2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
28.1.2020

Á heimsmeistaramóti í fluguveiðum. Ferðasaga - úr safni Flugufrétta

 Fyrr í vetur sögðum við frá Íslandsmótinu í Fluguveiðum sem fram fór í Brúará sumarið 2000. Björgvin A Björgvinsson var þar krýndur Íslandsmeistari. Núna förum við erlendis og fáum að heyra ferðasögu frækinna félaga sem héldu til keppni á heimsmeistaramótinu í fluguveiðum haustið 1999 fyrir 20 árum síðan. Stefán Jón Hafstein segir frá ævintýrum þeirra félaga og árangri í keppninni. Gjörið svo vel. 

 Laugardagur í september árið 1999 rann upp með örfáum skýjum á himni, regnvotri jörð og góðum árbíti heima á bændagistingu frú Geirþrúðar í "Oldtown B and B". Við vorum á leið á opna meistaramótið í silungsveiðum. Þeir sem renndu nú í hlað undir kastalaveggjum Mount Juliet-setursins voru: fararstjórinn Ásgeir Halldórsson í Sportvörugerðinni, Garðar Scheving fluguveiðimaður, og yðar einlægur, þeir síðarnefndu að hefja keppni í nafni Íslands.  Engin úrtökukeppni hafði farið fram, við vorum tilnefndir sem undanfarar Íslands í keppni á mótum sem þessum.  Eins konar tilraunadýr.

Mount Juliet er ekta glæsisveitasetur á grasi grónum hæðum Írlands, í dásamlegri umgjörð þar er kórónan er golfvöllur sem Jack Niclaus hannaði. Hér er leikvangur þeirra sem hafa ekki áhyggjur af smámunum. Um lendur rennur áin Nore, stór og mikil, geymir lax, sjóbirting og urriða. Hún er fremur lygn, þótt Írum finnist hún hröð. Og svo renna í hana minni sprænur undir laufþaki trjáa.

Við vorum mættir!

Keppnin
Fimmtíu og þrír veiðimenn úr heimshornum voru á hlaði kastalans: Pólverjar, Bandaríkjamenn, Belgar, Hollendingar, Frakkar, Walesverjar, Englendingar - og þessir tveir íslensku keppnismenn undir öruggri stjórn Ásgeirs. Ásgeir er Cortland-maður Íslands, og þar sem þetta vel þekkta veiðivörufyrirtæki var aðlastyrkjandi mótsins lá beint við að Sportvörugerðin sendi sveit.

Við vorum eftirvæntingarfullir, en ákveðnir í að hafa gaman af þessu öllu og vera landi og þjóð til sóma. Stuttvagnar og jepplingar voru merktir ákveðnum veiðisvæðum til að bera okkur að réttum punktum. Búið var að draga hvar maður veiddi, fjögur voru svæðin og á hverju þeirra 12-15 veiðimenn í einu. Hver veiðimaður fengi að veiða einu sinni á greindu svæði, í einn og hálfan tíma í senn, við númer sem þar hafði verið komið fyrir á spjaldi. Ég spurði um þá bakkalengd sem maður fengi útaf fyrir sig. "Að minnsta kosti 20 metra"! var svarið.

Þetta yrði ansi miklu þéttara en maður er vanur!

Kaffi
Þetta var eins og her að leggja í orustu, 50-60 veiðimenn og hjálparkokkar í glæsilegum veiðibúningum, höfuðfötin voru af ýmsu tagi og stangirnar og hjólin! Hvílík dýrð!

Og svo horfði maður niður brekkuna og yfir ána. Drottinn minn dýri.

Þetta var eins og að vera boðinn í svartasta expressó. Einhver angi af fellibyl frá Flórída hafði komið nokkrum dögum áður yfir Írland og skolað öllu drullumalli sem hægt var að finna út í ár og vötn. Nú rann svartasta kaffi með grónum bökkum, eins og sorgarrönd undir nöglum grænu gyðjunnar!

Blásið til leiks
Hér voru komnir saman ótrúlegir snillingar og minni spámenn, bílar renndu úr hlaði með okkur og alvæpni innanborðs. Ég var sendur upp með á þar sem við skondruðum í átt að þessari írsku Skaftá. Búið var að setja niður stikur með hvítum spjöldum á 20-30 metra fresti, þetta voru "númerin" sem við höfðum dregið, dómarar voru í tjaldi og með talstöðvar og bækur tilbúnar að skrá aflann. Hvert númer fékk einn dómara og minn heilsaði með þessum ágætu orðum Leonards Cohens: I?m your man.

Þungur völlur
Mr. Hafstein átti að veiða meðfram grasi grónum bakka, til hægri handar var stórt tré, til vinstri handar líka, en þar á milli hafði ég svigrúm til að kasta í vatnið sem beljaði fram kolsvart.

Ég taldi líkur á veiði mjög þverrandi.

Maður er samt ekki alveg óvanur svona aðstæðum, og ég vonaði að nú kæmi "þungur völlur" til hjálpar okkur Frónbúum, sem veiðum við miklu sveiflukenndari aðstæður en almennt tíðkast. Þegar rásmerkið var gefið hlægði mig að sjá næstu keppendur þenja sig út á miðja á. Ég setti nefnilega þyngdar púpur undir og kastaði stutt frá bakka. Maður þekkir úr vorveiðinni íslensku, þegar ár bólgna, að þá fara fiskar undir bakka þar sem hægara er.

Svona leið klukkutími. Keppnin var fólgin í því að veiða sem mesta heildarlengd urriða á flugu, sem mátti ekki vera stærri en númer 12. Ekki mátti vera með skottlangar flugur, því heildarlengd flugu og önguls mátti vera 2 sentimetrar og 1/3 að auki. Þetta voru greinilega reglur sem sniðnar voru að öðru vatni en því sem við veiddum. Ég grínaðist við dómarann sem settur var mér til eftirlits að heima myndum við veiða á sökklínu og nota straumflugur númer 2 með sérlega löngu skotti í svona vatni. "The Rector"!

Svo bárust boð í talstöð um að í einni af hliðaránum hefðu náðst fiskar, og einn jafnvel sæmilegur.

Ég skipti yfir í minnstu Flæðarmús sem ég átti þegar bakkinn hafði verið þaulveiddur, hún er hönnuð fyrir jökulár, en allt kom fyrir ekki. Fyrsta lota var búin og við vorum flestir stigalausir.

Joe
Versti keppnishrollurinn fór úr manni við þessar erfiðu aðstæður, alveg var ljóst að engin met yrðu slegin þessa helgi, og á leiðinni í "tea and bisquits" vorum við sammála um það nokkrir keppendur að hér skipti minnstu leikni, heppnin væri fólgin í að koma flugunni upp í fisk sem sæi ekki neitt frá sér í grugginu.

En þar höfðum við rangt fyrir okkur.

Á kastalahlaðinu var nefnilega uppi fótur og fit. Garðar Scheving og Ásgeir höfðu verið vitni að því þegar aldraður ameríkani dró þrjá fiska, og þarf af einn sæmilegan, upp úr morinu. Þeir voru yfir sig hlessa: flugan sem hann notaði var hábjört appelsínugul drusla, þyngd með augum. Kallinn veiddi aldrei lengra úr frá sér en þrjá metra. Þannig kembdi hann meðfram bakka og á þetta náði hann fiskunum. Sjónvarpsfréttamenn og blaðasnápar með myndavélar sópuðust að honum, hann var eins og poppstjarna í stúlknafans, glotti við tönn og var efstur í keppninni.

Þetta stefndi í að verða upplifun!

Barist til þrautar
Næstu 90 mínútur átti ég að veiða í grennd við kastalann og kom mér fyrir við rásmarkið á tilgreindum tíma. Hvít spjöld á árbakkanum afmörkuðu svæðin, ég lenti á 10-15 metra bás, sem var með háum trjám til beggja handa, og slútu þau út yfir vatnið. Með bakkanum var sef, en utar áin í einum stokk, kaffibrún. Trúr minni sannfæringu setti ég þyngdar púpur undir, kúluhausa, og veiddi vandlega með bakka. Svo lét ég ýmsar flugur berast undir trjákrónuna, sannfærður um að þar á milli greina í vatninu og undir háum bakka væri fiskur. Sólarglennur skutust milli skýja, svo komu þrumur og eldingar. Vanir veiðimenn feldu umsvifalaust stangir sínar, því þær leiða vel skruggur, en við hinir sem sjaldan veiðum í eldingum héldum áfram að berja í fávísi okkar; svo komu glennur.

Eftir klukkutíma komu boð: þeir eru að taka fiska við litlu brú. "Núnú" hugsaði ég, "keppnin harðnar, best að prófa svarta litla Hólmfríði út í streng". Meðan ég skipti um flugu kom smellur, gára, og þetta fína "plunk" sem heyrist þegar fiskur tekur uppi. Auðvitað undir bakkanum öndvert. Langt utan kastfæris. En ég huggaði mig við þá staðreynd að fiskurinn væri þó á ferð. Svört Hólmfríður númer 12 fór út.

Og festist í sefi.

"Óheppni"

 Nú skal ég ekki framar gera grín að handboltaköppum sem fá matareitrun á erlendri grund, tugþrautarkempum sem togna í nára, eða þrístökkvurum sem "ná sér ekki á strik". Alþjóðleg keppni er líka spurning um heppni. Í mínu tilviki óheppni. Þegar flugan reyndist kyrfilega föst í sefi um 30 sentimetra frá bakka lét ég mig síga niður og tók skref út til að losa hana. Og nú kom alvöru "plunk". Fulltrúi Íslands fann engan botn í ánni heldur húrraði alla leið niður upp undir axlir og saup hressilega inn á vöðlurnar. Dómari minn kom æðandi á bakkann og tókst mjög illa að leyna hlátri sínum þegar hann dró mig upp. Skömmu síðar blöktu keppnisklæði á trjágreinum og Mr. Hafstein stóð á sokkaleistum og lánsbrók meðan hann lauk annarri törn. Fisklaus.

Hádegishlé
Fáar mannraunir eru svo svakalegur að pæntur af Guinnes á Írlandi bæti ekki úr, súpa og samlokur hjálpa líka. Fæstir voru komnir með fisk, en nokkrir höfðu þó landað urriðum og þá helst við brú nokkra sem ég átti að veiða við strax að lokinni hressingu. Ég var því ekki vondaufur þegar ég skondraði niðureftir aftur, beit á jaxlinn og fór í votar vöðlurnar og fann staðinn minn. Og nú er ég skilningsríkari þegar hlauparar á alþjóðlegum stórmótum kvarta yfir því að lenda á slæmri braut. Vissulega átti ég stað við litlu brúna, en þar höfðu fengist fiskar fyrir neðan. Ég átti númerið fyrir ofan. Þar hafði flóðið safnað saman sprekum og greinum og grasi í vatnið meðfram bakkanum sem var forugur og háll. Dómarinn sagði mér að það hefði verið "rólegt" á þessum stað. Upp með allri á gat að líta fagra sveit: iðjagræna bakka, hvíta bekki fyrir dómara og almenning sem fylgist með, litlar stikur með hvítum númraspjöldum fyrir veiðimenn, og þá sjálfa, sem nú röðuðu sér upp og byrjuðu að kasta. Ég reyndi að veiða fallega því á brúnni var margmennt og ýmsir að fylgjast með.

Enn eitt bragðið
Næstur fyrir ofan mig var vinalegur karl sem kastaði ótt og títt. Ég fylgdis með honum út undan mér, nýtti tækifærið og kjaftaði við írska útivistarmenn sem voru á gangi, og "pósaði" þegar sjónvarpsmyndavélar birtust á brúnni. En ekki fékk ég fisk. Eftir rúman klukkutíma var ég búinn með allt sem mér datt í hug, og svo virtist mér um fleiri: karlinn fyrir ofan var sestur á bakkann og með stöngina hangandi út yfir ána. Svona sat hann aðgerðalaus.

"Nújá, hann er búinn að gefast upp" hugsaði ég, kunni ekki við það sjálfur vegna fjölda áhorfenda á brúnni. En nú kom an uppá mar! Stöngin hjá karlinum fór í keng og hann var á! Mikið uppistand varð hvarvetna og gamall hvíthærður Íri með staf og sítt skegg hrópaði: "It´s a nice fish!" Og svo endurtók hann í sífellu: "It?s a nice fish. It is a nice fish isn?t it?" Tæplega þriggja punda fallegur urriði kom í háfinn. Ég var á vettvangi og skimaði ákaft eftir flugunni. En það fyrsta sem ég veitti athygli var línan. Þetta var mesta dúndursteinsökkvandi flugulína sem ég hef séð.

Fiskurinn reyndist 47 sentimetrar, sá stærsti sem náðist í keppninni. Og flugan? Vinurinn sýndi hana hróðugur. Lítil fluga með stórum frauðplastaugum. Þessu kastaði hann út á sökklínu sem hann lét liggja við botn, en frauðplastið hélt flugunni dinglandi rétt fyrir ofan. Hann hafði séð fallinn trjábol í vatninu og kastaði í átt að honum, lét línuna liggja og fluguna dilla sér hægt undan straumi, alveg niðri. Settist sjálfur á bakkann og slappaði af. "Þetta var eina leiðin" sagði hann. "Ég var búinn að reyna allt". Allir fögnuðu ákaft og samglöddust.

II.hluti:

Barátta sem borgar sig

Nú var loks komið að því að ég fengi að veiða hliðará sem hafði reynst fiskisæl, því hún var ekki jafn skoluð og aðaláin. Hér hlakkaði mjög í franskmanni við hlið mér því hann hafði dregið númer 28! Hann söng: 28! 28! 28! Allir vissu að í lotunni á undan hafði Pólverji náð FIMM fiskum í einum hyl, og í eitt skiptið dregið tvo á land í einu! Á stað númer 28. Frakkinn taldi sig vera í góðum málum. Snéri sér að mér: og hvar ert þú? Ég sagði honum það. 29. Hann brosti: næst besti staðurinn!Þegar íslensku keppnismennirnir á Alþjóðlega urriðaveiðimótinu á Írlandi höfðu lokið þremur lotum af fjórum var staðan þessi: 1) báðir höfðu dottið í ána, 2) hvorugur hafði veitt fisk, 3) Garðar Scheving hafði fengið góðar atlögur að þurrflugunni, 4) Stefán Jón hafði ekki fengið högg, 5) allir voru í góðu skapi. Fararstjóri vor, Ásgeir í Sportvörugerðinni, var ekki síst ábyrgur fyrir lið númer fimm.

Þröngt
Dómarinn benti: "Það er mjög þröngt hér". Jájá. Áin var á stærð við Hólmsá sem rennur við Vesturlandsveg. En hún var að mestu hulin greinaþykkni sem slúti yfir. Fyrir aftan mig þar sem ég stóð á háum bakka var þéttur skógur. Yfir trjákrónur. Til beggja hliða tré sem teygðu sig yfir ána. Eftir þrjár festur í bakkasti ákvað ég að reyna að slæma flugunni út. Setti þungar púpur undir, og þær festust fljótt í trjárgreinum sem flóð í ánni hafði hrúgað við bakkann. Dómarinn fór þögull inn í rjóður. Mr. Hafstein var einn með flugum og stöng.

Glingló!
"Plask!" Hið undursamlega hljóð í silungi sem tekur uppi vakti mig. Gára sást niður undan mér fyrir framan tré, út í miðri á, undir þykku laufskrúði, þar sem brotin grein hékk niður í ána. Fiskur! Sá fyrsti sem ég hafði komist í kastfæri við um daginn. Ef "kastfæri" skyldi kalla. Ég hugaði að því hvernig ég kæmi flugu út. Bakkast var mjög þröngt. Beint kast á staðinn þar sem fiskurinn vakti var ómögulegt fyrir trjákrónunni. Ég snéri mér við og horfði inn í þéttan skóginn. Gat! Það var gat í trjáþykkninu, skáhallt aftan við mig, í stefnu af vinstri öxl. Þar sá í himinn. Ég snéri baki í ána. Miðaði eins og fiskurinn væri uppi í trénu. Kastaði skáhallt upp í loftið frá ánni og skaut á gatið, náði að vinna út línu, sem ég slæmdi aftur fyrir mig, yfir ána í átt að hinum bakkanum. Dómarinn daufi lifnaði við: "Þetta verð ég að muna!" hrópaði hann og kallaði á nærstadda, "sjáiði, hann snýr baki í ána!" Ég gaf slaka út af hjólinu og nú fór flugan yfir staðinn sem fiskurinn hafði sýnt sig. Ég hafði sigrast á aðstæðum!

Meira fjör
Ég kastaði nokkrum völdum þurrflugum með þessum hætti og uppskar mikið lof viðstaddra, en engar viðtökur hjá fiskinum. Erfitt var að láta þurrfluguna reka alveg frjálsa nákvæmlega yfir punktinn þar sem hann vakti, því á leið línunnar var greinin stóra sem lá brotin niður í vatnið. Ef ég gaf mikinn slaka dró línan fluguna til sín svo hún skautaði óeðlilega, ef ég slakaði ekki nóg fór flugan framhjá. Svona fóru nokkrar flugur án árangurs. Ég rölti niður fyrir og reyndi að kasta púpum upp fyrir mig, inn undir tréið. Án árangurs. Var að hugsa um að snúa mér að öðru. Þá kom það aftur: "Plask!"

Ég ákvað að nú yrði ekki hugsað um annað en þennan fisk.

Enn meira fjör
Ég fór á sama stað, en setti lítinn nobbler undir, frá Stebba Hjaltested, svartan, agnarsmáan. Snéri baki í ána, miðaði á gatið, skaut honum upp í gegnum þykknið, og slæmdi svo línunni alla leið yfir á hinn bakkann. Þetta var flott. Nobblerinn dró línuna aðeins niður undir yfirborð svo hún fór ekki í greinina, og nú kom hann á punktinn undir trjákrónunni. Plask! Og aftur plask! Tveir urriðar komu upp í fluguna!!! En tóku ekki. Einum hitnaði í hamsi. Næsta kast fór alveg eins, og nú komu fiskar upp aftur, og meira að segja sást í gulan kvið á einum. En ekki tók hann. Í þriðja kasti gerðist ekkert.

Ég setti grænan nobbler undir, lítinn. Nú komu þrír í fluguna, án þess að taka. Ég sendi þann græna aftur út. Línan fór vel, ég vissi að flugan var á nákvæmlega sama stað og fiskurinn hafði skvett sér. Og þá stöðvaðist línan. Ekki biluðu taugarnar. Ég lyfti stönginni. Hægt. Festi í honum. Hann var á.

Löndun í lagi.
Mr. Hafstein varð nú að draga fiskinn þéttingsfast að sér, framhjá tréinu, að bakkanum. 2ja punda urriði lét til leiðast, en stakk sér beint í trjágreinahaug sem lá í vatninu. Flækti sig og var fastur. Ég lét mig sakka varlega niður mannhæðarháan bakkann, ég hélt með annarri hönd í trjágreinar á meðan, fyrir neðan var svakalegur pyttur, en fann fótfestu fyrir vinstri fót á hnédýpi. Þarna dinglaði ég og náði að kraka mér í lausa trjágrein sem ég notaði til að losa línuna úr greinaruslinu. Fiskurinn synti aftur. Ungur bóndasonur, ekki lítið sterkur, lagðist á bakkann og greip í hálsmál mitt svo ég gæti skotið háfi út án þess að detta í ána. Eftir langa mæðu gat ég dröslað fiskinum framhjá greinaruslinu. Strákurinn slakaði mér neðar. "It is OK sir, you will not fall in the river" sagði hann og hélt þéttingsfast í hálsmál mitt. Urriðinn hringsólaði fyrir neðan mig og ég rembdist með háfinn neðar og neðar. Loks seig hann yfir brún háfsins: "Hífa" æpti ég. Bóndasonurinn dró mig með heljarafli upp á bakkann ásamt fiskinum í háfnum. Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út þegar silungurinn skoppaði í forinni.

Ég vissi að Frakkinn á 28 hafði náð einum. Flýtti mér, því nú voru 10 mínútur eftir af keppninni. Þrusaði nobblernum upp í skógarþykknið. Og festi.

Urriðinn reyndist 38 sentimetra langur og dugði mér í 22. sætið af 53 í keppninni.
 

12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði