Þegar veiðiferðir sumarsins eru rifjaðar upp, kemur fyrst upp í hugann að þær voru eiginlega svo fáar. Fáar en góðar og varla hægt að tala um misheppnaða veiðiferð, ég veit nú reyndar ekki hvort misheppnuð veiðiferð er til! Nú kemur síðan spurningin upp í hugan, hver var besta takan. Var það í urriðanum norður í landi í vor, þegar tekið var á móti mér og veiðifélaganum með þeim orðum að það þýddi ekkert að veiða nema með þyngdum púpum, tökuvara og "upstream". Með þær upplýsingar gekk ég lengi niður dalinn, að stað sem ég hafði aldrei komið á áður. Kastaði hefðbundið skáhallt, langt út í og niður eftir beljandi straumnum, lét Black Ghost fluguna reka niður undir brotið, strippaði síðan nokkuð hratt og fékk hverja tökuna af annarri, þar sem hver taka var öflugri hinni næstu á undan. Enginn þessara fiska komst á land, en tökurnar voru góðar, umhverfið eins og í Paradís og endurnar á ánni héldu athyglinni vakandi á milli þess sem urriðinn greip fluguna.
Arnarvatnsheiðin
Kannski skilaði veiðiferðin á Arnarvatnsheiðina í vor bestu tökunni. Eru þrír kandídatar þar. Áin úr vatninu sem rennur á milli lóna, geymir sérstakan stað sem ég hef séð í huga mér og ég ákveð að reyna fyrir mér með "upstream" veiði. Er með peacock undir og flotlínu. Kasta uppfyrir klettinn. Kasta aftur eins og þá kemur hann. Bolta-urriði grípur fluguna og tekur hvert heljarstökkið af öðru. Ég hef lítið pláss til að athafna mig, því mikið er af steinum og klettum í ánni. Tek því fast á fiskinum og reyni að hafa hemil á honum. Það tekst ótrúlega lengi þangað til hann tekur roku út, fer fyrir klettinn og er laus. Þessi situr eftir í minningunni. Fiskinn sá ég vel, hann var stór, sennilega stærsti urriði sem ég hef sett í og takan var frábær.
Lítill lækur á heiðinni er í nokkuð löngu göngufæri frá næstu jeppaslóð. Gekk þó yfir heiðina ásamt 12 ára syni mínum. Við gengum fram á álftahreiður, en héldum þó ákveðinni fjarlægð frá því, þar sem álftirnar passa sitt mjög vel og ég passa mitt. Enda engin þörf á árekstrum því nóg
er plássið á þessari heiði. Komum að læknum sem er svo lítill að nánast er hægt að hoppa yfir hann. Ef ég vissi ekki betur hefði ég farið yfir lækinn, gengið áfram og reynt að finna veiðilegri á. Í stað þess héldum við feðgar upp með læknum, þar sem ég hafði heyrt af mönnum sem héldu niður með honum daginn áður. Komum að laglegum hyl þar sem við gátum falið okkur vandlega á bakvið hól og ég kastað peakock-inum upp í hvítfyssið. Kastaði nokkrum sinnum án árangurs. En þolinmæðin skilar stundum árangri. Eftir nokkuð mörg svipuð köst sá ég urriðan koma undan hvítfyssinu og hnusa að flugunni, beið rólegur, sá hann taka fluguna, beið svolítið lengur, lyfti síðan stönginni og hann var á. Hann var ekki búinn að vera á nema í 1-2 sekúndur þegar hann tók þvílíkt stökk að Vala hefði mátt vera stolt af hæðinni sem hann náði. Þessi fiskur sem tók svo skemmtilega var að lokum háfaður af syninum, sem þannig átti sinn þátt í þessum fiski.
Jónsmessunótt
Fallegur stilltur dagur við vatnið var að kveldi kominn. Dagur sem gaf ekki mikla veiði en því meiri gleði, því spegilslétt vatnsyfirborðið sýndi þvílíkt líf er að finna í vatninu. Svo langt sem augað eygði var hringur við hring og uppitökurnar voru í raun allt í kring um þann sem stóð úti í vatninu. Það var hinsvegar sama hvað boðið var, ekki tók bleikjan. Því var um fátt annað að ræða en að setjast niður og horfa á hvað náttúran getur boðið upp á stórkostlegt sjónarspil. Eftir að kvölda tók lifnaði þó yfir veiðiskapnum og stóðu margir við fram eftir kvöldi. Eftir síðbúinn kvöldverð hjá okkur feðgum fór sá yngri í pokann en sá eldri hugsaði sinn gang. Var það þess virði að fara í veiðigallann; svitablautar vöðlurnar og leggja út í veiðiskap á ný, eða var betra að skríða í pokann og undirbúa sig fyrir næsta dag. Þegar ég hugsaði til þess að nú var Jónsmessunótt kom ekki annað til greina en að skella sér í gallann og ganga niður að vatninu, að staðnum sem ég fann, þar sem stóru bleikjurnar eru. Ekki mikil veiði í fjölda fiska, en hægt að hitta á eina og eina í stærri klassanum. Reyndi fyrir mér með flotlínu, löngum taumi, peacock og dregið löturhægt, þannig að flugan sleikti botninn. Klukkan var orðin nokkuð margt og köstin orðin nokkuð mörg, en engin taka. Ég var farinn að hugsa mér til heimferðar, en ákvað að bíða eftir hinu magnaða miðnætti á jónsmessunótt. Og veiðigyðjan var mér sammála, því þegar klukkan sló tólf kom róleg en mjög ákveðin taka. Mátti hafa mig allan við að passa uppá lausu línuna þegar bleikjan tók roku út á mitt vatn, sem þýddi að flugulínan fór öll út, ásamt nokkru af undirlínunni. Ég hafði þó nokkra stjórn á hlutunum og með aðstoð veiðigyðjunnar tókst að landa 4 punda, spikfeitri og fallegri bleikju um tíu mínútum eftir þessa mögnuðu töku. Ekki mátti ögra veiðigyðjunni frekar og var því haldið heim með þessa sérstöku veiði.
Fyrir austan
Kannski var taka sumarsins ein af þremur góðum, í ánni minni fyrir austan, þar sem við veiðifélagarnir eyddum nokkrum dögum í lok ágúst í minnsta vatni í manna minnum, glampandi sól og steikjandi hita. Þá segir reglan okkur að nota litlar og léttar græjur og smáar flugur til að eiga einhverja möguleika. Þetta var reynt til þrautar án mikils árangurs. Við áttum síðan stað þar sem við vitum að aðeins er að finna lax þegar hann er að ganga. Reyndum með hefðbundinni aðferð, þ.e. flotlínu og smáar flugur en ekkert gekk. Prófaði þá að lengja tauminn og setja undir tommu langa frances túpu og þverkastaði. Þegar flugan var komin út í miðja á fyrir neðan mig kom þessi svakalega negling. Ég tók strax á móti en átti í erfiðleikum með lausu línuna, og missti svolítinn slaka á fiskinn. Hugsaði með mér að nú væri hann farinn, strekkti samt á og fann að enn var fast í honum. Nú var ég kominn með alla aukalínu inn og fór að vaða í land í rólegheitum. Þá kom
þessi ótrúlega roka, ég hef aldrei heyrt veiðihjólið mitt syngja eins hátt og þegar þessi roka kom og veiðifélaginn sem sat uppi í bíl í 30 metra fjarlægð og var að reykja vindilinn sinn sagðist hafa heyrt þennan líka söng í hjólinu. Þegar rokunni linnti lengst niður á broti, hinumegin í ánni, lak laxinn af. Þetta var stórkostleg stund í fiskleysinu.
Black Ghost
Í laxleysinu kom sá tími að laxinum var gefið frí og menn fóru að gera út á urriðann. Á einum "urriðastað" sem reyndar geymir stundum lax, mætti ég með Black Ghost nr. 8, tilbúinn að setja í urriða. Langur og skemmtilegur staður, hár grasbakki öðrumegin, malareyri hinumegin þar sem ég stóð, með sólina í bakið og skuggann yfir hylinn, sem ekki lofaði góðu. Í miðjum hylnum brýtur svolítið á steini, í svona litlu vatni. Kasta á skuggann minn, rétt fyrir ofan steininn, dreg frekar hratt. Á eftir flugunnir rís þá
vatnsskorpan og mikið vaff myndast á hylnum. Ég hægi á drættinum og fiskurinn neglir hana! Á sama sekúndubrotinu rýkur hann út í miðjan hylinn. Ég hef enga stjórn á fiskinum, hann þýtur fram og til baka, legst síðan á bakvið stein í slý og allt er laust. Hugsa með mér að þetta hafi verið ótrúlega vænn urriði, en eftir viðræður við félagana kemst ég að þeirri niðurstöðu að Black Ghostinn hafi freistað þessa væna lax, sem ekki síður en urriðunum líst oft svo vel á þessa frábæru flugu.
Eftir þessa upplifun var farið að rökkva og töldum við að nú væri lag. Því fór veiðifélaginn í næsta hyl fyrir neðan og setti hann í 4p. lax á Snældu eftir nokkra fyrirhöfn. Þegar við hinir komum á staðinn og ræðum við veiðimanninn, fáum við nákvæma útlistingu á veiðiskapnum. Í því sjáum við lax stökkva á sama stað og hann hafði sett í sinn. Ég varð fyrir valinu sem sá sem ætti að reyna við hann. Var ekki með Snældu, en afbrigði sem ég að sjálfsögðu kalla Snúð var hnýtt undir. Fékk ég nú góðar leiðbeiningar hjá veiðifélaganum, "vaddu aðeins lengra útí", "kastaðu svolítið neðar", "bíddu með að taka upp línuna" og svo voru veiðifélagarnir farnir að ræða saman aftur, en gutu á mig auga og auga. Ég með mína flotlínu sá fluguna liggja í yfirborðinu og slást til í straumnum. Allt í einu kom laxinn upp og glefsaði til flugunnar án þess að taka. Nú var spennan í hámarki, laxinn virtist vera viljugur og ég virtist vera að gera réttu hlutina. Kasta aftur og aftur og aftur. Læt fluguna liggja lengi í straumnum, 1-2 mínútur og þá loksins kom hann uppúr og tók vel. Þreytti þennan 8 punda hæng og landaði honum í hálfgerðu myrkri. Sáum fleiri laxa stökkva á þessum stað, en myrkrið og sérstaklega takmörk veiðitímans enduðu þennan annars ágæta veiðidag.
Já eflaust er hægt að rifja upp fleiri góðar tökur sem gætu talist taka sumarsins hjá mér. Hinsvegar er það þannig að hver taka er sérstök á meðan
á henni stendur. Jafnframt er sjálf takan aðeins punkturinn yfir i-ið, það er nefnilega öll umgjörðin og aðdragandinn sem skiptir ekki minna máli en
takan sjálf. Jafnvel "ekki taka" getur verið skemmtileg, en með "ekki töku" á ég við að öll umgjörðin er til staðar, fiskurinn er á svæðinu, maður
kastar vel og "veit" að hann tekur, það er allt sem segir að nú gerist það,en samt gerist ekkert.
Höfundur Ólafur Magnússon