2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
1.2.2020

Fluguveiðibakterían -fyrstu skrefin - úr safni Flugufrétta

Haustið 1997 var ég svo heppinn að vera staddur á rýmingarsölu þegar Veiðihúsið í Nóatúni hætti. Það væri kannski ekki í frásögur færandi nema á útsölunni fjárfesti ég í átta og hálfs feta Mitchell flugustöng fyrir línu 4-5. Ég vissi lítið sem ekkert um fluguveiðar og hefði sjálfsagt ekki gert þetta litla prik að minni fyrstu flugustöng nema af því að hún var á gjafprís og ég hreifst af því hvað stöngin var létt! Þá var einnig lítið annað af stöngum eftir að selja fyrir sölumanninn, sem betur fer fyrir mig! Á þessari sömu útsölu fjárfesti ég í fluguheldu og dálítið af fluguhnýtingarefni. Til þess var ég þarna sannast sagna. Ég hafði séð starfsfélaga minn hnýta og heillast af handavinnunni!

Spúnar fara!
Að gerast fluguveiðimaður var ekki komið inn í stundaskrá hjá mér enda nýbúinn að koma mér upp álitlegu spúnasafni (Ári seinna fékk bróðir minn það á hálfvirði!). Ég hafði staðið í þeirri trú til margra ára að fluguveiði væri aðeins fyrir þá vel efnuðu og eins leit ég á þá, sem veiddu á flugu, annaðhvort sem pínulitla snobbara eða ósnertanlega snillinga. Ég hélt til langs tíma að það væri aðeins á færi fárra að læra að kasta með flugustöng ? þar skjátlaðist mér hrapalega. Seinna um haustið keypti ég Abu fluguhjól af smærri gerðinni til að eiga við prikið mitt. Um vorið fékk ég mér flotlínu á hjólið. Besta jólagjöfin mín þetta ár, var bókin Veiðiflugur Íslands. Það eru ófáar stundirnar sem ég hef dundað mér við að flétta bókinni þeirri. Um veturinn þreifaði ég mig áfram með fluguhnýtingarnar. Púpur urðu mitt uppáhaldsviðfangsefni og ætti það ekki að koma neinum á óvart þar sem það er það einfaldasta sem hægt er að hnýta til fluguveiða.

Lært að kasta
Ég varð mér út um lágmarksleiðsögn í listinni að kasta hjá snillingunum í SVFR. Ég tek það fram að ég á ennþá langt í land að læra flugukast svo sómi sé að! Eftir vetradrauma og ævintýralegar tilraunir í púpuhnýtingum kom hið langþráða vor. Fyrstu veiðferðirnar með flugustöng voru farnar í Elliðavatn. Minn fyrsta flugufisk fékk ég á heimahnýttan Tailor. Ég fékk lítið af fiski en húkkaði húfuna mína og sjálfan mig því oftar! Engu að síður er mér mjög minnistæð ein bleikja sem ég fékk í álnum milli Helluvatns og Elliðavatns. Hún var gott pund og var ég búinn að reyna mikið þetta kvöld en ekkert gengið. Tilfinningin var ólýsanleg. Í veiðibókinni stendur:

"20. maí Elliðavatn ? áll milli Elliðavatns/Helluvatns

2130, Yndisleg blíða. Þvílík náttúra þarna við Elliðavatn!

1 bleikja 1p> (650 g)

- Brúnka/Fjóla st 10 à með fjólublátt í búk,

fær heitið Fjóla héðan í frá

Mín stærsta flugubleikja hingað til."

Satt best að segja þá reyndu fyrstu fluguveiðiferðir mínar í Elliðavatn verulega á þolrifin í mér. Elliðavatnsgúrúar mokuðu oft upp fiski við hliðina á mér enda er Elliðavatn ekki á færi allra, svo mikið er víst. Seinna uppgötvaði ég að taumþykkt var of mikil hjá mér, taumlengd of lítil og púpur of groddalegar!!! Um leið lærði ég að flestir Elliðavatnsgúrúar miðla upplýsingum af stakri gjafmildi!

Þingvellir
En það var í Þingvallavatni sem ég flæktist endalega í vef fluguveiðigyðjunnar. Þingvallavatn skipar sérstakan sess í mínum huga. Náttúran við vatnið er einstök. Kuðungableikjan í vatninu er kröftug viðureignar og getur orðið rígvæn. Síðan er alltaf von á stórum urriðum. .

Tuttugusta og fyrsta maí 1998 átti ég minn fyrsta alvöru flugudag! Frábær dagur og vonandi verður hann mér ógleymanlegur. Þennan dag var ég mættur eldsnemma. - Einn á ferð renni ég upp að gamla bænum í Vatnskoti. Ég stíg út og anda að mér kyrrðinni. Himbrimi "hlær" í fjarska og skógarþröstur syngur óð til kellu sinnar í rjóðrinu við bílastæðið. Athyglin getur ekki annað en beinst að fuglahljóðunum því það er engu líkara en umhverfið sé þeirra einkastúdíó. Ég fyllist lotningu og hugsa til guðs -

Í Veiðibókinni stendur:

"21. maí Þingvallavatn -Vatnskot-

Mættur á svæðið um 0600! Þvílík náttúra. Algjör paradís.

Veðrið, algjör blíða. Þokusúld á köflum. Vatnið kalt. Ég varð

fljótt kaldur í vöðlunum. Fékk fyrstu bleikjuna af pallinum,

hinar í víkinni undan Vatnskoti. M. a. þá stærstu á Tailor st. 8

(2 pund). 15 bleikjur 1/2p - 2p meðalv. ca. 1 p

1 bleikja 2p og 4 bleikjur 1,5 p

Fengust á flugur: 1 bleikja á Killer, black st. 8

8 bleikjur á Teal and black st 10

6 bleikjur á Tailor st 8 (hnýttur á st 8

eftir vandlega umhugsun og sjá árangur!!) Gaf öðrum veiði-

manni fluguna er ég fór heim. Týndi 11 flugum, aðallega Killerum

og Peacock. Gaf þrjár flugur og fékk gefins tvær flugur."

Góðir veiðifélagar
Fljótlega eftir að ég kom á staðinn varð ég fyrir því óhappi að endalykkjan á flugulínunni minni fór af. Ég hafði enga varalykkju og ekki búinn að læra nálarhnútinn til að bjarga mér úr vandræðunum. Þá hitti ég tvo vana flugukalla. Annar þeirra reddaði mér fagmannlega á skotstundu. Ég fékk síðan að vera þeim samferða út á hraunhellu suður af Vatnskotsrústunum sem er oft kallaður Pallurinn af veiðimönnum. Þarna fékk ég kærkomna leiðsögn í því að vaða í Þingvallavatni sem getur verið varasamt. Svo ég tali nú ekki um, að rata út á Pallinn. Á Pallinum setti ég í mína fyrstu þingvallableikju - 1.5 pund á svartan killer.

Steinn!
Flestar bleikjurnar fékk ég síðan út af Veiðitangahólma. Ég veit nákvæmlega hvar steinninn er sem ég stóð á og fékk flestar tökurnar! Einhvernveginn enda ég alltaf þar aftur er ég fer í Þingvallavatn! Fyrir utan að fá góðan afla þá missti ég líka nokkrar. Ég var með langan taum við flotlínu og aðeins eina óþyngda púpu. Ég þurfti að vera þolinmóður út í það óendalega til að fá töku. Til að halda aftur af mér muldraði ég setningu fyrir munni mér sem ég hafði tileinkað mér þá um veturinn úr Roðskinnu eftir Stefán Jónsson,; " ....bleikjan gín ekki yfir miklu..." Sannkölluð töfraþula!! Stöngin kengbognaði hvað eftir annað hjá mér og allt í einu leið mér eins og fluguveiðimanni! Þvílík tilfinning að finna fyrir tökunum í gegnum fíngerðan Mitchelinn. Er hægt að komast í nánari tengsl við bráð? Ég þreytti bleikjurnar af fingrum fram í orðsins fyllstu merkingu þar sem ég kunni ekki annað en að nota hendurnar við draga inn línuna og gefa eftir.

Heillaður og þreyttur
Brátt var dagur að kveldi. Það var heillaður og dauðþreyttur náungi sem gerði að aflanum áður en lagt var í hann heim. Sannkallaður flugudagur, já eða púpudagur! Innra með mér vissi ég að það yrði ekki aftur snúið. - Fluguveiðiáhugi á eftir að fylgja mér alla ævi. ? Ég var smitaður af flugubakteríunni.

Höfundur Jón Halldór
Birt í apríl 2002

12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði