2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
16.1.2020

Í himnaríki er rennslið fullkomið og vatnið kristaltært - úr safni Flugufrétta

Þannig lýsir Guðmundur Atli Ásgeirsson fallegustu veiðistöðunum í Fossá í Þjórsárdal. Flugurfréttir settust niður með Guðmundi til að ræða feril fluguveiðimanns og fögru ána sem hann tók á leigu ásamt félaga sínum fyrir þremur árum. Hérna lýsir Guðmundur Atli Fossá, greinin birtist upphaflega 14 janúar 2017. Myndin af Háafossi er frá Guide to Iceland. 

 "Fyrstu bernskuminningar mínar eru tengdar veiði og mér líður eins og ég hafi alltaf verið veiðimaður. Sem gutti í Hafnarfirðinum fór ég á hjólinu mínu með veiðistöngina að Urriðavatni og jafnvel alla leiðina að Kleifarvatni og miklu víðar. Pabbi hafði ekki mikinn áhuga á veiði en honum hafði áskotnast fluguveiðistöng og ég suðaði í honum að gefa mér hana í afmælisgjöf þegar ég varð ellefu ára. Þá tók við nýr kafli í lífi mínu því eins og menn vita þá er fluguveiðibakterían mun skæðari en önnur veiðibaktería. Ég fór strax að æfa mig af miklum móð úti á túni og menn sem áttu leið hjá, og virtust kunna vel til verka, stöldruðu við og kenndu mér undirstöðuatriðin. Líklega hafa þetta verið einhverjir karlar úr Stangaveiðifélagi Hafnarfjarðar, ég veit það ekki, en ég lærði af þeim," segir Guðmundur og hlær að minningunni.

Fyrst um sinn veiddi ég bara silung en núna veiði ég jöfnum höndum silung og lax. Ég kolféll fyrir urriðasvæðunum í Laxá fyrir norðan á sínum tíma en fer minna þangað nú orðið. Því það er auðvitað hægt að komast í skemmtilega urriðaveiði víðar. Þar get ég til dæmis nefnt silungasvæðið í Ytri-Rangá. Ég hef lent í svakalegri urriðaveiði þar og sett í fiska sem eru frá fimm og upp í þrettán pund. En þeir eru dyntóttir eins og gengur og taka stundum bara á litlum punkti, allt steindautt en svo er kannski brjáluð taka við lítið horn neðst í hylnum. Ef maður hittir á þá í stuði þá er ótrúlega skemmtilegt að veiða þetta svæði þarna upp frá." En hvað með Fossána? Hvernig stendur á því að þú ert með hana á leigu? "Við Jonni félagi minn erum með Fossá á leigu og líka Laugardalsá í Djúpinu. Við bara kolféllum fyrir þessu svæði og næsta sumar verður fjórða sumarið sem við erum með ána. Frá Hjálparfossi niður í Þjórsá eru um tveir km og það er laxasvæðið, nánast samfellt veiðisvæði með kristaltæru vatni og fulllkomnu rennsli eins og maður væri staddur í himnaríki. Fyrir ofan Hjálparfoss og upp að Háafossi er síðan urriðasvæði sem er ekki síður fallegt. Ég hef farið þarna með erlenda veiðimenn og þeir hreinlega falla í stafi, gapa af undrun og geta varla veitt, svo heillaðir eru þeir af hamrabjörgunum, stuðlaberginu, fossunum, tæru árvatninu og öllu umhverfinu.

Jonni félagi Guðmundar með fallegan hæng úr Fossá.

Síðasta sumar var það besta frá því við tókum ána á leigu og gaf um 200 laxa á tvær stangir. Sá stærsti var sléttir 100 sm en einnig komu nokkrir yfir 90 sm á land. Þar fyrir utan stend ég á því fastar en fótunum að ég sá einn 25-30 punda í Hjálparfossi en hann leit auðvitað ekki við neinu. Hjálparfoss og breiðan þar fyrir neðan er alveg guðdómlegur veiðistaður. Háifoss er ekki síður fallegur, næsthæsti foss á Íslandi sem fellur niður í einni bunu eins og skrúfað hafi verið frá sturtu. Á milli hans og Hjálparfoss er urriðasvæðið. Það hefur verið að gefa 200-300 urriða yfir sumarið og þar eru líka leyfðar tvær stangir eins og á laxasvæðinu. Þetta eru fallegir urriðar, algeng stærð frá 45-55 sm, en efst í gljúfrunum eru þeir gjarnan smærri

Stærsti laxinn úr Fossá síðasta sumar.

.

Óþekktur veiðimaður með 100 sm hæng.

Landsvirkjun sleppti einhverju af laxaseiðum í Fossá á árum áður en ég held að stofninn í ánni sé samt sem áður bara náttúrulegi stofninn úr Þjórsá sem er sterkur stofn. Það fóru til að mynda fleiri en 2.000 fiskar um teljarann við Búðarfoss í fyrra. Vatnasvæði Þjórsár er alveg ótrúlegt laxasvæði og ég held að Kálfá sé til dæmis ein besta laxveiðiá landsins þótt það fari ekki hátt. Fossá er eingöngu veitt og sleppt, bæði í urriðanum og laxinum. Síðasta sumar voru litlar Collie Dog flugur mjög sterkar í laxinum en síðan einnig þetta vanalega, Rauður Frances og Sunray. Oft er hægt að gera góða veiði á þurrflugur í urriðanum, til dæmis með Daddy Longleg í gljúfrunum, en svo eru menn að púpa þetta og beita dökkum straumflugum með góðum árangri. Mér finnst Fossá vera algjör perla. Umhverfið er ægifagurt og áin svo hrein og tær. Þar er ekkert sem getur truflað alsælu veiðimannsins við Fossá í Þjórsárdal nema ef væri forvitnir túristar á vappi um bakkana en þeir laðast skiljanlega að þessu stórbrotna umhverfi," sagði Guðmundur Atli í spjalli við Flugufréttir.

12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði