Við áttum að byrja veiði eftir hádegi, og þar sem við búum allir í Reykjavík, lögðum við snemma af stað. Það voru því þreyttir en spenntir ferðalangar sem stigu út úr bílnum á planinu fyrir framan veiðihúsið Hof, góðviðrisdag einn þetta sumar.
Það þurfti reyndar ekki nema rétt að opna bílhurðina til þess að uppgötva að í þetta skiptið hittum við á óvenju kröftuga mývargsgöngu. Ámi, sem reyndar er líffræðimenntaður, brosti bara og sagði karlmannlega að þetta væri allt í lagi, það væri okkur heiður að leggja okkar af mörkum til vargsins, og þannig til viðhalds urriðastofninum í ánni. Stebbi þagði hins vegar og horfði á mig undarlegum augum.
Hólmfríður tók vel á móti okkur að vanda, og áttum við tvær stangir á Arnarvatni, og eina á Hamri. Það varð úr að ég fór með Áma á Arnarvatn og Stebbi fór niður á Hamar.
Þar sem Ámi hafði aldrei veitt í ánni fyrr, ákvað ég að ég skildi reyna að sýna honum allt svæðið. Við byrjuðum því á að aka upp að brúnum yfir í Geldingey, og ganga þaðan upp að ósum Krákár.
Á göngunni varð ég strax var við það að hitinn og flugnanetið áttu mjög illa við Áma. Ég vissi svo sem að gangan væri honum ekki auðveld, en þetta með flugnanetið kom mér á óvart. Hitinn og þykkt flugnagerið virtust gera það að verkum að hann fékk hálfgerða köfnunartilfinningu undir netinu.. Hann gerði því tilraun til þess að vera án þess, en setti það á sig fljótlega aftur, eftir að hafa skyrpt út úr sér ótölulegum fjölda flugna.
Við byrjuðum að kasta í hólmanum beint á mót Garnarhólmanum. Þessi hólmi er þéttvaxinn af mannhæðaháum víðiplöntum, og þekki ég af bituri reynslu að nauðsynlegt er að vanda þar bakkastið sem allra mest.
Þrátt fyrir viðvaranir mínar missti Ámi línuna strax niður í bakkastinu, og eyddi drjúgum tíma í að losa hana úr runnunum. Innan úr þykkninu heyrði ég stunur og blót þegar hann datt um einhverjar rótahnyðjur, og reyndi að brölta á fætur aftur. Þegar hann svo loksins birtist, var hann úfinn og flugnanetið rifið.
Svo fór að fyrsta hálftíman þurfti hann aftur og aftur að ná upp línunni úr víðinum. Ég sá að staðurinn hentaði honum ekki og ákvað að færa mig niður að brú, þar sem auðveldara var fyrir hann að kasta.
Ámi var orðinn móður eftir glímuna við víðiplönturnar, og gerði vaxtalag hans honum ekki auðvelt fyrir. Ámi er mikill matmaður, býr einn, en eldar fyrir tvo til þrjá í hvert mál. Þetta borðar hann síðan allt sjálfur.
Á leiðinni niður að brúm gat ég ekki betur séð en að flugan hefði strax skilið eftir sig ummerki á andliti Áma, en hann vildi ekkert um það ræða.
Við áttum góða dagstund fyrir neðan brýrnar. Við veiddum svæðið niður að brotinu fyrir ofan Kleifina, og vorum mikið í fiski. Það var komið annað og betra hljóð í Áma, og mér fannst hlutirnir horfa til betri vegar fyrir hann.
Komum, sagði ég, förum í Steinsrassinn. Ámi hváði og spurði hvort þetta væri blótsyrði hér í sveitinni. Ég útskýrði fyrir honum að það væri veiðistaður sem héti þessu nafni, og á þessum slóðum spöruðu menn ekki breiðu spjótin þegar um nafngiftir veiðistaða væri að ræða.
Við ókum sem leið lá niður að bílastæðinu þar sem gömlu brýrnar stóðu, og gengum upp í Steinsrass. Enn og aftur, dásamlegt veður, og mikið líf. En flugan; maður lifandi, ég held ég hafi aldrei lent í öðru eins. Og nú var farið að sjást á andlitinu á Áma. Ennið virtist hafa vaxið fram um nokkra sentimetra, og dökk veiðigleraugun leyndu orðið illa bólgum á gagnaugum og við kinnbein.
Við ákváðum að færa okkur niður í Þuríðarflóa. Ámi hafði fjárfest í nýjum gúmmívöðlum fyrir ferðina, sem þóttu merkileg tæki á þessum tíma, og þreyttist ekki á að upplýsa mig um hversu léttar og meðfærilegar þær væru. Girðing liggur að ánni fyrir neðan Steinsrassinn. Á henni er hlið sem gengið er í gegnum þegar farið er niður með ánni. Ámi var nokkrum skrefum á eftir mér í gegnum hliðið. Ég heyrði torkennilegt hljóð, og leit við. Ámi stóð í hliðinu og horfði skelfdur niður á sig. Hann hafði krækt vöðlunum í nagla í hliðinu, og rifið hægri skálmina af vöðlunum í heilu lagi. Ámi stóð þarna og kom ekki upp neinu orði. Hann horfði til skiptis á naglan, mig, og skálmina sem lá í grasinu við hlið hans. Stollt veiðiferðarinnar ónýtt. Æpandi þögn í góða stund. Karlmenn gráta ekki, en hefði hann verið einn, tel ég víst að það hefðu fallið nokkur tár.
Til allrar lukku hafð Ámi tekið gömlu vöðlurnar sínar með líka. Hann var því fljótlega klár í Þuríðarflóann. Ég útskýrði fyrir honum hvernig botninn í flóanum væri og hvar óhætt væri að vaða. Með það hélt ég efst út í flóann, byrjaði að kasta, og færði mig hægt niðureftir. Áma dvaldi óvenju lengi á bakkanum við að hnýta nýja flugu á tauminn. Ég varð var við að hann kom út í flóann fyrir ofan mig, en gaf honum ekki frekari gaum þar sem ég var upptekinn við að leysa flækju sem komin var á tauminn hjá mér.
Skyndileg hróp og hávaði urðu til þess að ég leit upp. Á nýju brúnni var staddur hópur túrista á reiðhjólum. Þeir höfðu stoppað, voru hrópandi og böðuðu út öllum öngum. Ég skildi ekki strax hvað var um að vera, en áttaði mig svo á að Ámi var horfinn.
Ég leit í kringum mig eftir honum en sá hann ekki. Busl í strengnum við nyrðri bakkan vakti athygli mína. Þar flaut Ámi niður með ánni, og lítið af honum sjáanlegt nema veiðihúfan.
Hann náði að komast að sjálfsdáðum að grynningunni í miðjum flóanum, og krafla sig upp. Ég flýtti mér eins og ég gat honum til hjálpar, og velti fyrir mér í leiðinni hvað ég hefði sagt sem hann hefði misskilið svona hrapalega og orðið þess valdandi að hann gekk beint út í strengin. Þegar ég kom að honum var hann hóstandi og bölvandi. Veiðihúfan var horfin og höfum við ekki séð hana síðan, Hann tók af sér veiðigleraugun og sá ég þá að bólga eftir mýflugnabit hafði gersamlega lokað öðru auganu, og hitt var á góðri leið með að verða eins. Ámi var því orðinn hálf blindur, og þess vegna ráfað beint út í strengin.
Nú var nóg komið þennan daginn, og dreif ég veiðifélaga minn upp í veiðihús, þar sem hann fór í sturtu og skipti um föt. Við vorum fyrstir í hús, og komum okkur vel fyrir í setustofunni. Ég dró upp flösku af ljósgulum vökva, sem fyrir tilviljun hafði flækst með í ferðina, og helti í glas fyrir Áma. Hann átti það fyllilega skilið. Aðrar eins hrakfarir á innan við hálfum veiðidegi hafði ég ekki upplifað áður. Og nú þegar maður horfði á hann án flugnanets og gleraugna, verð ég að viðurkenna að hann var skelfilegur ásýndum. Bardagi í 12 lotur við sjálfan Tyson hefði skilað honum betur á sig komnum. Hann var greinilega einn af þeim sem blés upp við það að fluga beit hann.
Fljótlega fóru aðrir veiðimenn að koma í hús. Ég tók eftir því að í hvert skipti sem menn birtust í dyrum setustofunnar og sáu Áma, brá þeim nokkuð. Hvort sem það var ástandi Áma að kenna eða einhverju öðru þá settist engin hjá okkur, eins og þó er vaninn þarna, heldur tróðu sér innst inn í horn, eða sátu frammi í eldhúsi. Að lokum kom Stebbi blaðskellandi og ánægður, með bjórdós í hendi að vanda. Hann hafði átt góðan dag á Hamri. Bros hans stirðnaði þegar hann sá útlit Áma, og ég held hann hafi þagað í næstum heila mínútu af undrun. Það var lengra en ég mundi eftir áður.
Eftir rauðvínsglas með kvöldmatnum og tvö glös af ljósgula vökvanum í viðbót eftir matinn, var Ámi orðinn nokkuð sáttur við lífið og tilveruna aftur.
Við Stebbi vöknuðum snemma morguninn eftir, því við áttum báðar stangirnar á Geirastöðum. Áma, ákváðum við hinsvegar, að leyfa að sofa frameftir.