Síðla í júlí og fram í ágúst þyrlast upp fiðrildi um alla móa. Þau eru ekki ýkja fjölbreytt í litavali sínu þau íslensku. Móbrún, gráleit eða bara brún. Stundum mjög ljós, nánast hvít. En silungarnir eru vitlausir í þau.
Við sátum nokkrir veiðimenn yfir kvöldkaffinu í sumar og ræddum fiðrildamál. Við fórum djúpt í líffræði þeirra, svona eins og leikmenn geta, og rifumst smávegis um hvort fiðrildi klekist í vatni (sem þau gera ekki). Við rifumst um það þangað til að doktor í náttúrufræðum við borðið sagði að fiðrildi væru fyrst maðkar og svo púpuðu þau sig til að skríða út sem fiðrildi. Á þurru landi. En þau eru mikið við vatn, og hvílíkar hlussur getur að líta á steinum þegar hausta tekur.
SJH var að veiðum fyrir austan skömmu eftir þessar umræður. Það var blankalogn í fallegum bleikjuósi. Undan mjóum hólmaodda myndaðist straumröst á útfallinu þar sem tvær lænur mætast; kannski rótaðist upp mikið æti vegna þess? Að minnsta kosti kraumaði vatnið af bleikju hlémeginn við röstina. Inni á lygna vatninu. Þær voru ekki að taka uppi á yfirborðinu, heldur undir því. En sporðar og bök sáust um allt, og hringir frá fiskum sem voru að éta. Á grasbakkanum mátti sjá fiðrildi fljúga og sum detta í vatnið.
Ég hefði átt að kasta púpu eða lirfu eða marflóarlíki til að kanna hvort hún vildi slíkt. Hún var örugglega að éta eitthvað svoleiðis. En vegna þess að það er svo gaman að sjá bleikjuna taka þurrflugu sem flýtur ofan á vatninu náði ég mér í nýja slíka. Þetta er fluga eftir svissneska hönnuðinn Marc Petitjean, sem ég hef oft sagt frá Þessi fluga var kynnt á vefnum í sumar og nefnist MP54. Hún er gráleitari en ég hef áður notað. Og fór út.
Aftur næsta dag. Flugan fór beint þangað sem hringirnir komu. Hún rann yfir nokkra hringi í álíka mörgum köstum. Ekki kom bleikjan. Ég varð vonsvikinn. Kannski vildi hún ekki fiðrildi? En þá kom það. Lítill haus af bleikju stakk sér upp í gegnum vatnsborðið og beit í fluguna. Þetta gerðist rétt fyrir framan mig, ég sá greinilega þegar hún tók. Og það gerðu fleiri. Þær voru alveg tilbúnar að líta upp úr lirfusúpunni og taka þurrflugu sem ég lagði fram, þótt náttúran sjálf væri með annað á matseðlinum.
Næsta dag átti ég svæði ofar. Þar hafði vatnið verið fjögurra gráðu kalt daginn sem við komum og ekkert líf. Þennan morgunn hafði hiti stigið. Þegar við komum niður að bakkanum heyrðist bravó! ,,Hún er komin upp!? kallaði ég glaðlega til félagans. Tvo metra frá landi kom myndarlegur hringur með reglulegu millibili. Þetta var bleikja að gæða sér á einhverju sem flaut á yfirborðinu.
Fiðrildið fór undir. Ég lét fluguna detta fram fyrir mig, fet fyrir ofan staðinn þar sem hringirnir höfðu komið. Flugan flaut léttilega niður með straumi, tuttugu sentimetra. Þá kom hausinn upp og tók fluguna alveg ákveðið. Ég lyfti stangarendanum til að setja fast í og nú varð ég að passa mig. Bleikja fór á fleygiferð út á stóran hylinn, hjólið söng og stöngin svignaði. Ég þyngdi aðeins á bremsunni þegar ég hélt að hún væri komin hættulega langt út. Það dugði. Hún stöðvaði án þess að hætta væri á að taumurinn slitnaði. Svo strikaði hún beint að mér. Ég bakkaði eins hratt og ég gat og hálf hljóp upp bakkanna meðan ég vatt inn línu sem mest ég mátti til að fá ekki slaka á. Bleikjan kom á fleygiferð alveg upp í mölina. Þegar hún kenndi grunns fór hún að sprikla. Þá bakkaði ég enn eitt skref og hún spriklaði sig á land langt fyrir neðan mig. Þetta var stærsta bleikjan á vaktinni. Langt gegnin í þrjú pund.
Prófið fiðrildi
Skömmu síðar var einn af fremstu fluguhnýtingamönnum landsins við veiðar á sama stað. Hann kom snemma á svæðið, nógu snemma til að fylgjast með þeim sem voru að veiðum á undan. Þeir voru á rétta staðnum, í straumröstinni sem ég hafði veitt í. Og þeir voru engir maðkakallar. Með fínar flugustangir og nettar línur og kunnu að kasta. ,,En kallagreyin fengu ekkert? sagði sérfræðingurinn síðar. ,,Þeir voru bara með Heimasætu og Peacock?. Hann gaf þeim heilræði og setti svo sjálfur undir lítið kvikindi sem minnti á fiðrildi sem er að klekjast í vatni. Klekjast í vatni? Já, en fiðrildi klekjast ekki vatni!
Það vissi fiskurinn ekki og tók grimmt.
Höfundur SJH
Birt í apríl 2002