2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
12.2.2020

Bleikjur á beit - úr safni Flugufrétta

 Þennan veiðidag reyndi talsvert á veiðimenn.  Það var kalt, vatnshiti alveg í lágmarki, og bleikjan í Soginu, sérstaklega sú stóra, er lítið fyrir að elta flugur.  Aðferðin felst í að troða flugunum upp í þær.  Láta skralla með botni, kúluhausa, og reyna að hitta á opinn kjaft sem ekki tekst að forða sér.  Kúpurnar mínar sigu með hægum straumi út um alla breiðuna og það var ekki fyrr en vel var liðið á dag að ég varð var.  Þar var punktur.  Um leið og tók festi ég mér staðinn í minni, landaði þeirri fyrstu og óð út aftur og tók aðra strax.  Þá voru hinir veiðimennirnir orðnir spenntir að fá að prófa þennan helga blett árinnar og ég leyfði þeim að spreyta sig meðan börnin á bakkanum fengu mikinn fyrirlestur um gagnsemi eyrugga, kviðugga og sporðsins, auk þess sem við spáðum í hvers vegna bleikjan væri með bleikan blæ á kviðnum. Í ánni fengu hinir ekkert.

 

Þegar þeim var orðið kalt fór ég aftur út og reyndi að leiðbeina þeim. Stóð á milli þeirra og kastaði ?? það er hérna? sagði ég og auðvitað tók bleikja. Það var sú stærsta. Svona er nú veiðilánið stundum með þeim grobbna

Litlar lirfur
Í stað þess að fara inn í kviðinn á fyrsta fiski lét ég það bíða uns heim var komið.  Það var della.  Því þegar í eldhúsvaskinn kom sást að bleikjurnar höfðu verið að éta miklu minni flugur en ég hafði boðið.  Það var líklega mest heppni að sé setti í þessar fjórar, en allar hinar voru á kafi í agnarsmáum lirfum.  En þær voru niðri við botn að éta, og oft er vandasamt að koma pínulitlum og léttum flugum svo djúpt í kalt vatn.  Svo ég bar þetta vandamál undir veiðimann sem hefur veitt í öllum heimsálfum.  Hann benti á ágætis lausn.  Setja mjög þunga kúpu fremst á tauminn, en raða svo léttum flugum, agnarsmáum, á tauminn þar uppaf.  Maður getur auðveldlega veitt með 3-4 á taumi ef aðstæður eru góðar.  Þannig hefði mér tekist að koma litlum lirfum, númer 14 og 16, alveg niður á botn og láta þær þyrlast fyrir augu fiskanna.  Gaman hefði verið að prófa það.  En ég gekk bara út frá að þær væru að éta bobba.

Heimsókn í vatni
Áður en dagur leið hafði ég reyndar fengið sönnun þess að meira var á borði bleikjunnar en bobbar á steinum.  Ég var sannfærður að draumar næturinnar hefðu merkt fimm fiska, og ég bara kominn með fjóra, svo ég hamaðist við að láta dæmið ganga upp.  Stóð á malarbotni og þrákastaði á helga blettinn.  Varð svo litið alveg óvart niður.  Á hnédjúpu vatni sást vel til botns og það sem þar var að störfum.  Stærsta bleikja dagsins hafði laumast upp að stígvéli mínu og var eins og hæna á vappi þar sem þyrlaðist upp grugg undan fæti mér.  Þarna var veisla í meira lagi og munnurinn opnaðist og lokaðist með háttbundnum hætti.  Þar til hún sá að kominn var gestur í boðið.  Augu okkar mættust og þá var nú slegið til sporði.  Bless bless.  Ég vissi að þá hafði draumurinn ræst og kvaddi.

Aftur á staðinn
Vegna þess að mér fannst dagurinn hafa verið góður fór ég fljótt aftur á staðinn.  Fór reyndar bara eftir vinnu og átti ekki nema örfáa tíma af síðari vaktinni.  Var kominn á helga blettinn þegar ég tók eftir veiðimönnum sem voru á hinum stöngunum, þeir höfðu greinilega verið í kaffi á bakkanum, ekki tekið eftir mér, og urðu nú vissulega tvístígandi og það ótt og títt. Ég vissi hvað hafði gerst.  Meðan þeir voru að kjafta hafði ég komið óafvitandi og farið á staðinn þeirra!

Annar kom vaðandi út fyrir ofan mig og veiddi prúðmannlega niður undir minn stað, og fór ekki of nálægt.  ,,Eitthvað að hafa?" spurði ég upphátt.  Hann sagði að þeir hefðu fengið nokkrar góðar.  ,,Hvar?" spurði ég ósköp kurteis.  ,,Þarna sem þú ert!" sagði hann og mér heyrðist bregða fyrir glotti.  Svo fóru þeir á neðri veiðistaði.

Ég náði dásamlega fallegri bleikju um kvöldið. Fjögurra punda.  Hún tók púpu við fæturna á mér og ég sýni mynd af henni hér.  Hún er eftir Stebba Hjaltested.  Þegar vakt var lokið runnum við saman, veiðimenn, og kjöftuðum afslappað.  Þeir höfðu fengið fjórar eða fimm um daginn.  Voru góðir.  Sögðu mér svo sögu sem ég læði að ykkur, ágætu vinir á flugur.is:  Eftir að hafa þrábarið með púpum og kúluhausum allan morguninn án þess að verða varir þótti þeim vonlítið að fá fisk.  Settu risastórar straumflugur undir, köstuðu langt út og drógu hratt inn.  Alveg gegn viðurkenndum veiðiaðferðum í Soginu.  Og nú komu stórbleikjur með boðaföllum á eftir!  Tóku og rifu sig lausar, en sumar náðust.  Hvílík læti.  Og þeir höfðu endurtekið leikinn undir kvöld, dregið hratt í vatnsborðinu, straumflugur númer 2, og fengið tvær í trylltan leik!  Við brostum allir.  Sögðum eitthvað klisjukennt: svona er veiðin, eða álíka.

SJH apríl 2002

12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði