2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
16.2.2020

Borgarhöfðinginn, haförninn og Grettir - úr safni Flugur.is

Bíllinn hafði farið eins langt og hann komst. Við vorum á hávöxnum Hilux og leiðin hafði verið örlítið uppávið, innar í dalinn, Hítárárdalinn. Það var rétt miður  júlí og við trúðum á fræðin.  Sterkustu stórlaxarnir fara langt sinn fyrsta dag í ánni. Við vorum svo uppteknir af ánni að við heyrðum í henni niðin áður en við stöðvuðum bílinn.  

Nývaknaðir, rétt orðnir saddir eftir morgunverð í hinu stórbrotna veiðihúsi Jóhannesar á Borg, veiðihöfðingjans mikla. Þetta var okkar fyrsti morgunn í ánni og öldugjálfur liðinna ævintýra hafði vakið okkur um leið og við gengum inn fyrir musterið til að bíta aðeins og brenna.

Bræður
Veiðifélagi minn þennan morgun er mér mikið skyldur og mikill veiðimaður. Hann segir aldrei sama hlutinn tvisvar þegar komið er að árbakka, hann hefur alltaf svör, áin er aldrei eins. Ósjálfrátt og vel metið af minni hálfu byrjaði félaginn að tala um nýjan veiðistað. Hann er dimmraddaður og mörgu vanur þessi jaxl, rómur hans og orð hittu í mark.
Töluvert utar við bakkann er skilti sem ég nærri keyrði niður og segir Grettisbæli. Það passar við kortið og nafnið eitt réði því að við bræðurnir ákváðum að reyna hér fyrst. Félagi minn hafði veitt vel kvöldið áður. Ég átti að byrja. Einhenda, 9 ft. med flotlínu nr. 5, grönnum löngum taum og Rioja-rauðri Kröflu nr. 14 var valið.

Sá stóri
Grettisbæli er voldugur veiðistaður, langur straumharður hylur. Eftir nokkur köst ofar í hylnum færði ég mig neðar, stóð á þurru, sífellt kastandi og reyndi að fara varlega. Flugan risti yfirborðið um leið og hún settist. Við horfðum á hana og allt í einu, hvarf hún niður fyrir yfirborðið. Ég lyfti stönginni og fann og kallaði "ermeðann". Strax fyrstu sekúndur á eftir sagði ég "þetta er örugglega bleikja".  Að bragði sagði ég "en hún er stór" . Veiðifélaginn hafði ekki sagt orð þessar sekúndur.  Félagi minn sagði að þetta væri stórlax og ég leit framan í hann og vissi á augabragði að hann færi með rétt mál. Lauflétt yfirborðstaka, eins og vatnableikja og svo snöggt "blúms" en ekkert "splass".  Faðir okkar bræðra er veiðidýr, fæddist mitt á milli stríða. Allar hans sögur, allt hans yfirbragð, birtist mér í svipan. Ég leit upp til himins og trúði því ekki að þetta gæti hent mig.

Hann fór djúpt niður í harðasta strauminn og kom svo á fleygiferð upp og þurrkaði sig, þetta var, er og verður minn "Keiko". Breiður eins og 300 ára trjábolur, sterkur eins og Grettir,  byrjaði þessi höfðingi leikinn. Þennan morgun í Grettisbæli voru átök og vígvöllurinn spann nokkra kílómetra. Bræður þurftu að keðja sig saman, stórir og sterkir svo líf voru í veði til að fara yfir ána einu sinni og tvisvar, í kaf. Borgarhöfðinginn fór utan um stein utarlega í ánni.
Eftir tæpa klukkustund langt fyrir neðan Grettisbæli, stóðum við tveir og héldum  að sigurinn væri okkar. Hann var farinn að sýna þreytumerki, silfruð brynja Herkúlesar var farinn að skína. Við vorum nærri með á hann á þurru þegar hann ákvað að reyna sitt síðasta og fór aftur útí strauminn.
Við leyfðum honum þetta, hvorki með háf né ullarhanska.

Því miður
Tiiiiinnnnnggggg og  fröken Krafla flaug í lausu lofti yfir höfuð mér. Hæfileikalaus settist ég, vitandi að ég átti marga möguleika til stranda honum áður í bardaganum, en alltaf misheppnaðist. Ég settist niður skælbrosandi engu að síður og tyllti hattinum aðeins yfir á ennið svo ekki væri í beinu augnsambandi við veiðifélagann. Hann hljóp, svitnaði, synti og dreymdi um að sýna föður okkar þennan fisk, meðan á baráttunni stóð.  Hann vildi vera stoltur yfir mér og ég klikkaði, ég tók ekki nógu fast á þessum fisk, ég var ragur.

Við ókum í kvart klukkustund heim að musteri Jóhannesar, vakt var lokið. En önnur ævintýraleg beið.

Aftur
Allir nema ég fengu sér miðdegisverð. Ég fór rakleiðis í koju og sofnaði djúpum svefni, einkennilegum svefni. Þegar ég vaknaði, rétt fyrir seinni vakt þennan sama dag, átti ég aftur efra hluta árinnar. Flestir veiðimanna þessa ferðar höfðu ekki mikla trú á veiði ofarlega í dalnum, illa hafði gengið og lítið veiðst fyrir utan góða veiði bróður míns kvöldið áður.
Hann hafði sett í 5 nýrunna fiska og landað öllum, ég hafði einnig náð einum slíkum. Allt á flugu, veiðum ekki öðruvísi.
Nývaknaður, ók ég einn í leiðslu á miklum hraða upp dalinn. Eftir ca 15 mínútur var ég kominn á sama stað, Grettisbæli. Ég átti tíma milli 1600 og 1900 þarna uppí dal. Passaði mig á að keyra ekki á skiltið, hoppaði út úr bílnum og fór að setja saman. Sama afkvæmi Kristjáns Gíslasonar fór
undir, vínrauð Krafla nr. 14, þríkrækja. Ég er einn og finn fiðring, karma, ákveðnari hef ég aldrei verið. Á sama stað og áður, niður við miðjan hyl, kemur hæg yfirborðstaka og svo eitthvað stórt sem kafaði djúpt.

Í annað sinn þennan dag, þakklátari en nokkurn tímann áður, er mér litið til himins. Þar bar við haförn sem flaug í stóra hringi yfir innri hluta þessa dals, langt uppi og beint yfir mér. Laxinn stökk, tók rokur en fór ekki eins mikinn og Borgarhöfðinginn morguninn áður. Rétt rúmum 20 mínútum
seinna strandaði ég 13 punda bjartri og fallegri hrygnu, töluvert neðan við Grettisbæli. Ég gekk upp að bílnum og settist niður á grátt og þurrt grjótið með fiskinn. Ég tók mér tíma í góða veðrinu, blankalogn og steikjandi sól.
Ég klappaði þessari hrygnu og þakkaði öllum sem vildu hlusta á mig fyrir þessa unaðstund. Mest þakkaði ég stóra haferninum sem enn flaug í hringi og horfði einbeittur á silfraðan búkinn mér við hlið. Náttúran þarna uppfrá er stórfengleg. Hrikalegir klettar og fjöll, áin falleg, einmitt á
slíkum stað tengist maður kyrrðinni umvafinn ósnertri og ómengaðri náttúrunni. Það eru forréttindi að fæðast í fallegu landi sem Íslandi.

Og enn tekur
Á sama tíma og nafni minn lækkaði flugið, hungraður og villtur, ákvað ég að reyna aftur. Léttar græjur, sama fluga, nýr grannur taumur og aukið sjálftraust. Í þriðja sinn kom hæg yfirborðstaka. Hann stökk, ég sá strax hængsskoltinn, stórlax, 2 ára, stórar stjörnur á búk, bjartari og stærri en hún, alveg kengbrjálaður og nýrunninn og aftur lengst uppí dal, í
Grettisbæli !!  Þessi viðureign var æsispennandi. Hann var villtur, sterkur og trylltur. Ég trylltur eins og hann í leikrænni leiðslu. Tæpri klst. seinna og miklu neðar í ánni sigraði ég þennan sterka fisk. Aftur gekk ég upp með ánni, skítugur upp fyrir haus en nú haldandi utan um sporð 14 punda nýrunnins hængs. Haförnin var rétt 2-3 bílhæðir fyrir ofan hrygnuna þegar ég birtist óvænt fyrir honum. Þvílík sjón. Hann hækkaði flugið og líklega fór leitandi lítilla bleikja ofar með ánni, þessir laxar hefðu þó ekki verið of þungir
fyrir hann. Ég þakka nafna mínum, veiðifélaga og síðast en ekki síst félaga okkar bræðra, Ásgeiri Heiðari,  fyrir að bjóða okkur þessa daga í Hítará og um leið ógleymanlega veiðiferð. Bróðir minn kveikti í mér um morguninn,
nafni jós á eldinn, allan liðlangan eftirmiðdaginn.
Við veiddum 12 laxa þessa 2 daga, alla eftirminnilega og þrjár stórar og sterkar bleikjur. Sá stóri slapp. Þessi sonur Grettis var hrikalegur, þykkur og langur hængur með skolt eins og framenda á víkingaskipi.
Við bræður erum silungsveiðimenn, en eftir þennan Hítarártúr erum við einnig laxveiðimenn...

Veiðikveðja
Gunnar Örn Örlygsson
Malaga - España

Myndir Árni Friðleifsson og Jóhann Óli Hjálmarsson

12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði