Aðeins tveim dögum áður hafði veiðifélaginn hringt í mig og sagst eiga stangir í Hlíðarvatn. Ég var að sjálfsögðu til í tuskið, hafandi aldrei komið í Hlíðarvatn, en lesið um það, oft. Ég hef að sjálfsögðu líka ekið framhjá vatninu og í hvert sinn sem það gerðist þá var fyrsta hugsunin? Þetta er veiðilegt vatn? En ekki varð af því að reyna það fyrr en núna.
Ég var því eldsnöggur að gera mig kláran, renna vestur í bæ eftir veiðifélaganum, sem beið tilbúinn með stöng, flugur, vöðlur og annan veiðibúnað. Reyndar var hann örlítið seinn fyrir því kaffið var búið og þurftum við að lifa við skyndikaffi þennan daginn. Hvað um það, aksturinn að Hlíðarvatni um Krísuvík gekk að óskum. Mikil umræða spannst um lítið og minnkandi vatn í Kleifarvatni en það er ótrúlega lítið um þessar mundir. Engar einhlítar skýringar komu fram í þessari umræðu, en þó voru áhyggjur af inngripi mannanna í náttúruöflin ofarlega á baugi, þó svo að inngrip náttúruaflanna sjálfra sé líklegri skýring í þessu tilfelli.
Eftir því sem við nálguðumst vatnið jók í rigningu, þoku og vind, og þegar við renndum í hlað hjá veiðihúsinu var hellirigning, þoka og strekkings suðaustanátt. Við vorum einir á staðnum, aðrir veiðifélagar ekki mættir, þannig að góður tími var tekinn í að taka til búnaðinn, drekka kaffi og lesa veiðibókina sem innihélt margar vandlega skráðar síður. Samkvæmt veiðibókinni átti þetta nú að vera létt verk og löðurmannlegt, því veiði var aðeins skráð á Peacock og Watsons Fancy, en þær flugur voru að sjálfsögðu báðar til í boxum okkar. 
Fuglar vorsins
Var nú haldið til veiða. Fuglalífið gaf til kynna að vorið væri komið á stjá. Örn tók á móti okkur þegar við nálguðumst vatnið. Fyrstu kríur vorsins voru komnar og gerðu þær létta atlögu að okkur, þetta var nú meira æfing en raunveruleg áras, enda snemma vors. Kjóahópurinn sem flaug yfir okkur var sá stærsti sem ég hef nokkru sinni séð. Þreyttar sandlóur í þúsundatali glöddu einnig augu veiðimanna ásamt Hávellu og fleiri sumarboðum.
Flotlína, þriggja punda taumur, Peacock, ekki með kúluhaus og vindurinn í bakið. Notuðum þessa aðferð í dágóða stund, en ekkert gerðist. Veiðifélaginn sem er byrjaður aftur að hnýta flugur, dró fram úr pússi sínu heimahnýtt Héraeyra, reyndar ansi vel hnýtt og skipti út fyrir Peacock-inn. Ekki leið á löngu áður en smábleikja nokkur tók fluguna. Sú bleikja varð ekki langlíf, en magainnihaldið var grandskoðað. Kuðungar, kuðungar, örfáar örsmáar púpur og kuðungar var það sem þessi bleikja hafð nærst á að undanförnu.
Bobbinn
Ég dró því fram Bobbann sem ég hnýtti á fluguhnýtingarnámskeiði hjá Kolbeini fyrir tveimur (eða var það þremur) árum. Aldur þessarar flugu skiptir þar ekki máli, því hún stóð fyrir sínu og allt í einu var ég í vaðandi fiski. Með langan taum og hægan drátt, var greinilegt að bleikjan var alveg við botninn og vildi frekar Bobbann, en Peacock í þetta skiptið. Tók þarna nokkrar bleikjur á Bobbann, þangað til hann var farinn að trosna, en þá hætti hún að taka. Kannski hafði það ekkert með ástandið á Bobbanum að gera, kannski voru bara komnar aðrar aðstæður, en þegar veiðifélaginn dró fram Silfurskottu, varð hann óstöðvandi og þegar hún var ?búin? tók Gullskottan hans við með jafnvel betri árangri, að minnsta kosti ef miðað er við stærð fiskanna.
Það var farið að nálgast pásu hjá okkur og ég var kominn í algert óstuð. Kastaði ílla, og flækti grannan tauminn í öðru hverju kasti. Ákvað því að vinna þetta öðruvísi. Skipti alveg um taum en hélt mig þó við við þann þriggjapunda. Dró fram úr pússi mínu þurrflugu, Mosquito, nr. 18, sem ég hafði keypt af vinum mínum í Veiðivon daginn áður. Það var vindur, gára á vatninu, ég hafði ekki mikla trú á þessu, en ákvað samt að hnýta fluguna undir og spreyjaði hana lítillega. Ég hafði nefnilega séð fisk í yfirborðinu skammt frá mér. Ég kastaði stutt, með óstuðið í huga og dró ofur varlega inn, reyndi að líkja eftir flugu sem situr á yfirborðinu. Ekkert gerðist. Kasta aftur, stutt. Dreg rólega inn, en ekkert gerist. Lyfti upp stönginni og geri mig kláran til að velta línunni út aftur, og þá tekur hann. Ég sá það ekki, en takan var ákveðin, þó fiskurinn væri lítill. Náði honum í háfinn, en gaf honum líf eins og öllum hinum fiskunum um morguninn. Þetta var frábær endir á góðum morgni, maginn farinn að kalla á fyllingu og var farið eftir þeirri þörf, við veiðifélaginn héldum heim í veiðihús ánægðir með morguninn og komnir í þörf fyrir bæði mat og þurran og hlýjan stað.
Umræðurnar í hléinu urðu til þess að menn urðu sammála um að Silfurskotta væri rétta flugan. Það eintak sem notað hafði verið fyrr um daginn var búið, gjörsamlega uppurið, en til voru nokkur eintök af Örnu, flugu sem ég hnýtti fyrir veiðar á Arnarvatnsheiði og svipar til Silfurskottu. Ég skellti henni undir og fór til veiða. Tók tvær bleikjur í fyrstu tveimur köstunum. Var nú búinn að finna réttu fluguna og gaf því veiðifélaganum eina og öðrum veiðimanni, sem þarna var, aðra. Nú átti að byrja að moka, en allt í einu var það búið og þrátt fyrir ítrakaðar tilraunir með mörgum flugum, var ekkert að hafa. Svona er nú veiðin.
Stóra bleikjan
Þar sem lítið var að gerast í veiðiskap, héldum við í göngu með vatninu. Rannsóknarleiðangur, sem er nauðsynlegur á hverjum þeim veiðistað sem maður þekkir ekki, en vill kynnast; komast í samban við. Þetta er eins og með önnur sambönd, þau endast ekki nema rækt sé lögð við þau. Leiðangur þessi gaf ekki mikla veiði en þeim mun meiri upplýsingar, því á gönguför okkar rákumst við á net sem lagt hafði verið í vatnið. Netið lá í sandvík einni á grunnu vatni, þannig að hægt var að vaða með því í góðum vöðlum. Við gátum ekki sleppt því að skoða í netið og óðum því með því nokkurn spöl. Næst landi voru nokkrar bleikjur í þeirri stærð sem við höfðum verið að fá um morguninn, en eftir því sem utar dró stækkuðu fiskarnir og stærsti fiskurinn var gríðarstór bleikja. Líklega milli 6 og 8 pund að þyngd og mikil eftir því. Aðrar bleikjur, 3-5 pund voru einnig í netinu. Ekki mjög áhugaverður veiðiskapur að mínu mati, sérstaklega í vatni þar sem mikið er gert í stangaveiði. Hitt var þó áhugavert, að sjá hversu stórar bleikjur finnast í þessu fallega veiðivatni.
Showið
Nú er farið að nálgast kvöld og vind farið svolítið að lægja. Við veiðifélaginn ákveðum að ganga aftur að þeim stað sem hafði gefið okkur svo góða veiði um morguninn. Á leiðinni rukkaði veiðifélaginn mig um "show" sem ég átti að hafa lofað honum. Ég svaraði því engu en hann settist upp í svolítinn slakka við vatnið, kveikti sér í vindli og fylgdist með aðförum mínum. Minnugur þess sem gerst hafði um morguninn, þess að aðeins var rúm klukkustund var eftir af veiðitímanum, vitandi að að vindinn hafði lægt og hafandi ákaflega mikla löngun til að veiða fisk á þurrflugu, ákvað ég að læða Mosquito flugunni undir aftur. Nú var komin lygna með landinu en gára var aðeins utar. Ég kasta út í gáruna og vindurinn ásamt mínum hæga inndrætti ber línuna inn á lygnupollinn beint fyrir framan þar sem veiðifélaginn situr. Þá heyrist blúbb, veiðigyðjan, veiðifélaginn og ég sjálfur horfum á hvernig bleikjan tekur fluguna. Veiðimanninum brá þó svo í brún að örlítil bið varð á að ég reisti stöngina. Varð það til að fiskurinn festist á önglinum og náðist í háfinn að lokum.
Ekki var aftur snúið eftir þennan veiðiskap og var þurrflugan notuð óspart þessa klukkustund sem eftir lifði af veiðitímanum. Það var ótrúlegt að sjá bleikjurnar eltast við fluguna, koma uppundir hana, gæla við hana en oftast að snúa frá. Í þau skipti sem hún tók, var veiðimaðurinn sjálfur of fljótur, því bleikjurnar festust aðeins lauslega á önglinum. Ákaflega skemmtilegur tími samt, sennilega besta veiðiklukkustund þessa veiðidags.
Já þannig getur veiðiskapurinn verið. Hlíðarvatn tók svo sannarlega vel á móti nýjum gesti, gesti sem á oft eftir að ganga með bökkum vatnsins á næstu árum.
Höfundur Ólafur Magnússon