2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
29.1.2020

Gátan er söm við sig (bleikjuveiðar) - úr safni Flugufrétta

Stefán Jón Hafstein skrifar um bleikjuveiði upp úr aldamótum.
Þrír dagar í sjóbleikjuveiði með löxum sem eru kannski og kannski ekki að ganga eru ekki amalegir. Hlýtt í veðri, dumbungur og þoka með ströndum, fyndið hvað Veðurstofan er alltaf mishittin á spárnar. En þetta var svona nokkurn veginn eftir því sem þeir sögðu og allt í lagi með það. Bleikjan var komin í ósinn og eitthvað upp í á. Hvað varðar mig um veður?

Tundurskeyti
Ég fór lengst niður í ósinn til að kanna hvort hún væri þar sem grjótið veldur fyrirstöðu og upp safnast dálítið lón. Setti Flæðarmúsina undir því ég trúi á hana til að leita að fiski af þessari tegund. Gekk fyrst niður með lænunni og kastaði, setti í fisk mér til undrunar á straumhröðum stað og börnin í hópnum fengu nú að sjá að það var fiskur í ánni. Í alvöru. Þetta gefur aukna trú. Litlu frænkunar köstuðu flotholtum með ásaumuðum nobblerum. Ég kastaði á breiðuna.

Ekki lét hún standa á sér. Lof og dýrð fyrir þessa spretthörku þegar hún rífur sig upp á lygnu vatni og kemur rétt undir yfirborðinu eins og tundurskeyti, boðaföll og þetta strik sem sker vatnið. Þær hjuggu í fluguna hver af annarri. Eða hættu við á síðustu stundu. Eða tóku. Frænkurnar fengu að glíma við að þreyta bleikju á alvöru flugustöng og æfa sig að háfa. Vatnadísirnar sáu til þess að bleikjurnar sem tóku voru af viðráðanlegri stærð fyrir svona litlar veiðijómfrúr.

Vaknað með þokunni
Svo árla morguns að við lá að enn væri nótt var ég kominn aftur í ósinn. Athugaði breiðuna og tók eina eða tvær og missti fleiri. Þær voru á eftir en ekki æstar. Gekk ofar og skoðaði ósinn því nú var logn sem blandaðist saman við þoku svo úr varð ljósgrár gagnsær veggur fyrir framan mig: vatn, þoka, loft, og í baksviði fjöll. En næst mér voru hringir á hnédjúpu vatni.

Flæðarmúsin fór út. Bleikjunar sem voru að hamast við að éta eitthvað lengra úti litu ekki upp. Línan skar breiðuna og kom svo að landi og stóð skáhallt niður undan mér. Þá tóku þær kipp. Þessar sem voru nálægt landi svona 10-20 metra niður frá mér. Þegar ég dró fluguna af stað upp komu öldur sem breyttust smám saman í ör sem kom eins og strik beint á eftir flugunni. Bingó! Hún var á. Rúmlega punds bleikja. Svona komu fleiri, án þess að taka. Í einni atrennu kom hún nær og nær eftir því sem ég dró fluguna og ætlaði aldrei að ákveða sig. Taktu taktu taktu! hvíslaði ég inn í mig, ég átti ekki meiri línu eftir! Beygði mig í hnjánum svo hún sæi mig ekki. Hún tók ekki enn, elti bara. Ég lagðist á hnén og dró hægt og bítandi inn og nú var hún komin svo nálægt að mér fannst ég horfa milli augna hennar. Ég mátti ekki hætta að draga en línan var búin! Bara taumurinn eftir úti og ég dró eins hægt og ég gat. Flugan var komin í harða grjót og enn var hún á eftir. Núna bakið uppúr og sporðurinn hálfur. Þá festist hún. Í grjótinu. Bleikjan. Hún tók kipp og byrjaði að busla og slá til sporðinum til að komast aftur út á vatn en Flæðarmúsin lá kyrr, komin upp á land. Eitt fet úti eftir af tauminum hjá mér. Segið svo að spenna fari ekki vaxandi.

Svo hættu þær
Svo hættu þær að elta. Lágu bara og átu þetta sem var að koma niður með strauminum. Það lækkaði í ósnum eftir því sem fjaraði út og þær voru núna á ökladjúpu vatni. Hringirnir voru kraftmiklir og stórir eftir þær þegar þær tóku sprett í ætið. Ég reyndi kúluhausa og þær litu ekki við þeim. Reyndi þurrflugur og þær fúlsuðu við þeim líka. Setti smáflugur, Kardinal, eitthvað fleira, púpur með skrítna þreifara og grænleitar druslur, ekki neitt að gerast. Rak svo augun í gula flugu í boxinu sem er hnýtt eins og marfló. Auðvitað! Lét hana detta varlega þar sem hringirnir sáust og beið átekta. Tók tvær. Missti þá þriðju. Hún var stærri en hinar og ég gætti þess ekki að taka varlega á henni. Hún buslaði sig lausa þegar ég hélt of stíft við. Svona blekkja þær mann þessar litlu. Hélt ég væri kominn í veislu. En þá hættu þær að taka. Litu hvorki við Flæðarmús né marflóargulunni minni næstu tvo daga. Héldu til þarna í örgrunnu vatni og alltaf þegar ég hugaði að þeim voru þær að éta. Tóku ekkert. Nema þegar kona mín setti Peacock á þær. Þá tóku tvær en svo hættu þær alveg. Hvers konar? Jú þess konar. Þær voru uppteknar.

Uppi í á
Ég skoðaði í magan á þeim sem ég tók þarna niður frá á grynningunum og sá að þær væru fullar af marfló. Ég var ekkert að stressa mig á að hnýta hana. Kann það eiginlega ekki. Finn ekki marflóareftirlíkingu í bókinni hans Jóns Inga, Veiðiflugur Íslands. Fann reyndar í boxinu hjá mér flugur sem Marc Petitjean hefur hnýtt úr kirtilfjöðrum og gætu vel sloppið sem rækjur eða flær, en nennti ekki að prófa þær loksins þegar ég fann þær. Ég var nefnilega búinn að finna breiðu uppi í ánni sem vakti sérstakan áhuga minn.

Þar hafði ég veitt í fyrra en fannst ekki líflegt nú, sá engar uppitökur og svo blekkir það mann svo þetta vatn: maður sér ekki torfur og ekkert líf þegar maður skimar yfir. Konan mín fór og kastaði eins og í fyrra og sá strax að þarna voru fiskar. Þær lágu ekki í hylnum við brúna, ekki heldur þar sem hann grynnist við grjótin, heldur á breiðuni þar fyrir neðan, á grunnu vatni sem virtist bara saklaust.

Þessi eina sem tók hjá konu minni hrifsaði í Flæðarmús, hvað annað?, en engar fleiri komu nema hálfshugar. Ég kastaði hálfshugar og vissi ekki alveg hvað ég var að gera þar til mér datt í hug að fara í eitthvað allt annað. Fór í flugnaboxið og mundi að ég hafði stungið niður litlum laxaflugum. Og þarna var þríkrækja sem Kolbeinn Grímsson gaf mér í Elliðaánum í fyrra, Green Brahan "light" eins og hún er kölluð. Græni búkurinn er nefnilega með mjög ljósum flúrlituðum vafningum og hausinn rauður. Svart skegg og svartur léttur vængur. Þetta er fluga númer 14 en gæti verið 16 með smá ýkjum. Ég veit ekki hvers vegna ég setti hana á, en nú kom fjör.

Árásir
Þetta voru árásir. Breiðan sem hafði verið illa vakandi og hálfshugar á eftir stöku flugu gerðist nú lífleg. Ég kastaði yfir að hinum bakkanum. Lét línuna renna niður með honum og koma bug á, sem ég rétti aðeins svo línan var skáhöll niður af mér. Byrjaði þá að draga þegar hún var komin vel niður. Þannig fékk ég hana á langa hæga ferð upp á móti straumi. Og svo komu bleikjurnar á eftir: Rifu sig upp af beði sínu og ég sá straumgáruna breiða koma í ljós og mjókka svo með ógnarhraða í átt að flugunni. Ég var of spenntur í fyrstu tvö skiptin: reif fluguna  frá þegar ég hélt að hún hefði verið tekin, og í síðara skiptið var hún tekin, en ekki alveg, svo ég brá við og sá fluguna spítast út úr kjaftinum á gapandi fiski.

Í næstu atrennu beið ég lengur. Sá straumröstina koma á eftir og hægði dráttinn, hinkraði svo. Og brá svo varlega við eftir að hafa dregið djúpt andann. Þetta andartak dugði. Fiskarnir tóku fluguna alveg aftur í kok og ein alveg aftur í tálkn. Þrjár í röð. Missti tvær þegar ég þreytti þær. Hafði nú tekið þessa fiska sem lágu á bakkanum, misst aðrar og séð enn fleiri elta. Hvílíkur lokasprettur á vakt. Kona mín stóð örfáa metra frá og átti ekki fluguna og fékk enga í sínar.

Næsta vakt
Við áttum ekki sömu öngla en hnýttum á tvíkrækjur. Spunnum saman þrjá liti af grænu til að fá sömu áferð, komumst nokkuð nálægt og allir í hópnum fengu eina. Þær tóku sumar fisk á næstu vakt. Þá var ég mættur á sama punkt, alveg á slaginu, og byrjaði að kasta.

Ekki bofs.

Hvílík vongleði hjá mér,  hvílík þögn frá bleikjubreiðunni.

Ég reyndi margt. Sú græna hreyfði ekki við neinu núna. Fór yfir í Varða frá Sigga Páls, en hér stóð hún fyrir fjöldamorðum í fyrra. Fékk ekki neina. En ef flugan færi lengra niðureftir breiðunni en fyrr væri ef til vill eitthvert líf? Ég spáði í málin. Tók fram kirtilfjaðrafluguna sem ég trúi á, MP52, og renndi yfir breiðuna sem þurrflugu. Ekkert tak. Vætti hana vel og kastaði alveg yfir ána, dró snöggt til mín línu svo flugan fór undir og dró hana hægt yfir staðinn sem ég hélt að torfan héldi sig. Nú kom an uppá. Hringir, straumgárur, og svo kippir. Þær höfðu mikinn áhuga, en ekki alveg nægan. Komu bara í fluguna og kipptu í. Stundum tvær í sama kasti. Ég reyndi að bregða snöggt við þegar ég sá tökuna en reif út úr. Ég dró djúpt andann og hinkraði þegar ég fann töku. En þá var hún bara farin. Reyndi milliveg með sama árangursleysi. Eftir sjö eða átta svona köst sem öll kölluðu fram viðbrögð hættu þær. Mér datt í hug að nú væru allar bleikjurnar á breiðunni búnar að prófa nart og fjörið væri búið.

Kvöldið
Ég ákvað að taka frí, fara niður með á, kasta í strengi og hylji, fara í ósinn og gantast við krakka og smábleikjur, koma seinna. Þetta var æfing í hugarró. Nú skyldi ég taka þær á taugum.

Þegar klukkustund var eftir af vaktinni var ég kominn aftur. Sú græna fór út og fékk ekki högg. Sú brúna MP52 fór undir og nú var enginn áhugi. Sem sagt: taugarnar yrðu að vera sterkari en svo. Þá fékk ég hugmynd. Ég veit ekki hvaðan. Fór og náði í bústna Moskító. Þurrflugu sem ég vætti í gegn og kastaði út. Lét reka alveg frjálst. Hægt, hægt, hægt, ég stóðst þá freistingu að draga eða gera nokkuð, reyndi bara að vera í sambandi. Svo allt í einu vissi ég: línan var stopp, ég reisti stöngina hægt og dró línuna varlega til mín: hún var á. Svona tók ég tvær fallegar bleikjur og var ánægður.

Næsta morgunn var bleikjubreiðan alveg jafn dauf og um kvöldið og nú dugði ekki Moskítóbragðið. Ég reyndi allt sem áður hafði virkað en ákvað í lokin að prófa Varða. Hún rann undan straumi langt niður. Kom alveg að mínu landi, á vatni sem var svo grunnt að ég sá grjótin 15 metra frá mér. Nú kom enginn hyggur uppúr, engin boðaföll, engin gára. En þegar ég dró hægt að mér kom högg. Hún var á. Fallegasta bleikja ferðarinnar sem ég þreytti lengi og af mikilli kúnst uns ég strandaði henni í mölinni. Engin önnur glapist, en ég vissi af þeim þarna úti. Þær eru þar enn.

12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði