Það var komið að lokum viðburðaríks veiðisumars. Síðasta veiðiferðin var á veiðisvæði Geirlandsár, dagana 20.-22. september og veiðifélagarnir þeir sömu og oft áður, Gylfi Jón Gylfason, Kristinn Hilmarsson og Magnús Guðjónsson. Geirlandsáin skipar sértakan sess í hugum veiðimanna, enda óvíða meiri náttúrufegurð en þar né meiri von um stóra sjóbirtinga. Við höfðum verið við veiðar upp úr miðjum degi á mánudag og vel gengið á fyrstu vaktinni fram eftir kvöldi en þá herti vindinn og gerði veiðarnar erfiðar. Ég hafði náð þremur fallegum sjóbirtingum og var bara sáttur með það. Tveir höfðu tekið danskan Hansen Flash spún en einn rauðan Nobbler. Þriðjudagurinn, sem hafði verið mjög erfiður og vindasamur, var að kvöldi kominn þegar hér var komið sögu.
Himininn var heiður og skafinn og norðan garrinn hafði blásið látlaus frá því snemma á mánudagskvöldið. Þetta hafði gert fluguveiðimönnum erfitt fyrir, lítið réðst við línuna og flugan hafði nokkrum sinnum smollið innyrmilega á hettunni á veiðiúlpunni án þess þó að meiða. Ég sætti lagi á milli vindsveipa og náði að slengja línunni út í hylinn við Fjárhúsabakkann. Með því að stinga stangarendanum ofan í vatnið fauk línan ekki upp úr jafnharðan og sæmilegt rennsli náðist á fluguna. Þannig hafði þetta gengið fyrir sig allan daginn. Maggi hallaði sér upp að jeppanum og hvíldi sig eftir barninginn. Enn voru tæpir tveir tímar eftir af veiðitíma dagsins og við höfðum þumbast við neðra svæðið án árangur. Við réðum ráðum okkar og ákváðum að líta í Ármótin síðustu mínúturnar fyrir myrkur. Þar væri vindurinn þó beint í bakið. Þegar þangað var komið sátum við smá stund í bílnum og virtum fyrir okkur veiðistaðinn, sem var verulega breyttur frá fyrra ári. Geirlandsáin rann í tveimur strengjum neðst á eyrunum og var sá eystri meiri. Á milli strengjanna tveggja og Stjórnarinnar var allstór malareyri. Við ákváðum að ég byrjaði ofan við eyrina og Magnús bjóst til veiða við stærri strenginn. Það var farið að skyggja og nú lyngdi skyndilega og á nokkrum mínútum var komið stafalogn. Eins og hendi veifað varð náttúran öll önnur. Í stað vindgnauðsins tók við sveitarkyrrðin og skynfærin námu umhverfið á nýjan leik. Kýr baulaði í fjarska og haustilmurinn varð áberandi. Óræð blanda af sölnandi gróðri og heyi og lykt sveitarinnar.
Ég öslaði yfir strenginn og hugaði að flugunni, staðráðinn í að njóta þess að vera á þessum yndislega stað. Ég var nýbúinn að setja undir fallegan Rektor sem Sigþór hnýtingameistari Harðfiskanna hafði hefið mér fyrr um sumarið. Þetta var falleg straumfluga hjá stráknum, langur vængur og þyngd með tveimur litlum eirkúlum. Ég hafði reynt hana nokkrum sinnum áður en án árangurs. Nú skyldi reynt til þrautar því trúlega lægi sjóbirtingurinn djúpt og svo ljóst mátti vera að mig brysti sjón til að skipta um flugu vegna vaxandi rökkurs. Hnúturinn reyndist traustur og ég fikraði mig vestur eftir eyrinni og fór varlega í kvöldkyrrðinni. Ég byrjaði með stuttum köstum, stóð nokkrum metrum frá bakkanum og smá lengdi köstin. Nú var lítið mál að kasta og brátt flaug línan langleiðina yfir að háum bakkanum andspænis. Þarna er áin hæg og djúp. Ég skákastaði og gaf flugunni góðan tíma til að sökkva vel. Þessi stund var töfrum líkust. Mófuglar hópuðu sig og stór hópur gæsa klauf háloftið á kvöldfluginu. Stjörnur kviknuð ein af annarri á heiðri himinhvelfingunni. Ég strippaði línuna rólega fyrst, og svo ákveðið og skyndilega var rifið hraustlega í. Ég brást við með því að reisa stöngina og frumöskur veiðimannsins rauf kvöldkyrrðina. Þessi var vel frískur og örugglega stærri en hinir þrír. Ég hafði gleymt háfnum í bílnum og nú kynni löndun að verða vandamál, því þarna var mjög aðdjúpt. Þegar nokkuð var liðið á harðan slaginn og ég fann að fiskurinn var að þreytast, leitaði ég að heppilegum löndunarstað. Lítil sandeyri úti í eystri kvísinni var álitleg og þar náði ég að renna fallegum birtingi upp. Þetta var glæsilegur 6 pd hængur og fögnuður veiðimannsins ósvikinn.
