Er Laxá í Aðaldal drottning íslenskra laxveiðiáa? Það finnst mér, en það er vegna þess að mér var innrætt það í æsku af manninum sem skrifaði um hana: Jakobi V. Hafstein.
Ég var pottormur í sveit á Tjörnesi þegar Jakob hringdi og sagði að stundin væri komin, nú kæmi ég með í Laxá. Og sú dýrð var lengi minnisstæð þótt enginn kæmi laxinn. Fyrsta morguninn kom einn á eftir flugunni hjá Jakobi þar sem heitir Klofið; hann fékk skipt á veiðisvæðum seinni partinn til að ná þessum laxi. Sem ekki gaf sig, svo enn skipti Jakob við veiðifélaga og var mættur morguninn eftir. Í lok vaktar var laxinn enn með hýrri há, en hinn mikli keppnismaður vildi enn skipta og reyna til þrautar. Þá var mín trú farin, brakandi þurrkur á Norðurlandi og ég með þrautum yfir því að heyskapur gæti ekki farið fram án mín. Lauk þar mínum fyrsta veiðitúr í Laxá með því að ég brunaði í slægjuna. Um kvöldið hringdi frændi kampakátur: búinn að taka laxinn!
Frekari kynni
Undanfarin sumur hef ég verið lánsamur: fengið að vera með góðum veiðimönnum í Aðaldal, notið leiðsagnar og viðræðu við góða veiðimenn. Og sett í laxa. Satt er það: ekki hefur áin verið sérlega gjöful miðað við forna frægð og stóru laxarnir fátíðari. Til eru þeir sem finnst nú reynt til hins ítrasta á tryggðarbönd. En áfram rennur áin í himneskri fegurð. Lygn og breið, svo nýliðum með stöngina reidda fallast hendur: Allt þetta vatn! Stríð í strengjum þar sem hún kvíslast milli hólma og þrumar að lokum niður Æðarfossa með Skjálfanda framundan og djúpan bláma Kinnarfjalla. Að standa þar neðan við björgin á sólríkum morgni með kríuna gargandi, æðurinn úandi og laxana stökkvandi, er sem maður væri í Paradís. Þó flugan sé bara tekin tvisvar og í hvorugt skipti svo festi.
Fyrsta laxinn í Laxá fékk ég í Bótastreng. Í fyrstu drottningarheimsókn minni frá því ég var með Jakobi. Skýjafar á himni, flöktandi skuggar um hraunið, sólstafir á strengi og lygnur; fugl á ferð. Svo yfirmáta fagurt var að ég hætti að kasta. Horfði bara og þakkaði fyrir að fá að vera til. Eins og hinn mikli eilífi andi væri að svara mér kom fiskur á færið í næsta kasti. Hnullungshængur, gildur með þetta annálaða sporðstæði sem sannir Aðaldalslaxar hafa þegið til að þreyta sundið heim.
En áin refsar manni klaufaskap og vanþekkingu. Maður þarf að vera frekar góður veiðimaður til að þóknast drottningunni. Hér þarf aðstoð frá einhverjum hinna frægu veiðimanna, leiðsögumanna, eða lærisveina þeirra. Og þá kemur oftar en ekki í ljós að allt þetta vatn er bara augnayndi: Veiðistaðirnir blettir þar sem ólgar við stein eða straumskil verða með landi, stutt köst og hnitmiðuð er allt sem þarf. Það er ótrúleg skemmtun að skoða þessa fjölbreyttu staði eins og hver annar álfur út úr hól, hlýða á lifandi goðsagnahetjur - laxabana, flugnahöfðingja og fræðaþuli - fara með lærdóm sem áratuga reynsla hefur markað í heim sagna og veiða. Og það er eins og allir sem veiða í Laxá hafi mótaðar skoðanir á þessu meistaraverki skaparans. Jafnvel - og ekki síst - á stund vonbrigða.
Draumastaðir
Staðirnir, maður lifandi. Í sumar sá ég hvernig mið er tekið til að kasta rétt á eina flúðina. Í austri á sefið við bakkann að bera í rauða hólinn, í norðri nesið að vera í línu við skarð í hraunbekk - þá er "mátulegt" að kasta á ólguna sem rétt sést móta fyrir í ánni miðri. Eða Óseyrin: óvanir vaða of langt, en á vatni sem rétt tekur í mjóalegg liggja stórlaxar; Hólmavaðsstíflan: enginn sem séð hefur stóru drjólana kafa eins og hnísur á hægu sundi fær því gleymt, en þeir eru lífsreyndir og þarf eitursnjalla veiðimenn til að særa þá til átaka. Maður sýgur í sig fróðleik, sögur og frækin afrek eins og lítið barn - og ef heppnin er með fara skýin á ferð, sólstafir leika í hrauni og flokkur anda lifnar; einmitt þá þegar flugan er í einni af óteljandi ferðum hins vondaufa manns, kemur upp haus og bak og sporður og línan strekkist og sálin fer á flug... eins og önd með gargi.
Klofið
Og svo var ég kominn þangað sem ég hafði setið ungur pottormur meðan frændinn dáði særði laxinn snjalla. Heppinn var ég að hitta á fróðleiksbrunn hinn mesta sem hafði komið 19 punda laxi á færi samferðarmanns ögn ofar. Áin fer í skriðþungum streng, og kvíslast svo milli þriggja hólma, en meginvatnið utan þeirra; þarna þarf leiðsögn. Og hún látin ljúflega í té. Kaststaðurinn er 6-8 metra fyrir ofan eitt hómahornið; í grunnri lænu þar sem hvönnin stendur upp og lygnan er undan. Þar liggja laxar, þótt ótrúlegt virðist, og þetta er viðkvæmt. Og svo er látin uppi dulítil leynibrella til að hægur straumurinn leggi fluguna nákvæmlega rétt inn á lygna pollinn.
Og flugan fer eins varlega yfir og framast er hægt - þá heyrist smellur. Eins og smellt sé í góm. Það er fiskur. Er það silungur sem styggir með hoppi og skoppi? Getur það verið lax sem tekur svona...eins og smellt sé í góm? Ég brá við á örlagastundu eins og silungur væri, því það fannst mér líklegt. Og þar feilaði ég eins og sagt er á Húsavík. Hefði betur látið fiskinn snúa sér eftir tökuna og festa fluguna. Þetta sögðu þeir þulirnir sem þekkja ána. Og fiskana. Þeir sögðu að litlu hængarnir tækju með "silungasmelli". Og svo fóru þeir og tóku einn átta punda á punktinum síðdegis. En mér mátti vera sama. Stoltur yfir því að hafa gert allt rétt - nema taka fiskinn.
Stefán Jón Hafstein
Mynd: Nessvæðið Laxá í Aðaldal