Á í fjötrum
Það er undarlegt að fyllast ekki tilhlökkun og gleði og því meiri eftir því sem Laxá nálgast. En síðasta sumar var ég þar á bökkum og fannst að eitthvað meira en lítið væri að. Ekki það að ég skyldi fara fisklaus, því er ég vanur í veiðiferðum. Hitt var verra að þetta samband manns og náttúru sem skapast við ána var svo - blúsað. Áin átti svo bágt. Fáir fiskar og margir þeirra óvenju smáir fyrir þessa á sem fóstrar þá stærstu og glæsilegustu sem um getur víða. Nú fann ég þessa sömu tilfinningu koma yfir mig, þá sömu og ég hafði þegar ég ók á braut síðast. Fréttir hafa ekki verið góðar af höfuðbólinu í sumar frekar en af svo mörgum öðrum ám. Laxá er í fjötrum. Þegar ég ók framhjá veiðihúsinu Vökuholti sá ég að enginn veiðimaður var mættur. Húsið var jafn tómt og tilfinning veiðimanna segir til um.
Kátir félagar
Félagarnir voru byrjaðir að kasta á Mjósundið og það bjargar að þeir eru kátir: Pálmi Gunn með félaga sínum Erling frá Akureyri og hinn eilífi sjónvarpsmyndmaður Friðþjófur Helgason sem á að festa ævintýrin á filmu fyrir áhugasama áhorfendur RÚV. Við byrjum á að segja helling af sögum. Svo köstum við og teljum loks af og frá að laxinn sé búinn að jafna sig á möðkum morgunvaktarinnar, þeirra sem voru á undan okkur. Við förum tveir á báti út í sker og köstum, förum svo í skerið vestanvert þar sem ég hef aldrei kastað áður og nú læt ég smáa dökka flugu með ryðrauðum blæ fara út. Það er hrifsað í. Jæja.
Þegar skyggir förum við undir hina ægifögru Æðarfossa. Ég er latur en læt mig samt hafa það að vaða niður fyrir Breiðuna og upp með henni aftur til að flugan fari betur á frægum legustöðum. Þarna öslar maður í hnédjúpu vatni innan um hnullungsgrjót og slýið er hált, en hvað gerir maður ekki til að flugan fari fallega? Erling röltir út til mín og við kjöftum. Of mikið. "Liggur hann þarna" segi ég og bendi með stangaroddinum á stóra steinninn. Það hefði ég ekki átt að gera. Flugan sem var komin beint niður undan mér lendir á sama andartaki í kjaftinum á fiski sem skilur ekkert í að ég sé að þrífa kvikindið frá sér. Ég ríf úr honum með þessum fádæma klaufaskap, sé bara í hvítt í fyssinu og finn hann kippa tvisvar í. Hann sleppur með skrekkinn en nóttin er skollin á.
Fegurstur daga
Dagurinn sem rennur upp er fegurstur daga allra daga. Það hlýtur bara að vera. Sólin rífur sig gegnum skýjabakka norður yfir Skjáflanda, Kinnarfjöllin lýsast upp og hafið; hún sendir hvítar þokuflygsur burt yfir suðurheiðunum, gæsir koma í oddaflugi út úr móðunni og loks er allt ægibjart og hlýtt; áin græn og blá og hólmar og bakkar í blóma. Við eigum stórfiskastaðinn Hólmavaðssíflu og þykjumst góðir. Samt hef ég aldrei verið jafn rólegur að komast út í á, og aldrei jafn yfirgengilega afslappaður yfir því að byrja að kasta. Hann er svo blár þessi blús. Laxá hefur gefið um 600 laxa á svæðum félagsins, ef allt væri með felldu væru þeir þúsund, og þeir eru margir smáir og fáir knáir.
