2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
9.1.2020

Veiðiferð á Arnarvatnsheiði - þetta er lífið! - úr safni Flugufrétta

 Gleðilegt árið lesendur Flugur.is. 
Við höldum áfram að grúska í áður birtu efni og það er sannarlega af nægu að taka í safni Flugufrétta síðastliðinna 20 ára. 
Við hefjum leik á frásögn Geirs Thorsteinsson sem birtist áður 18 júlí sumarið 2004. 
Gjöriði svo vel. 

Myndin er eftir Ólaf Pál Jónsson og sýnir Skammá og Arnarvatn.

Sælir fluguveiðimenn góðir, mig langar til að deila með ykkur nokkrum brotum úr veiðiferð á Arnarvatnsheiðina, sem ég fór í fyrr í sumar. Eftir vinnu á fimmtudagskvöld var lagt í hann. Þar sem fyrirhugað var að ganga í á fjórða tíma út á heiðina, þá voru ekki margir sem nenntu með og því var ég einn á ferð. Úti á miðri heiðinni er ofurlítið veiðihús í engu vegasambandi. Vestan gola var um kvöldið og kólnað hafði eilítið í veðri frá 21 stiga hita í Hrútafirðinum. Þokan var að renna að sunnan frá Eiríksjökli. GPS tækið var hinsvegar með í för og því ekki nein hætta á ferðum, þótt villugjarnt sé á heiðinni. Stefnan tekin beint í hús og komið þangað á öðrum tímanum að morgni föstudags. Beint í koju og sofið fram eftir, enda lét ég það eftir mér að bera svolítinn munað í mat og drykk með, þótt örlítið hafi það sigið í á leiðinni. 

 

Morguninn eftir var yndisfagur. Ég vaknaði við álftakvak og vestan gola sá um að flugurnar héldu sig nokkurnveginn á mottunni.  Ég uppgötvaði mér til mikillar mæðu að ég hafði gleymt vargskýlunni (flugnanetinu) í bílnum en ekki nennti ég fyrir nokkurn mun að sækja það.  Vatn hitað og hellt uppá gott kaffi og rúgbrauð með kæfu var kærkominn morgunmatur. Bounty í desert og nú var ég reiðubúinn.

 

Scottinn minn nr. 5 var gerður klár og Orange Nobbler nr. 10 settur undir. Allstaðar var náttúran vöknuð og Snjófjöllin í vestri blöstu við, Eiríksjökull skartaði sjnóhettu sinni í suðvestri baðaður geislum sólar. Hrossagaukurinn steypti sér niður í fögnuði yfir dýrðinni og lóur og rjúpur flugu upp undan fótum mínum. Himbriminn lét í sér heyra og flugurnar voru líka tilbúnar, hvenær sem vind lægði.

Allstaðar eru vötn og lækir og fiskur í þeim öllum. Bæði bleikja og urriði. Allstaðar reyndist vera fiskur, heldur smár fyrst til að byrja með og þeim sleppt. Það verður að velja þann fisk, sem maður treystir sér til þess að bera með sér til baka. Eftir hádegið var haldið heim í kofa með níu væna silunga 7 urriða og 2 bleikjur, frá tæpu kílói upp í tæp tvö kíló. Matur var næst á dagskrá og öl með. Þetta var herramannslíf. Smá siesta næst á dagsskrá. Seinna um daginn var áfram haldið til veiða og enn önnur svæði könnuð. Sama sagan, alls staðar fiskur.

 

Sæll og ánægður gekk ég til náða þegar sólin var kominn í purpurarauðan lit á norðaustur himni.

Það er víst að verndunarsjónarmið eru sjálfgefin þarna úti á heiðinni. Þú veiðir ekkert meira, en þú treystir þér til þess að bera alla leiðina til baka.

 

Laugardagurinn heilsaði bjartur og fagur og álftahjónin skröfuðu um daginn og veginn. Logn var dottið á.  Við þannig aðstæður verður mývargurinn ansi ásækinn. Besta ráðið var að væta andlitið í sífellu til að halda varginum örlítið frá, en þar kom að ég sá mína sæng útbreidda. Aflinn var orðinn nokkuð þungur, þannig að ég taldi mig eiga nóg með að bera hann til baka og svo var mýið ansi ágengt í logninu.

Heim í hús og pakkað saman þótt stutt væri á morguninn gengið, en ég var samt ekki alveg búinn að gefast upp. Ég ætlaði að veiða á leiðinni til baka, enda vissi ég af nokkrum góðum stöðum á þeirri leið.

Meðfram læknum gekk ég þar til ég stóð á bakkanum og taldi 1,2,3,4,5.... uppí 17 bleikjur í einum litlum hyl. Bakkinn var hálfan annan meter yfir hylnum og þær hreyfðu sig varla. Hitinn var 22 gráður. Ég snara af mér bakpokanum og klæjaði í fingurnar og það var hreinlega ekki hægt að ganga fram hjá slíku gnægtarborði veiðigyðjunnar.

 

Kasta út og dreg inn, ekki hreyfing !. Kasta aftur út og dreg inn - ekki hreyfing.  Nú borgar sig að prófa eitt og annað. Þar sem ég sé vel fluguna fara yfir hylinn og yfir torfuna, þá stoppa ég að draga inn og flugan smá sekkur, þá sé ég bleikju eina koma að opna kjaftinn og flugan hverfur ? bregð við og bleikja á. Næsta alveg eins og hún líka í pokann. Sleppti þeirri þriðju, aðeins of lítil. Stærsta bleikjan var á að giska vel á þriðja pundið og mest langaði mig í hana. Í þriðju tilraun tók hún líka. Stopp, nú er komið nóg.  Já, það er skrýtin tilfinning að hætta að veiða vegna þess að maður getur ekki borið það sem maður gæti efalaust veitt.  Af náttúrunnar hendi er því útilokað að um ofveiði verði nokkurn tíma að ræða þarna.

Já, mál til komið að flýja fluguna og koma sér í bílinn.

 

Austuráin rennur austan við slóðann á heiðinni og þar eru stundum bleikjur og urriðar sem gaman er að eiga við, ég vissi aldri hvor tegundin það var sem sleit 10pd tauminn hjá mér fyrir nokkrum árum. Þótt ég væri nokkuð þreyttur eftir gönguna, þá hressti ölið og rúgbrauðið veiðimanninn á ótrúlega stuttum tíma og nú var flugnanetið líka til staðar og haldið beinustu leið niður í Austurá, rúmlega stundarfjórðungsganga. Þegar á bakkan var komið settist ég niður og virti fyrir mér hylinn sem ég kannaðist svo vel við úr minningunum. Dregið út og stutt kast í miðjan strenginn og ... já hann var á. Skemmtilegur spegilfagur urriðahængur hátt í þriðja kílóið kórónaði þessa veiðiferð sem endaði í slíkri hellidembu á leiðinni til baka að það var bókstaflega ekki þurr þráður á undirrituðum er að bílnum kom.  Söngur var þó í sál og hjarta og þakklæti fyrir ósnortna náttúruna og veljvilja veiðigyðjunnar.

Þú ættir einhvern tíma að prófa lesandi góður.

 

Með veiðikveðju,

Geir Thorsteinsson.

12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði