Arthúr Bogason lenti í stórkostlegri laxasýningu í Norðurá sumarið 2002. Þar fékk hann að sjá ýmislegt sem reyndi á taugarnar, og kenndi lexíu:
Arthúr var að veiðum í Norðurá og þurfti að fara fyrr í bæinn en efni stóðu til, en eigi að síður dreif hann sig upp með á í bítið og vildi kanna slóðir. Þar sem áin rennur ekki langt frá þjóðveginum átti hann veiðistað. Veðrið var ekki heppilegt: blæjalogn, ekki gára á ánni þar sem hún liðaðist róleg meðfram bökkum rétt hjá þjóðveginum. Og bjart yfir. Hann hægði á sér og skyggndi staðinn frá bílnum í hvelli áður en hann ók niður að bakka: jú, þrír laxar lágu þarna. ,,Best að reyna? hugsaði kappinn en taldi aðstæður mjög mótdrægar laxveiði.
Ekki líklegt til stórræða
Þetta var líka mjög óárennilegt. Spegill á lognkyrri ánni, varla veiðandi í svona glærri birtu þegar minnsti dvergur yrði að trölli í augum laxa, hvað þá hinn myndarlegi stjórnarmaður í SVFR. Þegar veiðimaðurinn lét sig hafa það að rölta rólega niður að árbakkanum sá hann ekki þessa þrjá laxa sem áður höfðu blasað við. Ónei. Risastór torfa tók sig til og lónaði frá og yfir að hinum bakkanum. Hafði verið gjörsamlega ósýnileg þar til nú að þeir færðu sig yfir. Þar röðuðu þeir sér í fallega fylkingu. ,,Fimmtíu!? í það minnsta segir Arthúr.
Þarna stóð hann og horfðist í augu við 50 laxa. ,,Þeir voru svona fjóra metra frá mér og sáu mig væntanlega jafn vel og ég þá?.
Það var engu að tapa.
,,Ég stóð lengi kyrr og lét þá venjast mér?. Svo fór veiðimaðurinn ofurvarlega í flugnaboxið og valdi flugu, dró varlega að sér andann og lét agnið detta fyrir fremsta laxinn. Og óróinn í hópnum sýndi að eitthvað kom við taugarnar!
En ekki tók neinn.
Svona fór flugurnar hver á fætur annarri. Laxá Blá, Dodda rauð, og svo Steinríkur ,, og þá fóru þeir að elta!?. Allt í einu tók einn sig úr torfunni, jafnvel fiskur sem lá neðarlega og fór á fleygiferð í átt að flugunni. ,,Það var ótrúlegt. Þótt ég sæi nákvæmlega þegar þeir óðu af stað kom engin rák eða gára á vatnsyfirborðinu. Allt var kyrrt. Vatnið var glært og auðvelt að að sjá fiskana koma æðandi, eða velta sér, en ekkert gerðist, ekki tóku þeir?. Arthúr segist nú vita að oft sé meira að gerst kringum fluguna en veiðimennn ætli. Jafnvel á þessu grunna vatni komu engin merki þess að fiskar væru í ham þar undir. Nema af því að hann sá þá svo vel.
Þófið
Þar kom svo loks að veiðimanninum leiddist þófið. Enginn tók þrátt fyrir taugatriting og skjálfta í uggum með vissu millibili þegar rétta flugan datt niður. Svo hann tók túpu. Rauða frances túpu og lét falla niður fyrir framan laxafjöldann. ,,Þá stirðnuðu þeir alveg?. Voru alveg grafkyrrir. Túpan lak niður meðfram torfunni og fiskarnir urðu að steini. Gjörsamlega. Veiðimaðurinn taldi að nú væri fullreynt og eins gott að hafa sig á brott. Enda liðnir meira en tveir tímar af þessu tilraunum.
Hugdetta
En þá kom hugdetta! Hann var með splunkunýjar gárutúpur í boxinu, hafði aðeins nýlega komist í kynni við þessa gripi og var nú sleginn fagnaðarerindi. Auðvitað! Gáran frá smáflugumyndinni myndi taka þá!
Í snarhasti var sett undir gárutúpa á flotlínuna og hún send út. ,,Ég segi það satt? segir hinn sagnaglaði veiðimaður. ,,Rákin sem kom á vatnið undan gárutúpunni fór ekki lengra en þetta?. Og nú sýnir hann um það bil lengdina á framhandlegg sínum.
Og hvað þá? Spyrjandinn er með öndina í hálsinum því nú er bara spurningin hversu marga hann tók.
,,Þeir gjörsamlega trylltust?.
Já!!!!????
,,Laxarnir urðu alveg brjálaðir.? Ekki í fluguna, heldur tvístraðist torfan í ótrúlegu fáti og látum, þeir strikuðu hver um annan þveran og voru horfnir. Gjörsamlega horfnir. ,,Ekki einn eftir? segir veiðimaðurinn sem kom þessu fáti af stað.
Ekki einn eftir.
En áhrifaríkt var það.