Við stöndum á bakkanum og köstum, förum rennsli með ólíkum flugum og ég er heiðursgestur og fæ að byrja: Byrja með gárubragðið af því að það er svo einstaklega fögur vindgára á vatninu. Ekki kemur hann í það. Frekar en annað. Einn stór lax sést allan morguninn, hann kafar eins og hvalirnir úti á flóa, dökkur eins og skugginn undan stíflunni, búinn að vera þarna lengi og mun tæpast láta ginnast í dag. Loksins þegar ég set agnarsmáa Frances undir er eins og ég fái trú. Þeir veiðimenn sem eru búnir að kasta hér í sumar hafa eflaust tekið fram túburnar sínar, þungar og stórar hlussur og látið þær skralla. Ég tek mínar fram, agnarsmáar svartar, ekkert skraut núna, enginn gullkrókur, enginn silfurkrókur, bara svört títla sem ég dreg frekar hratt til mín, alveg gegn reglugerðum þeirra sem segja að flugur í Laxá eigi að renna á straumhraða. Stripp, stripp, stripp, ekki mjög hratt en rösklegt og ákveðið. Þá lyftir hann sér. Rís úr miðju djúpinu þar sem flugan er og það kemur ólga og svo sé ég hann. Sé hann hætta við. Þetta er tökulax segja fræðin. En hann tekur ekkert hvað sem ég reyni við hann. Læt fluguna fara hægt, hratt, skipti, stækka, reyni bláa, silfraða. Pálmi og Erling fara út á bátnum og kasta á speglinn fyrir ofan stíflua og austur með bakkanum. Yfir landinu þessi himneska kyrrð. Þögn og birta, hiti og vatn vatn vatn sem streymir. Svo springur vatnið allt í einu þar sem flugan Iða lendir. Hann rís upp eins og öskureiður órangútan sem slær sér sér brjóst og lemst með haus og sporð á fluguna. Ónei. Það er búið jafn fljótt og það byrjar. Hann bara kom upp til að túlka reiði sína yfir þessari litlu flugu sem dirfðist að ónáða hans hátign.
Spjallvinir
Þá koma hinir kallarnir sem eiga að taka við. Vinalegir spjallarar og menn fara yfir stöðuna. "Var eitthvað hérna fyrir neðan" spyrjum við um væntanlega veiðistaðir okkar. Þeir segjast varla hafa kastað. Séu orðnir svo gamlir að veiðitúrarnir fari mest í spjall á bakkanum. Sáu engan lax meðan þeir spjölluðu. Það gerðum við ekki heldur og köstuðum samt aðeins meira en við spjölluðum. Ákváðum því að ljúka vaktinni á enn neðra svæði og þar sást einn svartur og mikilúðglegur koma upp á stað sem fáir reyna við. Við festum okkur staðinn í minni og fórum í mat.
Samlokur og kaffi
Samlokur og kaffi. Áin rennur svo undurfögur um Hólmavaðsland, blá með hvítu á flúðum, það þýtur í laufi hjá Þinghúsinu gamla sem hýsir okkur.
II hluti: Inn í ljósaskiptin
Nú var Laxá blá eins og í flugum eftir Þórð Pétursson og hvítnaði á flúðum upp með ánni þar sem við áttum að veiða: Fyrst Óseyri og svo bakkana við brúna.
Það er ágætt að blunda í grasi. Einhver úr hópnum segir svo "jæja", og eitthvað um að ekki veiðist nú mikið með að sofa, annar bætir við að það veiðist svo sem ekki mikið við að veiða, menn stjaka hver við öðrum með vinsamlegum orðahnippinum og það er ræs, kaffi og svo treður maður sér í hinn eilífa ullarbol sem alltaf þarf að skrýða mann sama hve heitt er sumrið, því kvöldin eiga það til að vera svöl. Hver hefur tíma til að skipta um bol þegar komið er út í á og laxinn að elta? Nei, og þá væri nú líka ráð að míga því ekkert vesen er leiðinlegra en standa í vöðlum úti á breiðu og þurfa að. Maður getur ekki veitt svoleiðis. Einbeitingin fer svo gjörsamlega á rangan stað.
Óseyrin
Við vorum að veiða fyrir myndband sem er aðeins annríkara og ófrjálsara en að veiða fyrir almættið eða mömmu. Friðþjófur myndatökumaður tróð sér í vöðlur og tengdi langan kapal við tank sem þeir Pálmi Gunn fylltu af myndavél. Óðu svo út á á breiðuna eins langt og þeir þorðu til að styggja sem minnst og létu vélina ganga. Erling sagði mér að fara fyrstu rennslin, hann ætlaði að sníkja kaffi á bæjum og hlera heimamenn. Ég yrði að vinna fyrir okkur báða.
Óseyrin er heillandi staður. Breið, grunn, fer milli grasbakka og breikkar þar uns áin tekur beygju og þar stríkkar straumur aðeins og brotnar á flúð. Yfir að líta er hún eins og vænn fótboltavöllur ef ímyndunaraflið fær að skálda í örfáar eyður. Ég hef aldrei vaðið út á Óseyrina án þess að heyra eftir á að ég hafi vaðið of langt. Einn gamalreyndur segist veiða hana frá landi til að byrja með, en þá er hann að kasta á ökladjúpt vatn. En á miðri breiðunni myndast óljós straumröst og það er ekki galið að kasta að henni og yfir og láta svo fluguna berast niður fyrir sig og draga ekki að sér fyrr en hún er stopp. Þá stendur maður á vatni sem er í kálfa og finnst alveg fáránlegt að lax geti legið á þessu grunni eða elt ósýnilegur. En það gerir hann. Óseyrin hefur verið mér góður veiðistaður miðað við fiska ég hef dregið úr Laxá og ég oftar en einu sinni fengið lax með því að vera nógu þolinmóður á grunnsævi. Hún er svo ólík öðrum sögufrægum stengjum og álum Laxár í Aðaldal, þar sem speglar og ólgur og dimmgrænt dýpi skiptast á. Svo sakar ekki að vita að á grunninu liggja frekast tökufiskar, og þeir geta verið heljarinnar stórir. Og vei þeim veiðimanni sem missir 22 punda fleka niður í flúðirnar og niður fyrir. Spennandi.
Stílbrigði
Það var stíf norðan gola upp dalinn og ýfði ána, en sólfar svo að manni fannst ekki trúlegt að lax á grunnu vatni færi að elta mikið. Ég sagði Erling að mér hefði dottið í hug White wing, og hann sagði að gömlu karlarnir hefðu einmitt trúað á hana við þessar aðstæður. Þegar mikil birta er yfir, ægibirta eins og nú, segja sumir að ljós fluga eigi betur við og heyrt hef ég gamla laxárjaxla fullyrða að best sé að flugan renni saman við lit vatns og lofts, sé eins og hluti af því og laxinn skynji fluguna - ekki sem aðskotahlut - heldur stílbragð í umhverfinu. White wing er með hvítum væng eins og nafnið gefur til kynna, og gult og blátt í henni líka, svona sem stílbragð við himinn og gras á bakka - ef maður er skáldlega þenkjandi.
Þetta var tvíkrækja sem ég gafst upp á fljótlega vegna þess að hún var svo veiðin á slý. Reyndi að fara í örsmáa gárutúbu í þeirri von að slýið festist síður á henni, en það var borin von. Fór rennsli niður alla breiðuna og það stóðst á endum: Þegar ég kom til móts við myndavélina í tankinum og sofandi mennina á bakkanum hafði ekkert kast heppnast án þess að raka saman slýi á leiðinni. Svona getur Laxá reynt á þolrifin. Ég dró djúpt andann í áttugasta og fimmta skiptið og hreinsaði slýið af, kastaði, og dró inn þunga tusku. Þessi dásamlega á er svo harðbrjósta stundum.
Myndavélin
Botninn iðaði af sandi, gróðri, ljósbroti af vatninu og svo komu viðstöðulaust slýdræsur fyrir auga myndavélarinnar. Það sáum við á skjánum. Útsýnið var ekkert, en allt á eilífu flökti. Flugan mín var að keppa við ýmislegt í ríki fiska. Ég ímyndaði mér að linsan væri augað á laxi og sá að fluga ætti afskaplega litla möguleika á að fanga athygli hans. Ég ákvað að fylgja kenningunni um að litur flugunnar ætti að fylgja umhverfi fisksins og setti Green Highlander undir. Hún er grænleit og gul og gæti vel verið listræn útfærsla á því ljósbroti og slýreki sem ég sá að var í vatninu. En gafst upp á að kasta henni í þessa sætsúpu. Þrautaráðið var að taka fram stóra straumflugu, mjög léttklædda og með stórum krók, kasta henni og reyna að fá frjálst rek smá stund, en rífa hana upp um leið og slýið festist á. Þannig fóru þeir að í gamla daga með stóru einkrækjurnar Laxárjöfrarnir. Rifu einkrækjuna upp og þeyttu slýinu af um leið og þeir lögðu hana fram aftur. Blessuð sólin elskaði allt. Svona fór ég ferð eftir ferð niður breiðuna, rifjaði upp kenningar og sögur og heilræði og spakmæli sem ég hef heyrt af bökkum árinnar. Þetta var ágætis stund með sjálfinu.