Ég rotaði fiskinn og gekk frá honum í veiðipokanum. Tók úr pússi mínu silfurfleyginn og skálaði fyrir fiskinum. Við verðskulduðum það báðir tveir, ég og hængurinn. Þetta var trúlega næststærsti silungur sem ég hef fengið um dagana. Það eitt var ástæða til að fagna. Nú var klukkan að verða hálfníu og nær niðamyrkur skollið á. Ég sá varla handaskil og eins gott að Rektorinn Sigþórsnaut væri í góðu lagi og hnúturinn traustur. Hugsunin ein snerist um það hvort annar tökufiskur væri í hylnum eða hvort slagurinn við hænginn hefði komið styggð á allt kvikt.
Enginn mannlegur máttur hefði getað komið í veg fyrir að ég reyndi aftur. Nú sá ég ekki lengur nákvæmlega hvar lína lenti. Takmarkið var að ná undir bakkann fjær. Ég fann að kastið var í lagi. ?Þolinmóður, láttu sökkva vel, þú veist hann liggur djúpt?, hvíslaði mín innri rödd. Strippa ákveðið, einu sinni, tvis....og takan var tröllsleg. Ég lyfti Shakespearnum mínum og rokan sem fylgdi verður ógleymanleg. Það söng í hjólinu þegar fiskurinn steðjaði niður hylinn. Þessi var ekki lítill. Þungur og ákveðinn reyndi hann að komast undan og fara sínu fram, en við Shakespeare tókum á móti og reyndum að sjá fyrir næsta leik. Fiskurinn lagðist ... og við þokuðum honum af stað..lagðist aftur og sagan endurtekin. Roka upp eftir og ég fylgi á bakkanum. Stönginni sveigð og haldið hátt en gætt vel að því að bremsan héldi ekki of fast svo ekki væri slitið. Magnús var nú kominn tíl mín og skimaði eftir fiskinum. En hann sýndi sig ekki enn og hreyfingarnar gerðust nú hægari. Skrambi tók hann í. Mér varð litið upp í stjörnubjartan himininn og nú dönsuðu norðurljósin frá austri til vesturs. Fjöllin mynduðu dökkan og skörðóttan ramma um þessa dýrlegu mynd. Þar var sem himnarnir fögnuðu og náttúran öll. Og í djúpinu streittist fiskurinn við og gerði vart við sig með nýrri roku. Var þetta sú síðasta? Ég náði inn línu hægt en ákveðið og nú stóð línan nánast beint niður. Þarna var aðdjúpt og enn hafði hann ekki sýnt sig.Ég fikraði mig aftur út að sandeyrinni sem reynst hafði svo vel við löndunina áður og Maggi fylgdi með. Mér veitti örugglega ekki af aðstoð við löndun. Þarna kom hann upp! Myndarlegur sporðurinn skvampaði við landið en ekki sýndi hann kviðinn enn. Maggi tók eitt skref út í en þarna var of djúpt. Loks lagði fiskurinn hausinn upp á eyrina og Maggi reyndi að moka honum á land en aftur náði fiskurinn roku og Magnús mátti hafa sig allan við að þvæla ekki línuna, en nú var komið að lokum. Aftur dró ég fiskinn að eyrinni og nú voru kraftar hans búnir. Maggi teygði sig í fiskinn og tók hann traustataki. Þetta reyndist vera hrygna, vel stælt og björt og stærri en nokkur fiskur sem ég hef dregið úr fersku vatni. Rimman hafði tekið 35 mínútur. Hrygnan komst ekki í veiðipokann góða, enda meira en tvöfalt þyngri en hængurinn og talsvert lengri.
Þegar heim í veiðihús var komið tóku þeir félagar Kristinn og Gylfi Jón á móti okkur glaðhlakkalegir með sinn feng, þar á meðal hæng sem Gylfi Jón náði sem mældist 85 cm og 6,5 kg. Gylfi Jón er enda annálaður stórfiskabani, en ég ekki. Við gátum ekki annað en verið ánægðir með ferðina þrátt fyrir veður. Alls komu 25 fiskar á land en veiðin skiptist ekki jafnt. Flestir höfðu náðst á umræddan Hansen spún. Hrygnan mín var 83 cm og 6,3 kg (12,5 p) og á eftir örugglega eftir að verða mér tilefni til að segja veiðisögur langt fram á raupaldurinn. Flugufiskar lifa lengur í minningunni. En til að tryggja að enginn efist um sannleiksgildið verður hún stoppuð upp og gerð að stofustássi. Ég kom henni því í hendurnar á Sveinbirni uppstoppara í Starmóa og fæ hana vonandi til mín aftur fyrir áramót. Og það gerði Gylfi Jón líka. Hann hefur líka gaman af að segja sögur af stórfiskum.
Höfundur Eiríkur Hermannsson
Upphaflega birt í desember 2004