Þrengslin í Norðurá
Efsti veiðistaður er Svuntan spegilslétt en þar fellur áin lygn inn í Þrengslin og þarf að fara varlega því oftar en ekki styggist laxinn ef veiðimenn ber við himin. Ég byrja á að fara vel upp fyrir vestanmegin við hann og kasta langt með gárutúpu en fiskur liggur yfirleitt austanmegin við klöppina og alveg niður í stútinn. Þegar hann tekur teymi ég fiskinn upp í rólega vatnið og þreyti hann þar. Ef þessari aðferð er beitt er oftast hægt að ná nokkrum fiskum úr Svuntunni.
Fáeinum metrum neðar er dynjandi hraður strengur og best að kasta þvert og strippa þar sem hvíttflissið hættir en farið varlega því fiskurinn er oft upp við land. Þarna er stórgrýtt og háir bakkar þannig að löndun er mjög erfið og hef ég sagt við þá sem setja í fisk þarna eða í Þrengslunum, að ef þeir geti landað fiski þarna hjálparlaust þá séu þeir komnir með meiraprófið í laxveiði.
Nú tekur við langur kafli þar sem borgar sig að fikra sig rólega niður með ánni og kasta á alla stóra steina og strengi sem eru yfir alla ána. Það besta við Þrengslin er að allar aðferðir i fluguveiði virka vel, einkum gárutúpur og Sunray Shadow sem er tískupaddan síðustu sumur. Örtúpur eru þrælsterkar og nota ég yfirleitt hægsökkvandi línu með þeim. Einnig þurfa taumar að vera sterkir, ekki undir 14 pund og helst 10 feta stangir eða nettar tvíhendur því laxinn reynir hvað hann getur að fara ofan í holur og kringum grjót til að slíta sig lausan.
Loks kemst maður í gullið sem er Leggjabrjótur, frábær veiðistaður sem nær þvert yfir ána og liggur fiskur alveg upp við landið austanmegin. Það kemur brot yfir ána og þar liggur fiskurinn einnig i hraða vatninu að austan. Þarna er ansi erfitt að fóta sig og ef maður setur í fisk þá er eiginlega vonlaust að teyma hann eitthvert annað, maður verður bara að þreyta hann á staðnum. Vatnið rennur hratt og hann hefur allt með sér í slagnum. Ég hef viljandi aldrei farið með háf í Þrengslin þótt að ég bölvi þeirri ákvörðun alltaf þegar veislan byrjar.?