Jafnvel sjálfið!
Jafnvel sjálfið getur orðið óþolinmótt. En þá rifjaði ég upp þegar ég fékk laxinn. Var við sömu aðstæður þarna á eyrinni. Var einn með sjálfum mér og sjálfinu. Fór ferð eftir ferð með flugur sem ég reyndi að trúa á og sagði alltaf við sjálfan mig að nú væri ég kominn með þá réttu. Einn klukkutími. Tveir. Næstum þrír. Loksins þegar athyglin var alveg runnin saman við lygnt vatnið sem streymdi og streymdi og streymdi svo hljótt og lygnt kom lax. Lax! Hljóðlaust á léttu svifi upp úr vatninu alveg eins og lax á að gera. Lagðist niður á vatnið og greip fluguna. Ég landaði honum varlega og fór út aftur. Kastaði á ökladjúpt vatn. Lét fluguna reka niður fyrir mig og þá tók hinn. Hann missti ég. Þetta var ég að hugsa með sjálfum mér og ímynda mér að myndi gerast aftur meðan dagurinn leið. Án þess að nokkur fiskur tæki. Framundan var kvöldið og nú færum við inn í ljósaskiptin.
Allt sem ég áttiIII hluti: Loksins fiskur
Okkur kom saman um að ekkert þýddi að veiða fyrr en í ljósaskiptunum. Svona verður maður spakur eftir að hafa kasta þrotlaust í ljósi sólar í fjóra klukkutíma. Án þess að fá fisk, og hafa ekki séð neitt allan daginn nema þessa tvo sem risu upp við flugunni á Hólmavaðsstíflu um morguninn. En þegar sólin lækkaði á lofti og nam við heiðarbrún í vestri var ég kominn á bakkana niður undan brúnni og með þá stóru svörtu Hólmfríði undir sem ég hafði valið í baráttunni við slýið. Laxá í Aðaldal sortnaði smám saman, skuggar lengdust í hrauninu, bakkarnir dökknuðu, þögnin varð dýpri ef undan var skilinn hljóður niður árinnar. Vatnið varð gullið. Ég kastaði yfir í skuggan af hinum bakkanm og lét fluguna koma yfir ólgurnar og til mín. Eimitt þegar hún var að fara úr straumskilunum mín meginn kom hann. Dembdi sér yfir hana og missti af henni. Bölvaður. Blessaður. Blessaður, að láta vita af sér.
Nú fór næsta klukkustund í að sýna honum allt sem ég átti. Gárutúban strikaði vatnið svo fallega að ég varð að kyngja munnvatni. Hún er gerð úr litlum plaststaut sem er skrýddur örfáum hárum. Taumurinn fer inn um gat á miðjunni og út um óæðri endann þar sem hnýttur er gylltur þríkrókur. Þannig lendir flugna þversum á straum og sekkur ekki, heldur skárar yfirborðið. Þetta prjál er svo lítilfjörlegt í augum manna, en svo ögrandi þegar það rispar spegil vatnsins fyrir ofan fiskinn. Ekki kom hann aftur. Svo fór ég í annað, og enn annað, hafði fest mér punktinn í minni þar sem hann kom. Var svo að gefast upp þegar ég ákvað að láta gárutúbuna fara aftur yfir. Þetta var ótrúlegt. Eftir klukkustundar daður með öllum fegurstu flugunum í boxinu kom hann aftur upp. Ekki þó með haus og sporð eins og áður. Túban fór yfir spegilinn, agnarsmá, strikaði. Þá kom upp boginn krókur á hæng. Bara neðri skolturinn með krók - nákvæmlega í fluguna - en ekki svo hann festi sig. Hann var svo nálægt og ég í svo góðu færi að hér fór ekkert milli mála. Ég sá stolt hængsins, krókinn, og sá jafnvel að hann var með rauðri slikju. Svo var allt hljótt eins og ekkert hefði gerst. Gerðist það? Jú, ég trúði mínum eigin augum, enda ekki vön að skrökva fiskisögum.
Húmar að kveldi
Sólin kvaddi Laxárbakka og það húmaði að kveldi. Áin var ekki lengur gyllt heldur dökk. Nú kom stærsta tækifæri dagsins að allra mati. En samkvæmt reglum verða veiðimenn að kveðja ána eftir að hafa staðið í hafgolu og sólfari í fimm og hálfan tíma einmitt þegar líkur eru loksins á að fiskur taki. Enda kom það í ljós. Rétt eftir hálf níu kemur allt í einu dökkur skuggi upp úr vatninu og neglir fluguna hjá félaga Pálma, sem nú hefur yfirgefið hlutverk sjónvarpsmanns til að gerast veiðimaður skamma hríð. Hann þumbari þessi fiskur, stingur sér beint í slýbunka og vefur línuna utanum stein og er farinn. Hann tók Flæðarmús. Flæðarmús! Allir vita að hún er ekki laxafluga heldur sjóbirtingsfluga! Það eru fimm mínútur eftir af besta tökutíma dagsins. Ég fer með svörtu Hólmfríðina. Hún er með svartan væng, rauða kúlu á maganum, silfraða strengi í kvið. Kinnar úr fjöður frumskógarhanans og rauðan stóran haus. Ég veit að þegar laxinn lítur upp úr djúpinu mun hann sjá dimman himinn yfir sér og svart í blátt sem nú blandast á austurhimni. Þá mun Hólmfríðurinn dökka koma eins og strik í þetta haustkvöld yfir höfði fisksins og allt í einu glampa á silfurþráðinn í kvið hennar. Eins og örlítið stílbragð við endurkast ljóssins frá nýslegnum túnum og gulum bökkum í síðustu leifum dagsins. Og það gerist. Fiskurinn dembir sér á þá svörtu og eftir stuttan slag er hann kominn að bakkanum til að synda þaðan aftur eftir að ég hef losað fluguna. Hann á betur heima í ánni þessi en í plastpoka. Undarlegt. Hér hamast maður allan daginn við að plata lax, svo gerist það, og maður sleppir honum með skrekkinn, en það er einmitt allt í lagi því maður veit að áin þarfnast hann meira en maður sjálfur. Þessi fagra á. Þessi harðbrjósta erfiða á, stundum.
Næsta dag.
Næsta dag tekst mér að særa fisk í fluguna. Við erum farnir þangað sem lítið er um fisk að allra mati, en ég á stað þar sem hann hrifsaði í hana hjá mér í fyrra; það er við horn af hólma þar sem kvísl hefur liðast niður með bökkum. Ég tek þá dökku Hólmfríði þótt nú sé sól og logn. Bara. Kasta. Húrra! Það er þrifið í! Ég bölva því að strákarnir eru farnir niður með á svo ég get ekki litið hróðugur um öxl og sagt með glampa í röddinni: Hann er við! Svo ég tek Black Ghost og kasta á hann. Enginn heima. Tek gula straumflugu sem er eins og síli í vatninu og enn er ekkert svar. Fæ hugljómun. Tek appelsínugula Kröflu eftir Kristján Gíslason og kasta á sama punktinn og hann tók Hólmfríði eftir Kolbein Grímsson. Þetta er þjóðsagnaþing. Kraflan fer niður með silfruðum krók og ég er viss um að þessa hefur hann ekki séð í sumar. Enda þrífur hann í langa þreifara hennar og ég finn höggið, og svo aftur höggvið í, en ekki festir hann sig. Jæja. Þetta var gaman. Góðu dagsverki lokið. Gat platað lax til að hætta lífi sínu á eftir fjöðrum á öngli. En hann var heppnari en ég. Kominn tími til að fara heim. Sögum og draumum ríkari. Það er rétt: Á bökkum Laxár eru allir stórmenni. Vonandi tekst þessum stórmennum að hjálpa ánni gegnum þrengingar, gæta hófs í veiðum og skipuleggja þær svo að áin blómstri á ný og stórlaxastofninn verði sterkur. Laxárfélagið fær heillaóskir með von um gæfuríkar ákvarðanir á sextíu ára afmælinu sem er einmitt í ár.
Höfundur Stefán J Hafstein