2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
17.2.2020

Hugsa fiskar? (II) - úr safni Flugur.is

 Hér á vefnum er fróðleg grein frá slyngum veiðimanni.  Þar segir Geir Thorsteinsson frá atviki sem bendir sterklega til að fiskar geti hugsað. Hugsað skapandi, dregið ályktanir og brugðist við óorðnu og óséðu atviki út frá því sem þeir skynja á þeirri sömu stundu. Fiskurinn í sögunni tók á sig krók til að ná flugu! Sú saga bendir til vitsmunalífs sem byggir á öðru og meiru en þeirri einföldu tilveru sem við kennum við fiska: Að lifa við áreiti. 

Það væri fróðlegt að heyra sögur um slíkt. Að fiskar geti "reiknað út", til dæmis hvar flugan kemur næst?  Þar sem ég sit með Goða kött nýkominn inn úr kvöldmyrkrinu og búinn að nudda sér upp við kattamatarskápinn til að sníkja kvöldskatt rifjast upp atvik sem ég var búinn að gleyma...

...Ég var í Álku, sem er hliðará í Vatnsdalsá. Þar rétt framan við brúna voru fiskar, einn fremstur og stærstur. Þeir höfðu verið þar í nokkrar vikur og leiðsögumaðurinn sagt okkur að margir hefðu reynt en engum tekist að setja í. Þetta stóðst ég ekki. Fór niður brattann og skaut mér út á eyri til að kasta. Mjög var ég óvanur laxveiðiskap. En nú setti ég Blue Charm undir og kastaði nokkur köst. Veiðifélaginn fór upp á brú og fylgdist með löxunum. Ég áætlaði lengd að þeim fremsta og stærsta, og kastaði alla leið yfir að steinsnös við bakkann hinum meginn. Þar lét ég fluguna aðeins sökkva og slá svo þvert yfir ána. Laxinn var í henni miðri. Þetta var svona fimm metra ferðalag frá bakka að miðju, þar sem laxinn lá, og svo fór hún alveg yfir að bakkanum mín meginn. Sem sagt: Ég kastaði talsvert langt frá laxinum og lét fluguna koma á rennsli fyrir hann. Margir hefðu nú frekar kastað beint á hann, en ég vissi ekki betur.

Nokkur köst.
Nokkur köst fóru svona. Félaginn á brúnni sagði að ekkert líf væri með fiskunum. Það var eins og þeim kæmi ekki við, þetta með fluguna. Svo ég kastaði meira. Og þegar ég ákvað að ég væri búinn að fá nóg og ætlaði að gefast upp (það myndi ég ekki gera svo fljótt núna), kom kall frá brúnni. "Vá maður! Hann elti alveg yfir að bakkanum niður undan þér!"

Heilagur kúluhaus! Hvað átti ég nú að gera? Kasta sömu flugu? Ne, ja, ne.. ég vissi það ekki. Minnka? Það segir í fræðunum, en ég átti ekki minni Blue Charm. Skipta um flugu? Já, ég skipti um flugu. Og það gerði ég á 20 sekúndum. Kastaði rauðri Francis alveg út undir bakkann hinum meginn, rétt undir snösina þar sem hún átti að fara með straumi í fallegum bug fyrir laxinn sem ég hafði sé liggja í miðri ánni. Og flugan fór út. Um leið og hún lenti og fór í kaf var tekið í. Hann hafði beðið við snösina!

Hugsaði hann?
Meðan ég hafði íhugað næstu aðgerðir og skipt um flugu hafði laxinn fært sig aftur frá bakkanum mín meginn. En í stað þess að leggjast þar sem ég hafði séð hann, á bóli sínu í miðri ánni, hafði hann fært sig alveg yfir að hinum bakkanum. Tekið sér stöðu þar sem flugurnar höfðu lent áður. Og þar gómaði hann bráðina eins og hann hafði reiknað út að mögulegt yrði. En það hafði hann greinilega gert. Reiknað dæmið.

Skynugar skepnur
Í blaði birtist frétt um að að rottur sem látnar voru þræla og púla í einhverjum hlaupagrindum allan liðlangann daginn dreymdi það sama á nóttunni. Við mannfólk könnumst við svona vinnumartraðir á álagstímum. En rottur? Ætli geti ekki verið að skynlausar skepnurnar séu skynugri en við höldum? Ég gluggaði eitt sinn í bók um tilfinningalíf dýra. Og þar benti höfundur á þá merkilegu staðreynd að vísindamenn væru ekki mikið fyrir að rannsaka hugarheim dýra. "Þetta eru bara taugahnoð" segja þeir um hinar óæðri tegundir, og eiga við hugbúnaðinn. Ætli svo sé? Víst hefur kötturinn sem nú liggur við tær mér tilfinningar. Það hef ég svo oft séð og útsmoginn er hann stundum. En hvað með fiska? Heimskir fiskar? Hafa veiðimenn sögur af því að fiskar kunni að reikna, spá fyrir um óorðna hluti, "hugsa" framfyrir sig? Gaman væri að fá frekari heimildir um slíkt. Sendið raflínu á vefinn, flugur.is, netfangið er flugur@flugur.is

Höfundur Stefán J Hafstein

12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði