2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
8.2.2020

Dagbókarbrot leiðsögumanns - úr safni Flugufrétta

Nýir gestir eru að koma í Grímsána og þegar maður sér andlitin á þeim sést bara eitt, spenna og eftirvænting. Lundarreykjadalurinn heilsar þeim ansi kuldalega, rigning og vindstrekkingur, kannski er þetta fyrirboði um hvað koma skyldi? Á slaginu 16:00 bíða mín 3 erlendir veiðimenn, fullvopnaðir dýrindisgræjum. Þessir veiðimenn eru að koma í Grímsá í fyrsta skiptið. Ég geri þeim grein fyrir að það sé ekki mikið af laxi í ánni en augngoturnar sem ég fæ segja eitt: hann veit ekkert um það. Við eigum svæði 1 sem að öllu jöfnu er best á þessum tíma, í byrjun júlí, en ég veit það að það er ekkert að gefa um þessar mundir. Ég fer með þá í hyli mjög neðarlega í ánni en við finnum bara fiska í Þingnesstrengjum og Hólmavaði. Við náum einum laxi á land í Hólmavaði og gein hann við Hairy Mary micro og eftir smá dans spor er honum vippað á land og svo útí aftur. Þegar haldið er í hús eru þessir góðu gestir ekki jafn kokhraustir, kannski hefur "gædinn" rétt fyrir sér eftir allt. Spennufall?

Næsti dagur
Ég var í stórveiði þar til síminn vakti mig, ó hvaða synd. Gæjarnir þrír eru  enn í góðum gír þegar ég hitti þá, þrátt fyrir hrakfarirnar í gær.Við erum á leiðinni uppí dal. Ég veit að það er slangur af fiski í Tjarnabrekkufljóti og Oddstaðafljóti. Aðstæðurnar eru glæsilegar séð frá sjónarhorni sóldýrkandans, logn og steikjandi hiti. Ég skil eftir vel vopnaðan veiðimann í Oddstaðafljóti eftir að hafa sýnt honum hvernig ætti að bera sig að. Hina tvo tek ég niður í Tjarnabrekkufljót. Þessir tveir deila stöng og upp kemur smávandamál, hver eigi að byrja.  Þeir voru ekki sammála hver byrjaði í gær. Þetta leysist með hjálp minni.

Hvaða fluga? hljómar í eyrum í mínum, en hann heldur á ansi stórri túpu. Ég ræski mig kurteisislega og sting uppá micro - en á ekki von á að það verði samþykkt. En viti menn microinn fær að synda í hylnum, en engin fiskur sýndi áhuga. Fleiri flugur fylgdu í kjölfarið en ekkert gerðist þótt einstaka fiskur kíkti uppfyrir yfirborðið. 

,,En þessi" heyrðist sagt og þegar ég leit upp sá ég túpuna, annað sinn þennan morgun og hugsaði því:  ,,við höfum engu að tapa". Túpan göslaði í hylnum - fram og til baka í hylnum og eina sem við höfðum uppúr því var BIG ZERO. 

Ný fluga - ný aðferð
Menn ypptu öxlum og ég sýndi þeim flugu sem heitir því góða nafni Tálbeitan. Annar hafði enga trú á henni og ákvað frekar að njóta samvistar við sólina frekar en árbúann, hinn tók áskoruninni. Fjsú fjsú, flugan lagði á stað. Hún var búinn að heilsa uppá lónbúan nokkrum sinnum þegar hann réðst á hana. Eftir nokkra mínútna tog kom 5 pundari á land og hann hafði kokgleypt fluguna einsog hann gerir oft við The Garden Fly.  Við urðum því að senda hann áfram á næsta tilverustig. Eftir þetta var skipt á svæðum. Flugurnar þutu um loftið of syntu í vatninu en ekkert gerðist. Ég var núna með þeim sem var í Oddstaðafljóti í Tjarnabrekkunni. Veiðimaðurinn veiddi alltaf með fluguna á ,,dauðareki" og vildi ekki hlusta á neitt annað. Ég var nokkrum sinnum búinn að skjóta að honum að prufa að strippa fluguna en hann gerði það í mýflugumynd.Sá stærsti úr Grímsá sumarið 2019. Enginn 5 pundari hér. Veiðimaður Sigurður Veigar

Tíminn leið og leið og klukkan nálgaðist óðfluga eitt. Ég náði lymskulega í stöngina mína og setti undir Collie Dog hnýtta á silfurkrók númer 8. Ég gekk að honum ræskti mig og sagði honum að prufa þetta, kasta þvert  og draga fluguna einsog "mad man" yfir hylinn. Hann gerði þetta og í fyrstu köstunum sá ég á látbragði hans að honum leist ekkert á þetta. Skyndilega kengbognaði stöngin og hann var á. Eftir smá bardaga lá spriklandi 5 pundari í fjöruborðinu og fékk hann frelsið aftur. Kallin tók í hendina á mér og sagði að hann hefði aldrei trúað að það væri hægt að veiða lax á þennan hátt. Þarna víkkaði sjóndeildarhringur hans og vonandi vill hann prufa fleiri aðferðir. Jæja hvað með það klukkan sló eitt þannig að ekki mátti tæpara standa að ná þessum fiski.

Næst lá leiðin uppí Oddstaði að ná í hina tvo sem voru þar á veiðum. Félagarnir veifuðu laxi framan í mig og sá hafði tekið keilutúpu, strippaða niður við skurð og fór eins fyrir honum einsog félaga hans sem tók Tálbeituna fyrr um morgunin. Það er létt yfir vinum mínum núna, þeir sáu nokkra fiska í morgun og voru bara óheppnir í gær. Það er meira af laxi í ánni en ,,gædinn" heldur fram, las ég á milli línana hjá þeim, en ég því miður veit mínu viti.

Og enn og aftur 
Við erum á leiðinni á ,,dead zone" eða öðru nafni sv. 4, þarna eru þekktir hyljir einsog Kotakvörn, Síkismóafljót, Húsafljót, Garðafljótin ásamt  nokkrum öðrum stöðum sem gætu gefið fisk. Þegar upp í dal er komið set ég tvo út við Kotakvörnina og krossa síðan ánna niður í Garðafljótin, en ég hefði sennilega keyrt hringinn í dalnum til að stytta tíman því þetta er nánast tímaeyðsla að mínu mati. Ég fylgist með kallinum mínum og skipti mér af stöku sinnum þegar tilefni gefst, en ekkert gerist.

Skyndilega finnst ég vera orðinn karekter í sögu eftir Stephen King og ekki af hinu góða, ég er að upplifa martröð sem ég er vakandi í. Toppskilyrði, en enginn fiskur - þetta verður ekki verra. Við förum um allt - sama sagan - lítill eða engin fiskur og þeir sem eru fyrir hafa séð þetta allt.

Núna verður að beita sálfræðinni, vera hæfilega bjartsýnn og trompið er að sýna þeim myndir af hinni stórkostlegu náttúru sem við búum við og lítum á orðið einsog sjálfsagðan hlut, en verðum samt sem áður að vera vakandi yfir. Þeir eru stórhrifnir og við sitjum inní jeppanum og ég sýni þeim myndirnar og glotti við tönn, þetta tókst, hugur þeirra er kominn uppá hálendi Íslands og ekki minnkar hrifningin þegar Egils Gull skýtur upp kollinum, uppúr þurru milli handana á mér. Mér er létt, þeir eru greinilega ánægðir í vaktarlok, þetta er ekki alslæm martröð! 
  
Með veiðikveðju 
Rögnvaldur Hallgrímsson

12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði