2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
21.2.2020

Frúin fær fyrsta flugulaxinn - úr safni Flugur.is

 Það var hringt í mig úr Flókadalnum föstudaginn 27. september og mér boðin stöng þar sem voru forföll voru boðuð af þeim veiðimönnum sem áttu þarna helgina. Á þessum tíma er eingöngu leyfð fluguveiði. Þótt að fyrivarinn væri skammur tók ég þessa stöng án þess að hugsa mig um. Síðan var hringt í konuna og henni sögð tíðindin. Í framhaldi af því ákváðum við að fara saman og taka krakkana með. Eftir vinnu var farið og keypt nesti og aðrar nauðsynjar. Það var lagt á stað um 19:30 var ekki laust að það væri spenningur í mér. Þegar ég var að greiða veiðileyfið fékk ég þær upplýsingar að fín veiði hafi verið í ánni eftir að ég hafði verið þarna 11-13 September. Hollið á undan hafði fengið 5 laxa á 3 stangir. Síðan var keyrt uppí hið nýja og glæsilega veiðihús við Flókuna. Guðrún kona mín hafði ekki en fengið flugulax og var ekki laust við að hún væri ansi spennt að kasta fyrir lónbúan.

Morguninn     

Klukkan  hringdi rúmlega 07:00. ég drattaðist framúr og kíkti á hitamælinn. Hann sýndi 7 gráður og það er nú ansi gott á þessum tíma svona seint í september. Það var snæddur morgunmatur  í rólegheitum. Um kl. 08:00 var lagt á stað og elsti sonur minn var með í för, hann er 11 ára og er að fá delluna, það hafði greinilega verið kalt um nóttina því fjöllin fyrir ofan Flókadal voru sveipuð snjókápu niðri miðja hlíðar.

Ég ákvað að byrja í Stóreyri. Eftir að hafa prufað Green Butt og Laxá Blá no.10 setti ég undir Black Brahan hnýtta á silungaöngul no.16. Eftir nokkur köst tók 4ja punda hrygna fluguna og var henni gefið líf. Ég var ekki búinn að kasta lengi þegar annar fiskur tók sömu fluguna. Eftir ansa snarpa baráttu var  4.5 punda hængi landað. Ég prufaði aðeins lengur en án árangurs. Þetta var ansi góð byrjun 2 laxar á rúmlega 40 mín.

Eftir að hafa prufað nokkra hylji lá leiðin í Neðsta Hyl.  Þegar ég kom að honum var fiskur að stökkva um allan hyl. Ég byrjaði með Black Brahan no.10 og fljótlega tók 5 punda hrygna fluguna og eftir skemmtilega baráttu kom hún í land, flugan losuð og laxinum gefið líf.

Fljótlega setti ég í annan fisk en hann fór af eftir skamma stund. Klukkan var rúmlega 12 og ég og elsti gaurinn minn orðnir ansi svangir of því var sjálfhætt.

Eftir hádegi dreif öll fjölskyldan sig út enda hitinn kominn uppí 12 gráður. Börnin í pollagallana og foreldarnir í veiðigallan. Laxinn var að stökkva víðsvegar um ánna og var að leika sér annað slagið með því að rífa í flugurnar sem bornar voru á borð fyrir hann.

Það var mikil loftfimleikasýning þegar við komum að Neðsta Hyl. Guðrún byrjaði með Black Brahan og fljótlega setti hún í sinn fyrsta flugulax en því miður fyrir hana þá missti hún hann eftir nokkra mínútna tog.

Stuttu seinna kastaði ég sömu flugunni, lax tók en fór af eftir ca. 3 mín. Síðan reyndum við ansi margar flugur en laxinn stökk og stökk og brosti að tilburðum okkar. Næst lá leiðin í Skógartún og þar sáum við lax stökkva stuttu eftir að hafa lagt jeppanum við hylinn. Ég ákvað að byrja með Rauða Frances no.10. Fiskur tók strax og eftir mikil stökk var 4ja punda hrygnu landað og henni gefið líf, hún var ekki mjög legin.

Áfram hélt ég að kasta og fljótlega er aftur tekið og ég finn strax að þetta er ágætis lax. Fyrst tekur hann roku niður hylinn og síðan fer hann upp allan hylinn. Svo byrjar hann að stökkva og rásar fram og til baka. Eftir ca. 10 mín landa ég 9 punda hæng.

 

Og nú byrjar fjörið!

Nú finnst konunni minni nóg komið og fer því útí hylinn með sömu flugu. Það einsog við manninn mælt það er fiskur á  og hann rífur sig lausan eftir nokkra mínútur. Ég hvet hana að kasta aftur og fljótlega er tekið. Það fer ekki milli mála að þarna er stórlax á ferðinni. Fyrst liggur hann í hylnum, hristir sig og skekur og lætur okkur vita að það er hann sem ræður ferðinni. Eftir skamma stund rýkur hann á stað niður ánna og við á eftir. Við hlaupum á eftir honum en fullgölluð er ansi erfitt að fylgja honum eftir. Eftir ca. 400 metra roku hægir hann á sér og byrjar að rykkja og toga og skyndilega er allt laust.

Konan búinn að setja í sína fyrstu 3 flugulaxa en missa þá alla. En hún er ánægð og við þökkum stórlaxinum fyrir slaginn og óskum honum góðs gengis og vonandi fáum við að kljást við erfingja hans seinna. Við verðum ekki meira var í Skógartúninu.

Við ákveðum að enda á Stóreyrinni og það er byrjað að skyggja. Ég set Svarta Frances no 10 undir. Fljótlega tekur fiskur  fluguna og hann djöflast þarna í nokkrar mín og síðan er 6 punda hæng landað. Konan veiðir síðan í nokkrar mín en hættir því yngsti fjölskyldumeðlimurinn þarf á mömmu sinni að halda.  Ég asnast til að setja í anna lax á Svarta Francesinn og þessi fiskur er gjörsamlega óður, nær meira segja að fara niður í hylinn fyrir neðan og þar er honum landað, annar 6 punda hængur en mikið sterkari. Þessir 2 hængar voru nákvæmlega eins en eins og ég hef oft lent í eru fiskarnir missterkir eins og þeir eru margir. Það er að verða ansi dimmt og ég set í þann þriðja en hann er illa tekinn og hristir sig fljótlega lausan.

 

Næsti dagur

Það var komin sunnudagsmorgun og klukkan var að verða átta og hitamælirinn sýndi 6 gráður. Eftir morgunmat var ég sendur út enda veðrið ansi leiðinlegt, suð-austan strekkingsvindur og ausandi rigning. Um klukkan 08:30 kom ég að Stóreyrinni og var laxinn greinilega kominn á stað því hann var að stökkva á nokkrum stöðum í hylnum. Eina sem hann gerði að þessu sinni var að rífa í fluguna

Mér var það kalt að ég setti upp vettlinga og fór í Gore Tex úlpuna. Ég kíkti á nokkra staði en þar var enginn áhugi að bregða á leik. Mér var hugsað til gærdagsins þegar við vorum í Skógartúni og ákvað að kíkja þar aftur við. Minnugur hvað Rauði Francesinn gerði var hann settur undir í stærð.10. Eftir nokkur köst tekur 4.8 punda hængur sem næst í land eftir þónokkuð tog. Ég hugsa með mér að ég sé að lenda aftur í veislu þarna. Ég kasta nokkrum sinnum en ekkert gerist.  Prufa 2 aðrar flugur en enginn er áhuginn. Þá verður mér hugsað til Efsta Hyls og um laxamergðina sem er þar.

Það er sama sagan þar 4-5 laxar á lofti í einu. En ég fæ enga töku þar. Einn lax er afrakstur morgunsins og þar sem ég veit að tengdaforeldrar mínir eru í heimsókn hjá okkur og með ekta íslenska kjötsúpu, hraða ég ferð minni í veiðihúsið.

 

Tengdó passa börnin

Tengdaforeldrar mínir eru það elskulegir að ætla að vera með börnin eftir hádegið. Ingvar á Múlastöðum ætlar að heimsækja þau í veiðihúsið. Eins og venjulega eru hinir og þessir hylir prufaðir en laxinn tekur ekki , rífur bara í flugurnar. Konan er enn með hugan við ævintýri gærdagsins í Skógartúninu og þangað er förinni heitið næst. Það þarf engan sérfræðing að sjá hvaða fluga átti að fara fyrst útí hylinn, nema hvað? Rauð Frances.

Það sem gerðist næst gerist ábyggilega einu sinni á veiðimannsævinni. Guðrún er búinn að kasta nokkrum sinnum þegar ég gala ?Taktu? og bang það tekur fiskur alveg um leið. Ég verð alveg steinhissa, jafnvel enþá meira hissa en laxinn þegar hann finnur að hann er fastur. Nú skal allt ganga upp, ég er meira stressaður en konan enda vil ég þenna lax í land. Ég er mest hissa hvað hún er róleg því hún segir bara ?ef ég missi hann þá bara missi ég hann?. Eftir nokkra mínútu bardaga liggur fyrsti flugulax konunar á þurru landi og það er mikil gleði. Þetta var rúmlega 3ja punda hængur sem laut í gras. Hún er ekki hætt, heldur veður aftur út.

 

Annar fiskur

Eftir að hafa kastað heyrist í henni: ?klaufakast! sérðu hvernig línan hlykkjast niður hylinn??  Áður en ég get svarað stríkkar á línuni og annar lax er kominn á. Hann stekkur og djöflast strikar upp og niður og á endanum springur hann á limminu.

Guðrún landar þarna sínum öðrum flugufiski og hann reynist vera 6 punda hængur.

Aðdragandinn að þessum tveimur tökum er þannig að þessir fiskar gleymast aldrei í minningunni. Af góðsemi sinni leyfir hún mér að taka við stönginni en ég verð ekki var. Okkur langar að kíkja aðeins í Neðsta Hyl áður en við förum að halda í áttina að veiðihúsinu. Ég fæ að byrja þar  með Rauða Frances og nánast um leið er tekið, ansi sprækur fiskur fær mig til að leika við sig, eins og margir fiskarnir á undan honum stekkur hann og strikar en er á endanum landað, 4.2 punda hængur. Guðrún tekur næsta  rennsli með sömu flugu. Við þurfum ekki að bíða lengi eftir töku og eftir skammastund er 4 punda hrygnu rennt í land, þegar flugan er laus úr henni fær hún frelsið.

Ekki gerist meira þarna og hættum við alveg í skýjunum. Við fengum 18 tökur og lönduðum 12 löxum, það er ekki hægt að biðja um betri endi á veiðisumrinu 2002

Höfundur Rögnvaldur Hallgrímsson
Birt í október 2002
Mynd við grein frá veida.is

12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði