2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
6.2.2020

Síðasta veiðiferð ársins - úr safni Flugufrétta

Lengi er von á einum. Einum veiðitúr. Þegar öllu á að vera lokið og vöðlurnar komnar út í skúr, stangir í geymslu (og enn einu sinni pakkar maður veiðidótinu án þess að setja í röð og reglu) kemur boð. Félagar eru fyrir austan og maður má alveg slást í hópinn fyrir náð þeirra og miskunn: Það er ekki hægt að slá hendinni á móti kostaboði um að komast í vinahóp og fá að kasta fyrir sjóbirting.

Enn einu sinni...
Enn einu sinni fara græjurnar aftur í skott, enn einu sinni skrölta stangahólkarnir saman þegar bíllinn hossast frá bensínstöðinni á Ártúnshöfða og nú hefur maður lagt allt kapp á að komast af stað sem fyrst: Með samloku í annarri hendi og hina á stýri, eins og Bjössi á mjólkurbílnum. Sólin fer hamförum innan um rigningarský og tíbrá á söndum, vindar glenna göt á bólstra og sópa þeim saman aftur, maður ekur í samfelldri vatnslitamynd eftir Ásgrím Jónsson alla leið austur fyrir Mýrdalssand á ókunnar slóðir.

Ég kem fyrstur í þetta yfirgefna veiðihús á slóðum sem ég hef aldrei séð áður. Þeir hafa tafist í fiski. Leita af mér allan grun um leiðbeiningar og finn loksins, ógreinilegt kort og löngu máða leiðsögn á ljósriti. Blessa í huganum þetta fáfengilega fjársjóðskort sem gerir mér kleyft að fara til veiða án hjálpar staðkunnugra.

Það er komið undir lok vertíðar. Hlýr suddi í lofti, landið undarlega litað hausti og einhverju sem minnir á að fyrir skömmu var sumar, áin glitrar á aurum og inn með dalnum liðast hún silfruð þegar sólin gerir enn eina atlögu að gráum skýum.

Ég ramba beint á aðal staðinn eftir að hafa tekið sveiflu framhjá sveitakirkjunni og farið villtur framhjá einhverju sem mér er síðast sagt að sé hundakofi. Helstu mannvirki sem ég verð var við. Fyrir utan Land Rover einhvers bóndans sem brunar með dalbotninum og rekur á undan sér fjáhóp með blístri.

Stökk fiska
Blessaður fiskurinn. Hér á að vera boltafiskur í hyljum, birtingur af tröllastærð. En er hann ganginn? Jú, fregnir hafa verið um fiska, en vatnavextir og kuldar hamlað veiði. En þetta er hlýr andvari núna? Og þetta vatn er hvorki skolað né ýkja kalt? Skáskýt mér niður slakka og fyrr en varir er ég kominn undir háan bakka. Einn. Einn með stöng. Ekki hundgá, ekki hænsn, ekki neitt nema ég og áin sem ég hef aldrei séð áður. Einhverja hugmynd hef ég um að á þessum stað eigi maður að kasta milli stórra bjarga sem eru í hyl, spái aðeins í og byrja bara nógu ofarlega. Er það þessi klettur? Er það stóra hvalbakið? Skyldi hann liggja nálægt þessum háa bakka? Eða er hann kannski alveg hinum meginn, nær eyrinni, þar sem ég næ ekki? Ekki veður maður út í þennann flaum? Svona þarf maður að vinna staðinn í huganum, dýfa hönd í vatn og horfa á straumfallið. Fara varlega því botninn getur verið háll. Þá stekkur hann. Merkilegt hve maður getur verið heppinn. Ég hefði getað verið að góna upp með á. Ég hefði getað verið að rýna í boxið eða skoða botninn, en ég var einmitt að horfa niður með strengnum þegar hann stekkur. Hann er svo langt í burt að hann sýnist bara svartur skuggi. En kemur alveg uppúr, hreinsar sig og fellur með skvampi sem ég heyri ekki. Blessaður fiskurinn. Ég ákveð að fara niðureftir og skoða ána þar sem hann stökk, þessa 20 metra sem mig vantaði uppá að vera með hann í skotfæri.

Steinn
Stór steinn er úti undan háa bakkanum og ef ég fer varlega get ég komist út að honum, látið hann skýla mér fyrir ofann hylinn, og stutt mig við hann ef straumurinn ætlar að stríða mér. Skorða mig af. Nú er ég nokkuð langt fyrir ofan staðinn þar sem hann stökk, en ég sé að hér er svo veiðilegur strengur að í stað þess að ana beint þangað sem hann var ætla ég mér að fara með gott rennsli niðurúr og vinna mig smám saman að legustaðnum. Þeir eru líklega fleiri hér og óþarfi að tilkynna komu sína á undan flugunni.

Flugunni? Ég glotti kalt við jaxl. Hún er engin smásmíð. Einhvern veginn ákveð ég í byrjuna að þetta skuli vera flugan. Ég hnýtti hana fyrir stórurriða í vor: Black Ghost númer tvö. Rauður haus með ámáluðum augum, hvítum. Ég setti appelsínugul hár yfir þau gulu í skegg og skott. Vængurinn er byggður upp með löngum geitarhárum sem fara langt aftur fyrir öngulinn, síðan koma glitþræðir og þar ofaná marabúafjaðrir, skærhvítar. Vængurinn er því langur, glitrandi og líflegur, appelsínuguli liturinn sem blandast í þann gula gerir þessa flugu vígalega. Hún er alltof stór fyrir almennan smekk. En nú trúi ég hana. Þetta er mikið vatn, stór hylur. Línan mín er með sökkenda sem þýðir að flugan fer niður fyrir yfirborðið í átt til fiskanna.

Fiskanna? Já, þeir eru byrjaðir að sýna sig!

Brölt og byltur.
Láni mínu eru engin takmörk sett. Allt í einu lifnar þessi hylur sem áður virtist kaldur og dimmur. Þetta fyrsta stökk sem ég sá var bara fyrirboði. Nú koma skuggar upp úr vatninu rétt fyrir utan mig. Þverhandarþykk bök og sporðar sem blakta. Stundum hausinn, ekkert meir. Haus sem leggst flatur í vatninu, eða haus sem kemur þráðbeint upp eins og trjóna og ég sé augun góna. Sjá þeir mig? Varla. Varla sjá þeir vel í dagsbirtu og svo er ég á bak við steininn, hálfur, og mig ber í svartan bakkann á bakvið. Gæti verið að þeir sjái glitta í hvítan hatt, en honum fórna ég ekki fyrir feluliti. Enda stend ég kyrr. Fiskar sjá ekki mann sem stendur kyrr með samlitan bakgrunn fyrir aftan sig. Þeir óttast hreyfingu. Þessir óttast ekki neitt. Flugan fer út.

Skyggir
Það skyggir. Þeir halda áfram að sýna sig. Taka ekki fluguna. Ég þoka mér niður með bakknum. Þá kemur enn einn upp skáhallt niður undan, 45 gráður úti, í kastfæri ef ég vanda mig. Þetta er drjúgur fiskur. Mér sýnist hann vera í "skapi". Ég veit ekki hvað það þýðir, en tek miðið. Flugan lendir einum metra fyrir ofan hann, einum metra utar. Það þýðir að nú tekur straumurinn hana og ber nákvæmlega yfir punktinn þar sem hann sást. Hún er kominn á punktinn. Núna? Nei, ekki núna. Hún fer aðeins niður, er komin metra niður fyrir þegar hún stoppar. Já! Ég reisi stöngina og það strekkist á línunni og nú lemur hann sporðinum, fyrst til vinstri, svo til hægri, og kemur svo hálfur upp þegar hann reynir að snúa við með fluguna í kjaftinum. Svo fer stöngin í keng þegar hann sakkar niður og ég finn hvernig hann þrífur slaka og er ógnarþungur þegar strekkist aftur. Stöngin leggst áður en ég ræð við hann, en svo næ ég að rétta hana við án þess að högg komi á. Slagurinn er byrjaður. Það dimmir, það heyrist hvorki í hundi né hænu, ég er ekki lengur aleinn. Ég er í slagtogi með átta punda nýgengnum sjóbirtingi.  Ég er í góðum félagsskap.

Höfundur Stefán Jón Hafstein 
Birt í apríl 2002
Mynd tengist ekki frétt beint

12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði