Ég skrapp í leiðsögn í Norðurá II í dag með þrjá Skota. Veðrið var ekkert sérlega skemmtilegt, norðan kaldi og mikið rok. Tveir þeirra höfðu aldrei veitt lax þannig að maður þurfti að leggja sig allan fram. Sem betur fer komu þeir óvönu með ?15 feta tvíhendur? sem duga í hvaða veðri sem er. Ég
byrjaði að láta þá alla reyna gárutúpur. Og viti menn allir fengu tökur en enginn hékk laxinn á. Ég þurfti að taka einn í kastkennslu. Með 15 feta
stöng getur hver sem er kastað. Hann setti bara út þá línu sem þurfti og þverkastaði svo allan daginn.
Ég hitti Ólaf Hauk gamlan veiðifélaga sem var að veiða á Norðurá I og voru allar stangirnar komnar með 58 laxa eftir einn og hálfan dag. Þvílík veiði
og það er kominn 10 ágúst.
Ég skildi svo þennan óvana eftir en sagði við hann að nota bara Frances rauða á gull þríkrækju no 10. Síðan fór ég í leiðangur með einn þeirra upp
að Fornahvammi við rætur Holtavörðuheiðar. Veiðivörðurinn sagði við mig um morguninn að fáir hefðu farið þangað upp eftir. ?Farðu í Olnboga?. Ég verð að viðurkenna það sem gamall leiðsögumaður að þangað hef ég aldrei komið. Við fundum hylinn og í þriðja kasti kom á 10 punda hrygna á rauðan Frances á gullkrók no 10. Þær klikka ekki þegar maður er að leita að fiski. Henni var umsvifalaust sleppt, enda tveggja ára fiskur úr sjó og grútlegin. Síðan kom hádegi og sá óreyndi fékk lax, á gull Frances fluguna. Þá voru tveir Skotanna komnir með lax en sá þriðji engan.
Eftir hádegi hagaði ég því til að hann byrjaði í besta hylnum þar sem mest var af laxi eða í Símahyl. Hann byrjar þar en fær ekkert. Hinir byrja í
Beinhól og Neðri Ferjuhyl og fá báðir lax. Annar tekinn á Langá Fancy gárutúpu en hinn Rauða Frances á gullkrók númer 10. Nú var komið dálítið
stress í mig að láta þann þriðja veiða lax. Ég ætlaði með manninn í Neðri Ferjuhyl en þá datt mér í hug að fara með hann í Klapparhyl sem er við stóru brúna áður en maður fer upp á Holtavörðuheiði. Það var bálhvasst og lofthiti ekki nema 8°C. Ég hugsaði með mér. "Láttu hann byrja með eitthvað sem sem sekkur vel. Annað hvort tekur hann strax eða ekki". Undir fór þung keilu Frances og það var á í þriðja kasti. Fjögurra punda putti og túrnum reddað. Enda var mikil kátína í bílnum á leið í bæinn. Fimm laxar á þrjár stangir í norðan strekkingi í Norðurárdal.