Veiði hefst fyrir norðan í Litluá sem oft veitir ævintýralega veiði fyrstu dagana. Þar hefur veiða sleppa verið við líði í fjölmörg ár og það sýnir sig á stofni árinnar. Austur í Skaftafellssýslu hefst veiði á fjölmörgum góðum svæðum, Vatnamótunum, Grenlæk, Tungufljóti, Tungulæk, Eldvatni og Eldvatnsbotnum til að mynda.
Í Eldvatni hefur veiðin verið á mikilli uppleið síðastliðin ár eftir að farið var að veiða og sleppa þar eingöngu. Fiskarnir stækka og þeim fjölgar hratt. Árið 2019 veiddust rétt tæpir 500 fiskar í Eldvatni og stærðin á þeim var ansi rífleg, 101 fiskur var milli 70-79 cm, 39 á bilinu 80-89 og 3 fiskar voru rúmir 90 cm. Það hefur verið mikil lyftistöng fyrir svæðið að færa alla veiði í v&s. Eldvatnsbotnar hjá SVFR fylgdu góðu fordæmi og þar er nú einungis veitt og sleppt. Gaman væri að sjá fleiri ár á svæðinu fylgja þessu eftir og gera þetta svæði að besta sjóbirtingssvæði í heimi. En það eru enn sem komið er draumórar þess sem hér ritar.
Af svæðum sem eru nær höfuðborginni þá hefst veiðin í Minnivallalæk, Galtalæk, Leirá og Varmá einnig núna 1 apríl. Í Minnivallalæk, Leirá og Galtalæk er öllum fiski sleppt allt tímabilið en í Varmá á enn eftir að stíga skrefið til fulls þó að öllu sé sleppt þar í vorveiðinni, þar má hirða einn fisk á stöng eftir 1 júní en það heyrir lukkulega til undantekninga að veiðimenn hirði fiska í þessari mögnuðu sjóbirtingsá í Hveragerði.