Ég átti við annan mann Geirastaðaveiðar að kveldi 22. júlí s.l. Allan þann dag var hiti óbærilegur og mývargurinn var veiðimönnum erfiður efst í Laxá. Við fórum seint af stað þar sem við sáum enga ástæðu til þess að flýta okkur til veiða í hitanum. Þegar við vorum komnir yfir stífluna ofan við Skurðinn tók ég eftir því að birtan var eitthvað skrítin. Ég sagði óreyndum veiðifélaga mínum til við veiðar í Skurðinum. Ég örfaði hann með frásögum af sætabrauðsdrengjum á stærð við sauðfé sem borða andarunga, mýs og sjálfsagt lítil börn, en þar sem af við værum ekki með neitt slíkt í boxunum okkar, yrði hann að láta sér nægja straumflugur eða púpur.
Fyrr og nú...
Ég hélt áfram eftir slóðanum og lagði bílnum við stæðið hjá Sprengiflóa. Ég ætlaði mér að veiða Hróið en það er gælunafnið á veiðistaðnum Brunnhellishró neðan við flóann. Reyndar er þessi staður stundum kenndur við Hólsnef í Geirastaðaveiðum en fáir veiðmenn nota það nafn. Ég hef alltaf haldið upp á þennan stað enda fékk ég þar minn fyrsta fisk í Laxá sennilega 1983 eða 1984. Þá bjó ég ásamt föður mínum á Akureyri og á hverju einasta föstudagskvöldi allt sumarið sagði hann ?á morgun tökum við til? Það var með fáum undantekningum það sumar að ég vaknaði á laugardagsmorgnum við að faðir minn lét út úr sér: ?Æi, sláum þessu upp í kæruleysi og förum að veiða? Í þá daga gátum við vandræðalaust hringt með nokkurra klukkustunda fyrirvara upp í Mývatnssveit um helgar og fengið báðar stangirnar á Geirastöðum! Það hljómar eins og lygasaga þessi árin þegar panta þarf leyfi í Laxá árinu áður en haldið er til veiða. Til eru unglingspiltar með veiðidellu sem alast upp við verri skilyrði en undirritaður gerði.
Þegar ég var að setja fimmuna saman við bílinn byrjaði að rigna eins og hellt væri úr fötu. Ég hafði í hléinu hnýtt nokkrar vel þungar Pheasant tail, sem ég ætlaði mér að nota til andstreymisveiða í Hróinu. Ég dundaði mér við að kasta upp í strauminn þegar ég var að vaða niður með aðalstrengnum en gætti þess að halda mig nógu langt frá honum, til þess að hrekja ekki á undan mér allt líf. Hér virði ég sjaldan reglu um miðlínu
nema að veiðimenn í Geldingey óski þess að veiða strenginn. Það eru hins vegar ekki margir sem veiða staðinn þaðan, þar sem straumfluguveiðar eru þar erfiðar vegna þess að hár bakkinn er strangur við bakkastið. Þegar ég var farinn að nálgast útfallið mjakaði ég mér í áttina að eyjunni og
byrjaði að veiða fyrir alvöru. Það gekk lítið til að byrja með og ég var orðinn vel blautur í úrhellinu. Það var undarleg blanda af mývargi, kríu og regndropum í loftinu. Og þessi dularfulla birta.
Og svo er tekið...
Eftir að hafa marg kastað á sama staðinn þar sem ég þóttist viss um að lægi fiskur stoppaði loksins tökuvarinn. Ég náði að bregða við og hann
var á. Takan var löturhæg og fyrstu mínúturnar hafði ég ekki hugmynd um hvað væri á færinu. Þetta var allt hálf skrítið og mér gekk ekkert að
koma fiskinum af stað þrátt fyrir nokkuð reipitog. Eftir drykklanga stund lyftir hann sér loks af botninum og leggst á hliðina. Ég sé aðeins glitta
í hann en ég átta mig á að þetta er langur drjóli. Ég fer að spyrja sjálfan mig að því hvort að mér hafi ,,loksins auðnast? að setja í sláp, svo rólegur var hann. Það rifjuðust upp fyrir mér ógeðfeldar sögur frá föður mínum af slápaveiðum við Hrafnstaðaey. Sá ,,fiskur? þurfti reyndar
ekki að kemba hærurnar þegar hann náðist á land.
Þegar fiskurinn kemur upp í annað sinn og leggst aftur á hliðina sé ég að hér er enginn slápur á ferð. Hann er vel í holdum og ég hugsa með mér
,,þessi hlýtur að vera 8 pund?.
Hjartað byrjar að slá örar því að allan þennan tíma hefur safnast slý á línuna og það er komið brot í 6 punda tauminn minn. Fiskurinn lætur sig sakka í átt að útfallinu og í því tilviki þarf maður ekkert að velta fyrir sér hvað á að gera. Halda í hann! Ef hann fer fram af þá er hann farinn. Mér var ljóst að ég þurfti að koma undir hann háfnum fljótt ef ég ætlaði að ná honum. Hann var svo sem ekkert að gera mér erfitt fyrir og hringsólar í kringum mig salla rólegur en alltaf rétt utan færis. Svona gekk þetta lengi vel. Loksins næ ég honum í strauminn fyrir ofan mig og hugsa mér gott til glóðarinnar. Ég hrósaði sjálfum mér fyrir hversu góður veiðimaður ég væri orðinn. Ég var búinn að greina stöðuna rétt allan tímann og átti ekkert eftir nema að koma á hann pundaranum. Ég náði að slaka honum niður strauminn í áttina til mín og smeygði háfnum hratt undir hann frá sporði fram að haus. Hann var það stór að ég þurfti að hitta akkúrat á það ef ég ætlaði að koma honum í vel stóran háfinn. Og ég hitti á það. Ég náði meira að segja að koma fremsta hluta spangarinnar fram fyrir snúðinn á honum.
Ég átti ekkert eftir annað en að vippa háfnum upp með úlnliðnum þegar það gerist. Sprenging! Hann klöngraðist ekki út úr háfnum. Hann vóg ekki
salt á brúninni á háfnum eins og stundum gerist með væna fiska. Þegar hann kenndi netsins stökk hann hreinlega leiftur snöggt, hátt upp úr háfnum og kom hvergi við hann þegar hann stakk sér ofan í vatnið aftur.
Ég þarf ekki að taka fram að það lak út úr honum 30 sekúndum seinna þegar hann byrjaði að láta sig sakka aftur í áttina að útfallinu, salla rólegur.
Ég þarf heldur ekki að taka það fram að hann var ekkert að flýta sér í burtu þegar hann losnaði. Hann kíkti á mig og glotti áður en hann hélt stakk sér ofan í djúpið.
Ég sé sjaldan eftir fiski því takan er mér mikilvægust. Hún er minn sigur. Restin skiptir mig minna máli. En í tregfiskeríi eins og þetta kvöld náði ég að svekkja mig á þessu. Ég horfði til himins og var í þann mund að láta mig falla á hné niður eins og knattspyrnumaður sem brennir af víti, þegar ég átta mig á því að ég stóð í vatni sem náði mér upp í mitti.
Ég hugsaði með mér að það væri engin ástæða til þess að halda áfram veiðum. Það gæti ekkert gerst það sem eftir lifði kvölds sem tæki þessari
lífsreynslu fram. Ég jafnaði mig á þessu á tveimur mínútum og að þeim liðnum flissaði ég eins og unglingsstúlka á sjéns. Ég áttaði mig á því að hann hafði í raun og veru leikið á mig. Hann fékk mig til þess að trúa því að ég hefði stjórn á öllu og réðist svo til atlögu þegar ég var orðinn
öruggur með mig. ?Den kloge narrer den mindre kloge? eins og danir segja.
Frásögninni þarf ekkert endilega að ljúka hér því enn voru eftir 2 tímar af vaktinni og birtan var eitthvað svo undarleg. Hún gerði mig hálf
smeykan.
Um leið og fiskurinn slapp komu fyrstu þrumurnar inn á Mývatnsöræfin. Eftir langdvalir erlendis var það svo sem ekkert sem hræddi mig fyrr en að
þeim fóru að fylgja eldingar, sem færðust hægt og bítandi norður á bóginn. Það rifjuðust upp fyrir mér viðvörunarmiðar á bandarískum veiðistöngum um að maður ætti að varast rafmagnslínur og þrumuveður þegar maður væri á veiðum. Sjálfsagt voru miðarnir ætlaðir til þess að forða framleiðandanum frá lögsóknum ef að líkindafræðin myndi sigra einhverja óheilla krákuna, en þarna stóð ég í ,,rafleiðandi? hellidembu með ,,loftnet? í hægri hendi.
Ég hugleiddi málið eitt andartak og áttaði mig á því að ef ég gæti valið mér stað til þess að eyða síðustu augnablikum ævi minnar, þá kæmi Brunnhellishró í Laxá sterklega til greina. Veiðidella er engu lík og ég hélt áfram að veiða.
Hvort það gerðist fleira markvert þetta kvöld? Jú, það hætti að rigna og ég fékk einn fisk mjög neðarlega í Hróinu. Hann var einhverjum kílóum
léttari en sá sem ég missti. En svo tók krían hjá mér tökuvarann og jafn ?góður? veiðimaður og ég er orðinn þá brá ég að sjálfsögðu við!
Það var eitthvað undarlegt við birtuna þetta kvöld.
Kveðja,
Benedikt Helgason.
Myndir Birkir Örn og Einar Sveinsson