Það eitt að telja sig vera orðinn mikinn veiðimann er stór áfangi í sjálfsímynd hvers stangveiðimanns, en að sama skapi er fallið niður á gólf meðalmennskunnar hátt og alltaf óþægilega nærri og getur verið bæði hart og sársaukafullt, sem maður lendir óhjákvæmilega í þegar hrokinn er orðinn mikill.
Ég hef undanfarin ár talið mig vera orðinn þokkalega góðan og á köflun bara verulega öflugan, og hef svo sem ekkert verið að draga neina dulu yfir það heldur þegar ég hef rekist á eða verið með öðrum ,,lakari? veiðimönnum við vötnin. Ég hef að óspurðu máli dregið upp hverja stórfiskasöguna á fætur annari, tekið dæmi um erfiðar aðstæður þar sem aðeins kunnátta og snild mín hefur ráðið úrslitum, eða aflinn orðið svo mikill að hugsanlega megi rekja hluta minna hnéskaða til þessa og hinns mikla fisk burðar sem ég hef þurft að axla til þessa.
Ég hef að sjálfsögðu einnig komið mér upp mjög góðum útbúnaði, svo að aðrir ,,strandabúar?, þ.e.a.s aðrir stangveiðimenn sjái að þar fari mikill og góður fluguveiðimaður sem kann skil á því flestu, ég hef keypt mér nýjar, dýrar stangir sem eru hverri annari léttari. Ég á að sjálfsögðu einnig stangir sem eru ,,minna góðar? og eru hugsaðar fyrir þá mörgu sem vilja læra hjá meistaranum og á stundum þegar þannig liggur á mér get ég dregið fram úr pússi mínu stöng sem er svo nett og fíngerð að mér líður eins og tónlistastjóra eða móður með nýborinn frumburðinn þegar ég handleik hana.
Ég geng um á meðal manna í ,,rándýrum? vöðlum svo ég geti auðveldlega flutt mig fljótt og örugglega á milli veiðistaða, þar sem mín er mest þörf hverju sinni, með góðar ráðleggingar eða aðrar leiðbeiningar sem geta komið minna vönum veiðimönnum að góðum notum. Ég hef einnig lagt þungu og dýru veiði töskunni minni, sem ástkær konan mín gaf mér á síðasta stórafmæli, sem ég reyndar valdi sjálfur eftir mikkla leit, og fengið mér góðan og handhægan bakpoka þar sem ég geymi öll mín nauðsynlegustu verkfæri, línur í kílómetravís, gular, grænar, bláar, rauðar, hægsökkvandi, hraðsökkvandi, fljótandi, með glærum framenda, með þyngdum framenda, með skothaus og öðrum eiginleikum og ,,fítusum? sem eru mikilvægir þegar virkilegrar kunnáttu er krafist og aðstæður allar eru hinar erfiðustu.
Fluguboxin hef ég einnig í röðum, nokkur undir þyngdar púpur, önnur undir klassískar flugur, önnur undir þurrflugur osfr.
Ég hef lengi talið og reyndar vitað að fáir væru mér fremri eða með úthugsaðri útbúnað, enda ég einn af snillingunum á sviði silungsveiði......taldi ég. En fallið var nærri en ég hafði órað fyrir.
Ég hafði nokkrum dögum áður en endanlegt niðurlag mitt varð að raunveruleika og sem ég ætla að skýra frá hér á eftir, lent í nokkuð neyðanlegri aðstæðu sem ég taldi að væri nú bara tímabundin óheppni, eða eins og ég leit á það þá, tímabundin heppni hins aðilans.
Ég verð þó að segja mér til málsbóta að þetta vorið hef ég ekki farið langt, engir langir veiðitúrar eða útilegur enn sem komið er, aðeins Elliðavatn og Vífilstaðavatn, vinnu verður maður því miður að stunda, að sjálfsögðu hef ég velt því fyrir mér hvernig hægt væri að fóðra það að vera eingöngu í veiði, en ekki fundið enn neina haldbæra lausn sem er samþykkt heima fyrir.
Að mínu mati hefur þetta verið ,,kalt vor og lítið um fisk?. Þó að ég hafi náð sjö eða átta greyum úr Elliðavatni 1. maí og sem virtist lofa góðri byrjun þá hefur brautinn verið niður á við þrátt fyrir aukið antal veiðitíma og eitt og eitt skot inn á milli. En upphafið á endanum var svo sem ekkert sem mér óraði fyrir, enda hugsanlega snúið við þá eins og ég reyndar var að hugsa um áður en ég byrjaði. Þennan umtalaða svarta mánudag, eins og ég kalla hann núna í mínum dagbókarblöðum var ég staddur upp við Vífilstaðavatn í lánsvöðlum sem mjög viðkunnanlegur veiðimaður hafði lánað mér, eftir að ég hafði brennt gat á nýju Simms vöðlurna mína með glóð frá pípunni minni, þar sem ég hafði setið og horfði spekingslega út yfir vatnið og lagði á ráðin varðandi línur og flugur.
En þarna stóðum við samann þennan daginn, tveir ókunnir veiðimenn, ég í lánsvöðlum frá honum og fengum báðir fisk um líkt leyti. Ég er reyndar enn sannfærður um að mín bleikja hafi verið murta sem stungið hafi af frá Ora í Kópavoginum og falið sig í vatninu, eða dulbúin sardína sem hafi stungið af úr sardínudós sem hafi verið hans heimili á meðal jafningja. Félagi minn fékk þokkalega bleikju. Ég hélt vongóður áfram að berja vatnið en sá út undan mér að hann fékk fljótlega fleirri vænar bleikjur, en ég varð ekki var svo ég spurði hann með uppgerðu áhugaleysi hvað hann væri með undir. ,,Birtu? sagði hann, ,,hún er svo góð í sólskini í Vifilstaðarvatni?, en ég hélt mínu striki og beytti Brassa eða Engjaflugunni sem hafa gefist mér oft vel í þessu vatni.
Hann hélt áfram að drag inn bolta bleikjur þennan daginn á bæði Birtu og Vífu og voru hvor annari vænni og þá á öngul númer 14-16. Ég sá að honum fannst aðstæðan vera orðin vandræðaleg svo að hann bauðst til að gefa mér eitt eintak af Birtu sem ég sagði að væri áhugavert þar sem ég ætti bara eina í stærð 12 og hefði hnýtt fyrir mörgum árum síðan, sem reyndist nú samt vera satt. Enn allt kom fyrir ekki ég fekk ekki meira þann daginn, en hvort hann hafi þurft að fara tvær ferðir með fiskinn í bílinn man ég ekki lengur en mikið var það sem hann fékk.
Rothöggið kom síðan nokkrum dögum seinna, þegar ég fékk stórabróður með mér upp að sama vatni og taldi ég það nokkuð öruggt að hafa hann með, því að það sveið enn nokkuð í sárinn eftir fyrri veiðiferð í Vífilstaðavatn. Stórbróðir er nefnilega nýbyrjandi í fluguveiði, og kann lítt með þessar græjur að fara, gamall togarajaxl sem aldrei fór í veiði nema vel járnaður svo að það hringlaði í honum eins og miðalda riddari í hryngabrynju, netabreiðan var iðulega einhverstaðar með í farteskinu, svona til öryggis, og lái ég honum það ekkert, hann fékk sjaldan nokkuð.
Við byrjuðum að veiða fljótlega upp úr sjö um morguninn eða um það leyti sem toppflugan fór á stjá, en á þessum tíma er það sjaldan fyrr, en vatnið fer að hlýna aðeins eftir nóttina að fiskurinn fer að sýna sig að einhverju ráði. Áður en við héldum út í vatnið fór ég nú aðeins yfir fluguboxið hjá stórabróðir svona til öryggis, því ég vissi að hann átti ekki margar flugur.
Það reyndist rétt og sá ég að hann hafði svo til eingöngu flugur sem hefðu sómt sér vel í hvaða sjóstangveiðikeppni sem er þannig að ég lét hann fá ljósgráan Moboto númer 14, langan sem ég hafði fléttað eftir uppskrift frá hinni norsku Thorild hjá Mustard og sá eini sem ég átti.
Fljótlega drógum við báðir sinn fiskinn hvor, ég á Vífu sem ég því miður missti fljótlega er boltableikja tók hana, og komu þá í ljós alvarlegir ?framleiðslugallar? í girnistaumnum, alveg niður við fluguna, en stóri bróðir týndi inn einn og einn silunginn með löngum hléum, svo ég spurði hann hvað hann hefði undir.
Hann vissi það ekki alveg enda ekki innvígður í leyndardóma flugunafna svo ég kíkti á þetta hjá honum og sá að hann hafði einhverja flugu sem maður getur keypt í pakka ,,made in China? tíu stykki saman og hæfa best upp við Reynisvatn strax eftir að búið er að sleppa í vatnið.
?Hnýttu undir þessa sem ég lét þig fá? sagði ég við hann, ?og dragðu ekki eins og á togara, við þurfum ekki að halda uppi þriggja mílna ferð hérna, bara löturhægt svo að þú vitir varla af því að þú sért að draga, heldur bara að þetta sé kulda skjalftinn?. Einnig skipti ég um taum hjá honum og lét hann fá 11 feta fljótandi taum sem ég hafði ekki hugsað mér að nota sjálfur. Mér finnst nefnilega betra að hnýta þá sjálfur.
Eftir allar þessar tilfæringar lét hann það fara, eins og hann kallar það..........og viti menn ég get næstum svarið fyrir það að flugan var ekki komin í vatnið áður en hún var tekin. ?Heyrðu þetta er bara eins og það var á karfanum við Grænland, varla komið í botn þegar maður þarf að hífa aftur? sagði hann glaðbeittur.
Hunda heppni hugsaði ég mér og hélt áfram að leyta eftir heppilegum púpum í mínu fluguboxum en allt kom fyrir ekki, minn matseðill var ekki freistandi. Þetta var eins og að bjóða gúllas á fiskiveitingastað, engin sýndi mér áhuga. En hann, jú ég held ekki að stöngin hafir rést hjá honum nema rétt á meðan han losaði bleikjurnar af króknum hjá sér.
Þar sem hann hafði nú ekki gert ráð fyrir að fá neitt þennan daginn var hann ekki heldur með neinn fiskipoka með sér, þannig að ég tók mér stöðu í námund við hann til að taka á móti fiskinum frá honum svona til að setja hann í pokann minn. Frábært hugsðai ég pirraður nú er maður orðin svona nokkurs konar verksmiðjuskip sem heldur sig í námunda við veiðiskipin þegar þau þurfa að losa aflan og sleppi við að fara í land, en það hafði svo sem ekki háð honum heldur neitt, það lá við að það væri bitið á hjá honum þegar hann var kominn upp í móa til að pissa til og með.
En eitt skiptið þegar hann hafði losað eina bolta bleikjuna af króknum hjá sér og kastað flugunni kæruleysislega frá sér svo að hún flæktist ekki í honum í vindinum, svona eins og maður gerir alltaf áður en allt er gert klárt til að kasta aftur, var hún á hjá honum. En þá var mér nóg boðið, ég sagð við hann að ég þyrfti nauðsynilega að fara heim núna ég hafði gleymt því að ég ætlaði að fara í búð með konunni og klukkan væri orðin alltof mikið, hann bara kinkaði kolli glottandi, vissi svo sem að ég fór eiginlega aldrei í búðir með konunni og að þennan daginn voru allar búðir hvort eð er lokaðar.
Ég dreif mig í land og pakkaði saman í snatri, hafði lánað honum fiskipokann minn sem nú þegar var orðin all kýldur. Á leiðinn í bílinn lét ég sem ég heyrði ekki köllin í honum þar sem hann stóð útí vatni og hrópaði upp yfir sig í hvert skipti sem hann fékk fisk, bara svona til að láta mig vita að hann væri búni að fá einn og annan og annan............ kannski golf gæti verið áhugaverð dægrastytting hugsaði ég gramur á leiðinni heim.
Höfundur Ólafur Guðmundsson Birt júli 2003