Ég er viss um að hérna skiptast menn í tvo hópa og sá hópurinn sennileg stærri sem telur það fjarstæðu að fiskar geti hugsað. Ég var líka í þeim
hópi, eða þá að ég hafði ekki leitt hugan sérstaklega að þessu máli. Það hafði eiginlega aldrei komið upp sem sérstök spurning. Auðvitað hafði ég sannreynt að það var ekki sama hvernig veitt var með hverju hvar og hvenær. Þetta voru fyrir mér sannindi og reynsla áranna hafði sýnt fram á að oftar var betra að veiða á einhverjum stað á ákveðnum tíma á ákveðinn hátt með ákveðinni aðferð með ákveðinni flugu. En að fiskur gæti hugsað og dregið ályktanir var alveg ný vídd í veiðiskapnum. Ég hef að vísu aðeins eitt dæmi til sönnunar, en ætla að biðja þig lesandi góður að koma með mér í huganum og skoða þetta með mér.
Á Arnarvatnsheiði
Ég veit ekki hvort staðurinn skiptir máli, en þar sem menn segja að hjá mannfólkinu skipti máli hverra manna það er og hvaðan þeir koma, þá er réttara að það komi hér fram að umrætt atvik gerðist á miðri Arnarvatnsheiðinni. Langt frá öllum slóðum. Umræddur fiskur var urriði. Jónsmessunótt. Var það kannski skýringin? Einhver fallegasti tími ársins til þess að vera úti í náttúrunni með stöng og veiðigleði í hjarta við björtustu birtu nætur..jpg)
Áin rann lítil og tær á milli tveggja smávatna. Á einstaka stað breiddi hún úr sér og myndaði lón en á öðrum stöðum þrengdi að svo straumur varð meiri. Ég var búinn að fá nokkra fiska á ferð minni niður eftir ánni og var sæll og glaður. Ekki fann ég fyrir syfju né þreytu. Sólin farin að hækka sig og Álftarhjón með unga sína kjöguðu rólega í burtu frá mér. Stór steinn var í miðri ánni, flatur að ofan og rétt vatnaði yfir hann allann. Hann var á að giska einn og hálfur metri á lengd og meter á breidd. Nokkrir sentímetrar af vatni flutu yfir steininn nægjanlega mikið þó til þess að ég taldi öruggt að kasta alveg yfir í álinn hinu meginn við steininn og draga fluguna yfir hann án þess að festa. Þetta geri ég.
Alda frá fiski
Flugan lendir við bakkann á móti og ég byrja að draga inn. Þá kemur gára á yfirborðið og ég sé að fiskur er á eftir flugunni, en ég er kominn með hana yfir steininn og hugsa með mér að klára bara að taka fluguna inn og veiða alla leið. Það væri alltaf hægt að kasta aftur á þennan sem hafði sýnt flugunni áhuga. Sem ég dreg fluguna yfir steininn, þá sé ég að aldan frá fiskinum, sem elt hafði fluguna, stefnir nú niður fyrir steininn. Ég held áfram að draga inn. Aldan breytir um stefnu og sveigir fyrir endann á steininum og uppeftir og stefnir nú beint á fluguna mína. Svo tekur hann !
Hvað gerðist?
Hvað hafði gerst ? Fiskurinn sá að agnið fór yfir steininn og það var of grunnt fyrir hann, svo hann ákvað að fara í sveig niðurfyrir steininn og ná
agninu hinu meginn. Ég tel alveg víst að ekki hafi verið mögulegt fyrir fiskinn að sjá fluguna allann tímann. Þannig að hann hefur orðið að álykta
hvar hún væri miðað við stefnu og hraða. Hvað finnst þér. Þú gætir kannski prófað þetta sjálfur, því þessi ?vitringur? er að því að ég best veit, ennþá lifandi og væntanlega heldur stærri en u.þ.b. 1 kg að þyngd og bíður eftir þér á miðri heiðinni.
Höfundur Geir Thorsteinsson
Birt í apríl 2002