Sjóbleikjan er kenjóttur fiskur. Um það geta allir fluguveiðimenn verið sammála. Einn daginn tekur hún ekki neitt, þann næsta er alveg sama hvað dettur í vatnið, hún tekur það og svo hitt þegar hún verður kresin á flugurnar sem við sýnum henni og þóknast að taka þyngda nymfu í tíu mínútur, síðan gerist ekkert fyrr en maður setur straumflugu undir, kastar undan straumi og dregur hana upp flúðirnar og inn á lygnan hyl og einhversstaðar á miðri leið tekur hún - en þú missir hana, annað hvort vegna þess að þú tókst of fast á henni eða takan var of naum eða hreinlega þú brást ekki rétt við fiskinum. Lyfta stönginni hægt, halda við línuna, toga varlega, telja einn ..tveir og rykkja! Ef ekki er fast í henni núna, þá er hún vísast farin.
Einbeiting
Svo er það auðvitað blessaður tökuvarinn, en hann kemur að litlum notum þegar hann hverfur í iðuna og elginn. Þá gildir að hafa einbeitingu og næmi í fingrunum og bregða nógu hratt við þegar maður finnur tökuna. Oft spýtir bleikjan flugunni út úr sér þegar hún verður þess áskynja að agnið er ekki ekta æti, en það er hægt að finna þegar hún er að rjátla þetta við fluguna, jafnvel í straumvatni - Það er bara spurning um einbeitingu. Þegar maður er við veiðar þá er maður við veiðar. Ég hef tekið eftir því að ef hugurinn hvarflar eitthvert annað - sem gerist nú reyndar mjög sjaldan, en það kemur fyrir að ég velti því fyrir mér hvernig ég eigi nú að standa skil á reikningunum um næstu mánaðamót og öðrum ámóta ómerkilegum hlutum og þá ber svo við að ég verð ekki var. Það gerist ekkert fyrr en ég sný mér óskiptur að veiðunum. Tilviljun? Það er eitthvað sem segir mér að svo sé ekki.
Eyjafjarðará
En ég var að tala um sjóbleikuna, þennan dásamlega fisk sem er einhver sábesti matfiskur sem ég get hugsað mér og gaman er að setja í eina 5 punda og landa henni - maður lifandi! Ég hef veitt sjóbleikju víða um land og kannski jafnast ekkert á við sjóbleikjuna í Eyjafjarðará, sem getur orðið gríðarlega stór eins og menn vita. Allt upp í 10 pund. Þessir stórfiskar veiðast undantekningalaust á efsta veiðisvæðinu, sem nefnt er 5. svæði. Heyrst hafa sögur af mönnum sem fara frá veiðistað með 50 - 70 fiska sem hafa verið slitnir upp af sama blettinum nánast. Mér er svo sem sama þótt menn keppist við að veiða sem mest og sem stærsta fiska - hitt þykir mér verra að það er oftar en ekki erfiðara fyrir "aðkomumenn" að fá veiðidaga á þessu efsta svæði. Það eru "ákveðnir" einstaklingar sem einoka þessi bestu svæði, hafa gríðarlegt magn af fiski brott með sér og haga sér á margan hátt eins og þeir "eigi" þessi "bestu" svæði. Þessir svonefndu "aðkomumenn" geta gert sér að góðu að berja allan liðlangann daginn á neðri svæðunum, sem eru helmingi torveiddari og þar er fiskurinn allur minni, því það er eins og stærstu og sterkustu fiskarnir rjúki beinustu leið upp alla ána og safnist saman í hyljum, strengjum og lænum uppi á 5. svæði. Norðanmenn ættu að athuga þetta hjá sér. (Ég hef þetta eftir fróðum mönnum nyrðra).
Vestfirðir
Hins vegar komst ég í kast við sjóbleikju á Vestfjörðum í fyrra. Ég fór með fjölskylduna í sumarfrí og þá pakkar maður stönginni með, svona til öryggis. Ég tók nefnilega eftir því þegar við ókum sem leið lá frá Hólmavík um Strandirnar þar sem ég dáðist að öllum rekanum sem lá í fjörunni og Djúpið þar sem maður fékk á tilfinninguma að fjöllin væru að hvolfast yfir veginn, að litlar ár og lækjarsprænur seytluðu í hægðum sínum til sjávar inni í hverjum fjarðarbotni sem þurfti að krækja fyrir svo maður kæmist til Súðavíkur, þar sem fjölskyldan ætlaði að hafa vikudvöl og fara svo út í
Mjóafjörð á ættarmót í kjölfarið. Jæja, sem ég virði fyrir mér þessa læki alla sem áttu upptök sín uppi á fjalli þaðan sem þeir fossuðu niður
hamrabeltin og áfram eftir hlykkjóttum gilskorningum yfir malareyrar, meðfram grasbölum undir brú eða ræsi og sameinuðust að lokum söltum mar, þar sem blöðruþangið breiddi úr sér meðfram svartri sandströndinni á útfallinu, en hyrfi síðan á flóðinu sem næði að breyta lækjarsytrunni í hálfgert
stöðuvatn meðan liggjandinn varði, þá hugsaði ég með mér að sjóbleikja hlyti fjandakornið að ganga upp í svona ár, þótt ekki væru þær merkilegar í sjálfu sér. Þessi grunur minn reyndist á rökum reistur.
Veisla í farangrinum
Súðavík stendur við Álftafjörð sem oft er mjög lygn og tær, enda fjöllin í kring til þess fallin að skýla fyrir vindi, þegar áttin er þannig. Ég notaði fyrsta tækifæri sem gafst til að skreppa fram í fjarðarbotn og renna flugu í þessa á, sem mér var sagt að hefði að geyma sjóbleikju. Það merkilega var - að það var enginn sem "átti" þessa á. Hún bara rann í rólegheitum til sjávar og enginn krafðist þess að fá greiðslu fyrir þá fiska sem kynnu að koma á land. Ég var bara frjáls
veiðimaður í frjálsu einskismannslandi. Enda held ég að Vestfirðingum þyki ekki mikið til þess koma að draga einn og einn fisk upp úr lækjarsprænu með öngli á priki. Nei - þeir eru stórtækari í fiskveiðum en svo. Eða voru það að minnsta kosti áður en megnið af kvótanum var seldur burtu.
Sól skein í heiði og ég var staddur á bakkanum á útfallinu. Ég hafði gengið spölkorn upp með ánni, sem var ekki nema svo sem ökkladjúp víðast hvar. En ég gekk fram á streng sem endaði í "læradjúpum" hyl. Stór steinn klauf strauminn efst í strengnum svo ég hugsaði mér að kasta nymfu með kúluhaus á steininn og láta hana reka frjálst ofan í hylinn nokkrum metrum neðar. Ég reyndi hefðbundnar en ekkert gekk - mér fannst ég finna smá snertingu niðri við botn en það gat líka hafa verið steinn eða einhver önnur fyrirstaða. Af því að veðrið var bjart ákvað ég að prófa ljósari gerð af flugu og fann þá eina í boxinu sem veiðimaður á Akureyri hafði rétt mér. Ég veit ekki ennþá hvort hún heitir nokkuð, en hún er með silfurkúluhaus, hnýtt úr hvítri kanínuull með silfurgliti og hvít fjöður notuð sem stél. Viti menn, taka um leið og kúpan rann ofan strenginn. Væn 2 punda bleikja lá á bakkanum skömmu síðar og glíman var bara skemmtileg. Ég prísaði flugua í huganum, kastaði henni út aftur og lét hana lenda á sama blettinum. Rekið var eins (enginn tökuvari þá) og taka um leið, en ég var svo hissa að ég náði ekki að bregða rétt við. Missti. Kastaði aftur, högg! Færði mig neðar og kastaði. Nú var hún á. Heldur minni en sú fyrsta. Áfram hélt þetta og heim fór ég með fjórar vænar sjóbleikjur. Ég gaf þær konunni í næsta húsið við okkur, þeirri sem sagði mér að hægt væri að veiða bleikju frammi í fjarðarbotni og hún bauð til veislu með það sama.
Tíminn og tilveran
Nú ári síðar er ég aftur kominn til Súðavíkur og dvel með fjölskyldunni í Bjarnabúð. Les veiðibækur á kvöldin - Lífsgleði á tréfæti eftir Stefán Jónsson - áreiðanlega í þriðja sinn og Áin niðar eftir Kristján Gíslason og ég óska þess að hafa visku þessara manna í farteskinu, en læt mér það lynda að vera kominn þangað sem ég er staddur núna í fluguveiðinni. Viskan kemur með reynslunni og árunum. Ég get ekki neitað því að ég sé dálítið eftir öllum þeim tíma sem ég eyddi í að rápa milli bara og partía hér á árum áður í stað þess að nota hann til að þroska mig í fluguveiðinni. En allt hefur sinn tíma eins og þar stendur og í þá ritningargrein mætti setja: "Að veiða hefir sinn tíma"!
Hugsið ykkur hvað það gæti verið fallegt að vera staddur í góðu veðri austur
á Þingvöllum, vera orðinn 85 ára gamall, sáttur við Guð og menn - með
flugustöng í hönd - landa einni 4 punda bleikju - leggja hana í grasið við
hliðina á sér og fá síðan vægt slag, líða útaf og ....
Kveðja
Valgeir Skagfjörð
Upphaflega birt í apríl 2002