Það er skammt liðið á júlí mánuð og enn er mjög lítið af laxi gengið í Grímsánna. Þó eru stöku laxar að skríða upp ánna en það vantar allan kraft í þetta. Áin er mjög heit, vatnsbúskapurinn ágætur, ósinn í lagi en það vantar bara fiskinn. Sjóbirtingurinn er reyndar farinn að láta sjá sig en ekki í miklum mæli. Reyndar eru aðstæður til laxveiða ekki góðar, sól og aftur sól, varla ský á himni og vægast sagt brakandi blíða.
Sterkir strengir
Þennan fagra júlídag er risið snemma úr rekkju enda er um að gera að byrja sem fyrst áður en sólin bakar bæði menn og fiska. Þegar út er komið um kl. 07:00 er þegar orðið ansi heitt. Við eigum neðsta svæðið sem er við veiðihúsið. Þingnesstrengirnir eru vanalega sterkir á þessum tíma árs. Þegar við komum að þeim sjáum við lax stökkva, silfraðan og glæsilegan, og ég krosslegg fingur í þeirri von að loksins væri komin alvöru ganga í ánna.
Við byrjum að veiða með smáum flugum en eina sem gerist að ráði að stöku lax eltir en sýnir síðan engan áhuga. Ég sé það fljótlega að þarna er ekki mikið af fiski og satt og segja verð ég fyrir miklum vonbrigðum. Við reynum stórar flugur, litlar flugur, hitch, stripp og ekkert gerist. Sólin hækkar stöðugt á lofti og hitinn er að verða óbærilegur, bæði fyrir menn og fiska. Fiskurinn er greinilega lagstur því við erum steinhættir að sjá nokkra hreyfingu.
Gin og glaðningur
Við ákveðum að setjast niður, fækka fötum og kallinn stingur uppá að skála í gin og tonic fyrir veiðigyðjunni, sem er ansi oft ákölluð þegar rólega gengur. Við liggjum uppí móa og tölum um heima og geima. Skyndilega kemur smá gjóla og eftir skamma stund kemur einmanna ský og dregur fyrir sviðið, sem eru enn Þingnesstrengir. Við heyrum að einhverjir laxar eru vaknaðir til lífins, því þegar laxinn lendir á vatninu eftir glæsilegt stökk er himnesk músik í eyrum veiðimannsins. Sérstaklega þegar ekkert hefur gengið.
Pirringur
Einsog kallinn lifna ég við þegar ég bæði sé og heyri að einhverjir laxar eru komnir á stað. Þegar við komum fram á bakkann er mikið spáð og spekúlerað, kallinn vill setja Black Sheep no.12 undir og það er engu tauti komið við, hún skal útí. Það gerir hún og ekkert hefst uppúr krafsinu. Kallinn er orðinn ansi einbeittur eða kannski þver og afþakkar alla hjálp. Ég ákveð því að draga mig í hlé. Það gengur ekkert hjá kallinum og mér sýnist hann vera orðinn ansi pirraður, pirraður er kannski vægt til orða tekið. Einbeitingin er farinn og hann veiðir með hálfum hug.
Crazy little thing called...
Ég geng að honum og reyni að peppa hann upp. Ég spyr hann hvort hann vilja gera svolítið ,,crazy?, hann verður eitt spurningamerki í framan, lítur til hliðanna og hvíslar, afsakandi, ,,áttu maðk?? Ég brosi kankvíslega og hugsa með mér hvort öll vígin væru fallin, siðapostulinn í fluguveiðinni er eftir allt breyskur eins og aðrir menn.
Ég svara honum að svoleiðis græjur væri ég ekki með enda er það með öllu ólöglegt. Ég vippa höndinni í hægri brjóstvasan og tek upp box, merkt púpur. Ég sveifla opnu boxinu fyrir framan hann og verður hann eitt spurningarmerki í framan. Ég er jafnvel ekki frá því að hann haldi að ég sé endanlega gengin af göflunum. Augun glennast upp eins og í uglu í myrkri þegar hann sér að mér er alvara, ég get ekki annað en brosað með mér. ,,Jæja því ekki hann er búinn að vera helv??.. erfiður svo ég geri þetta fyrir ÞIG? segir hann. Hann leggur áherslu á orðin ÞIG . Þegar hann er að bæglast við að setja Peacockinn undir, sem ég veðjaði á, gjóar hann augunum að mér, lymskulega, hann hefur greinilega enga trú á þessu. Engu síður , að endanum, fer peacockinn út í hina ,,frægu? Þingnesstrengi.

Jómfrúarferð
Hún er ekki búinn að vera lengi í sinni jómfrúarferð þegar stöngin kengbognar. Satt að segja veit ég ekki hvorum brá meira, veiðimanni eða fiski, ég veðja samt á veiðimanninn. Hann kemur varla upp orði, svo hissa er hann en hann nær að stynja, með erfiðismunum, ?ég er með ´ann. Ég tek þátt í leiknum, ,,þú segir ekki glæsilegt, þú ert góður?
Hann brosir í áttina að mér og ég er ekki frá því að hann sé sammála mér. Þetta er allvænn lax og peacockinn er hnýttur á einkrækju. Kallinn er orðinn svo æstur, enda er orðið langt síðam hann hefur sett í lax, þannig að ég er ekki viss hvor hreyfir og beygir stöngina fiskur eða veiðimaður. Á endanum held ég að það sé fiskurinn því skyndilega kveður hann, greinilega of heitt til að standa í þessari leikfimi. Kallinn lyppast niður eins og hann beri allar byrðir heimsins á herðum sér. Þegar ég kem nær heyri ég ,,Af hverju? ekki einu sinni heldur ansi mörgu sinnum, ég hugsa með mér að þetta er greinlega vel rispuð LP plata.
Ég klappa honum á öxlina og segi, lævíslega, þeir voru tveir á eftir peacocknum. ,,Er það? Hann sprettur upp og ég er ekki viss um að gormur í lélegu rúmi hafi verið eins snöggur. Púpan út, ég krosslegg fingur og lofa að ljúga ekki framar nema það sé í þágu veiðanna í Grímsá. Viti menn aftur kengbognar stöngin, ,,lax á? hrópar hann að þessu sinni svo að sumir spörfuglanna hrökkva við og horfa forundran á þessa tvífættu bjána.
Að þessu sinni gerir hann allt rétt, nema að laxinn kveður í löndun og sveiflar silfruðum sporðinum í kveðjuskyni. Eftir þetta ákveðum við að ganga af leiksviðinu, þokkalega sáttir. En ég hef ansi lúmskan grun að kallinn hafi heilsað uppá Dillon og það ærlega.
Sendandi með veiðikveðju:
Rögnvaldur Hallgrímsson
Peacock vinnur leikinn
Sagan um sigur Peacocksins í Grímsá (hér að ofan.) rifjar upp gamla minningu frá sagnakvöldi með Guðmundi Hauki veiðimanni. Að þessu gefna tilefni báðu Flugufréttir Guðmund að rifja upp sigurstundina góðu með þessa ólíklegu laxaflugu:
Peacock fuglinn er glæsilegur
,,Það var eitthvert haustið að við hjónin vorum við veiðar í Grímsá sem oftar. Hyljir árinnar voru víða fullir af laxi og veiðimenn höfðu vikum saman kastað öllum gerðum og stærðum af laxaflugum á veiðilegustu staðina.
Einn þeirra er Oddstaðafljót sem er skammt neðan við ármótin þar sem Tunguá rennur í Grímsá. Þegar líða tekur að hausti er sagt að þar búi laxinn á þremur hæðum eða jafnvel fleiri þar sem dýpra er.
Þetta er einn vinsælasti veiðistaður árinnar enda alltaf einhver lax á lofti allan daginn. Halda mætti að þarna gengi maður að því vísu að fá fisk en það þekkja þeir sem á þessi mið róa að oftar er þar sýnd veiði en ekki gefin. Það kom að okkur fyrripartinn af seinni partinum að reyna við Oddstaðafljótsbúann og við gerðum eins og flestir aðrir og eftir ráðleggingum þeirra sem trúverðugastir voru í hollinu, við skiptum stöðugt um flugur, settum smáar og stórar í öllum litum, skrautlegar og látlausar, flugur með flott ensk heiti og aðrar sem höfðu ekkert merkilegt nafn að bera.
Það var alveg sama hvað var sýnt, laxinn hélt áfram að stökkva út um allan þennan langa hyl án þess að virða flugur okkar viðlits.
Þegar bókstaflega allt hafði verið reynt fór ég að bílnum og náði í silungafluboxið. Nú skildi eitthvað reynt sem laxinn hefði ekki séð áður: Peacock flaug létt yfir að norðubakkanum og andartaki síðar var eini fiskur dagsins kominn á. Þetta var 4-5 pundari og var landað eftir skamma viðureign.
Ekki veit ég hvort það var píkokkinum að þakka eða bara því að þarna hitti ég á fisk í tökustuði og oft velti ég því fyrir mér hvað því veldur að engin taka er þrátt fyrir geysilegt fiskmagn.
Þegar við vorum að fara og nýtt holl að koma í hús var þar mættur meistari vor og höfundur píkokksins, Kolbeinn Grímsson, og ég gat ekki á mér setið að benda honum á að vera ekki með fínu flugurnar með flottu nöfnin en setja þess í stað píkokk undir. Þótt þessi athugasemd mín hafi í fyrstu virst bullið eitt hefur sagan um laxinn sem tók píkokk flogið og ég hef sannfrétt að fleiri hafa átt góðar stundir með þessari einföldu púpu við laxveiðar.
Guðmundur Haukur Jónsson