Ég var seinni til en bróðir minn og mágur því ég set saman tvær stangir en þeir bara eina hvor. Hlóð bakpokann og skundaði á eftir þeim af stað yfir brýrnar svo léttur í spori og glaður í sinni; hýrnaði skjótt: bróðir með bogna stöng.
Staldraði við og sá bróður taka fiskinn. Spjölluðum, ég sá fisk vaka á lygnunni fyrir ofan brú, ákvað að kasta. Línan fór of stutt fyrst, en þegar hún kom að landi var hrifsaði í fluguna sem ég treysti best við svona aðstæður: Marc Petitjean, brúna kirtiljaðrafluguan. Þetta var smáfiskur, en það var líf, sem ég tók ekki; kastaði nú lengra og alveg þangað sem ég sá fiskinn vaka við hitt landið. Högg. Hinkraði og kastaði aftur. Aftur högg og nú fann hann fyrir krókinum. Þetta var líklega ekki stór fiskur. Best að eyða ekki tíma í hann. Tók pjönkur og kastaði kveðju á bróður sem var að landa öðrum fínum fiski á straumflugu. Fyrir dagsúthald finnst mér gott að hafa létta stöng fyrir línu sex. Hún er með bremsulaust hjól og á hana set ég smáflugur og púpur. Fyrir kraftmeiri veiðar er ég svo með mjög hraða stöng fyrir línu átta. Hjólið á að þola ýmislegt, og við það hef ég tvær línur: hægtsökkvandi og hraðsökkvandi. Fyrir báðar stangir er ég svo með úrval tauma sem hafa mismunandi sökkhraða. Með þetta þykist ég góður fyrir allar aðstæður. Í bakpokanum kaffibrúsi, brauð, og aflataska sem heldur fiskinum köldum. Í dag er ég líka með sjónauka í honum, grifflur, myndavél, auka peysu. Þetta er heils dags úthald á silungsveiðum
Kom á staðinn sem ég vildi byrja á: Stríðan streng. Hingað fer ég sjaldan, en núna munaði mig á staðinn, því hérna veiddi ég fjögurra punda fisk síðasta daginn í fyrra. Ég ætlaði að byrja nú eins og ég endaði þá. Tók léttu stöngina með flotlínu og smáflugunni hans MP; í straumjaðrinum liggja fiskar - og nú tók í öðru kasti. Tvö og hálft pund, stökk og djöflaðist, kom svo að þegar ég tók á; fyrsti fíni fiskurinn: fékk líf með kveðju frá sjh. "Gefið og þér munuð þiggja" segi ég við móður náttúru til að reyna að koma á samkomulagi um fleiri fiska.Varð ekki meira var þótt ég kastaði straumflugu með sökklínu.
Samræður við sjálfan mig
Fór upp í ósinn þar sem önnur á sameinast minni kæru. Óð uppfyrir og lét smáfluguna renna létt niður strenginn, var með vind í baki og gott næði. Talaði við sjálfan mig. Þóttist vera að segja byrjanda til um staðinn, sagði honum að við værum að nálgast aðal punktinn. Aðal punktinn þar sem ég tók sjö í röð um árið. Við fórum yfir staðinn þar sem ég tók einn af mínum fyrstu fiskum, flugan fór óáreitt, en svo kom það, þegar við komum á aðal staðinn. Þar er lygna fyrir neðan strenginn; hann tók hressilega og hann endaði í pokanum. Ég ætlaði að eiga í matinn.
Halelúja. Tveir fiskar á MP, sólin braust fram og það lygndi, ég rölti inn milli hraunhraukanna sem gera eyjuna svo ævintýralega, dæsti og strauk svita af enni, fór úr jakkanum og veiðivestinu, ég var kominn í pásu. Þá fóru þeir að sýna sig.
Blúb. Blobb. Hringir og gárur á lítilli kvísl sem rennur í skjóli við hraundrang og háan víði í hólma. Blúb. Blobb. Þeir sýndust frekar litlir, en ég sá ekki betur en einn gæti verið stór - miðað við gáruna sem hann sendi frá sér í eltingaleik við flugur. Þeir tóku undir yfirborði, en hringirnir sýndu að ekki voru þeir djúpt.
Ég tók sökkendann af flotlínunni, setti fínna girni fram og minni MP; svona beið ég meðan pásan leið, ég vissi að þeir voru að hamast hinum megin í eynni félagarnir. Við veiðum eftir klukku: 40 mínútur í veiði, 20 í hlé - þrír með tvær stangir. Hámarksafköst, lágmarkshvíld. Svona er stemmningin fyrsta daginn ferðinni. Kirtilfjaðir af önd blöktu rólega milli fingra mér, ég beið þolinmóður eftir að senda fluguna út þar sem þeir skvömpuðu, fiskarnir.
Ég reyndi að vanda kastið. Lagði fluguna létt niður og lét hana fljóta. Ég veit að það hefur ekkert upp á sig þegar þeir taka undir yfirborði, en ég mátti til að prófa. Þeir komu ekki upp. Kippti snöggt í línuna næst þegar flugan lenti, hún dróst undir yfirborðið, og nú kom hún á hægu skriði yfir staðinn þar sem blúb og blobb hafði sést 5 sekúndum áður. Plask! Hann sló sporðinum og ég sá þetta var stubbur, skaust niður fyrir kvíslina og dró hann hratt inn svo hann styggði ekki hina með látum. Baksaði við að landa honum - þeir eru sterkir þessir stubbar - en náði svo að láta hann fara. Hinir voru enn að: blúb, blobb.
Skemmti mér við að láta þá koma með boðaföllum á eftir flugunni, reyndi að grísa á hvenær þeir tóku, var tvisvar og snöggur að rykkja í, en festi tvo aðra; sá stóri var ekki þarna eða passaði sig. Kannski var ég bara vitlaus að sjá ekki strax að þetta voru bara pundarar?
Klukkan var farin að ganga ellefu.
Sýndir en ekki gefnir
Þrammaði yfir eyna og fór stórum yfir þúfur, kom niður að ánni aftur, tók þá léttu aftur og óð stutt út. Strax taka, en það var smáfiskur. Svo kom högg, óvænt var bleikja mætt á staðinn; hirti greyið. Veiddi lænuna niður með hólmanum og gekk áleiðis. Ég setti straumfluguna út og lét hana kafa. Tók þá síðan þá léttu og lét fluguna dansa rétt undir yfirborðinu - fékk aðra bleikju. Tveir urriðar komu upp. Ég sá sporð og bak, fyndið þegar þeir dilla sér í vatnsskorpunni. Hinn kom upp eins og hnísa og lét sig detta yfir flugu. Hvorugur neitt tiltakanlega stór en ég gat ímyndað mér að þeir væru fínir á færi. Lét MP fara yfir þar sem hnísan var að leik; hló þegar hann kippti í og blessaði heppni hans að hafa ekki fest sig; sá var ekki til í tuskið meir. Hinn var nær mér og upp við land en leit ekki við neinu. Ég varð ögn móðgaður. En hann var ekki nógu stór til að ég vildi setja allt mitt þrek í að ná honum.
Hettumávar
Neðan við lygna djúpa pollinn fellur áin í þrögnum stokk og meðfram hárri brekku; maður veiðir ekki þarna nema þeir sem eiga hinn bakkann séu búnir að ljúka sér af og farnir. Hetturmávager vakti hjá mér löngun að feta mig niður með háum bakkanum og láta púpu með kúluhaus renna niður álinn, niður undan hólmanefinu voru straumandir og húsandir á fleygiferð, þrír steggir slógust; einn hafði þann háttinn að fljúga upp og demba sér á hina úr lofti. Í vikinu hinum megin voru Óðinshanar að ríða.
Ég tók einn lítinn á peacok með kúluhaus, sá fékk líf og lét ég við sitja.
Datt í hug að strákarnir væru að gera góða hluti í vikunum austar í eynni. Var eftirvæntingarfullur því ég var búinn að gera glaðan morgun en ekki með bolta á skrá. Væri kominn bolti?
Það var kominn bolti. Fimm pundari reif alla línuna út hjá mági mínum en lét svo í minni pokann, og veiðipokann, þeir sögðu frá helvíti miklu stirtlustæði; við veiddum meira þótt hvessti og nú var ég kominn með Rectorinn á; högg, högg, högg. Silungarnir voru með á nótunum þegar ein besta urriðafluga Íslands kom í vatnið. Sjálfur Rectorinn. Rokið sem nú var komið reif hressilega í, en með hraða stöng og þunga línu er hægt að kljúfa vindinn og senda flugu út. Var með hægtsökkvandi línu en þyngdan taum. Kastaði þver og lét fluguna sökkkva vel áður en straumurinn náði að draga hana til sín og færa yfir að bakkanum til mín. Dró ekki inn en hélt vara við línuna. Þegar vatnið er kalt og djúpt er betra að flugan ferðist hægt. Strákarnir höfðu mikið verið varir, tekið nokkra í smærri kantinum en mest gefið líf, við vorum að leita að fleiri boltum en þeir létu sig vanta.
Þangað til um kvöldið. En það er önnur saga.