef Héraeyrað er smurt, þá dansar það í yfirborðinu og myndar rák, ekki ósvipað því og þegar verið er að hitca fyrir lax, og það kann bleikjan að meta. Það er því ekki að ástæðulausu sem veiðimenn völdu Héraeyra flugu aldarinnar um síðustu aldamót.
Nú er runninn upp aðal sjóbleikjutíminn á Norðausturlandi. Pálmi segir að hann hafi farið á bleikjuslóðir í Hofsá í byrjun júlí, "eins og ég gerði gjarnan með félögum mínum í gamla daga. Þá var oft komin væn sjóbleikja í ána en síðan breyttist þetta, veiðin minnkaði og bleikjan kom seinna en nú var annað uppi á teningnum. Bleikjan var komin í júlíbyrjun og veiðin hefur verið góð, þannig að bleikjuveiðimenn eru kátir hér um slóðir," segir Pálmi Gunnarsson.