Fagur morgunn
Að morgni síðasta heila dagsins var mikil blíða. Í einum af þessum stóru flóum sem ég hafði aldrei lagt neina rækt við kom ég að lífinu eins og gerist best í Laxá. Stórir hringir, sporðblöðkur og hausar komu upp á löngu svæði yfir hraunhrygg í ánni. Þeir voru í kastfæri, en þarna varð að þenja sig frá upphækkandi bakka. Þeir voru stórir, og sumir köfuðu með haus og sporð eins og hnísur. Ég náði fljótlega einum á litla svarta, svo tók við löng stund og við köstuðum ítarlega á þá. Stöku glefs, en ekkert meira. Þetta var dæmigert Laxárundur, fiskarnir á kafi í æti og eltu ekki neitt, ekki nokkur leið að leggja flugurnar nákvæmlega fyrir vegna fjarlægðar, svo oftast runnu þær í gegnum torfuna án þess að lenda nákvæmlega í kjafti. Þetta var bæði spennandi og ótrúlega, ja, svekkjandi? Loks tókst mér að læða út grænni púpu í rennsli sem mér líkaði, og þá tók 5.5 punda fiskur sem ég landaði og var hróðugur með.
Kvöldvaktin
Ekki komu fleiri þarna úr gósenlandinu. Um kvöldið áttum við sama veiðisvæði og fullur tilhlökkunar mætti ég aftur á staðinn. Ekkert líf. Við sýndum ýmislegt en ekkert gerðist. Sem betur fer var flóinn ofar með lífi svo tvær eiginkvennanna fengu fiska, og við hjónin fórum svo langt niður með á þegar kvöldaði; hún tók tvo mjög fallega á púpu andstreymis, og ég einn. Það var nokkurt sálarstríð þegar klukkustund var eftir: Átti ég að reyna til þrautar þar sem við höfðum þó náð þremur, eða átti ég að bruna þetta kortérslabb uppeftir og gera aðra tilraun? Minnugur boltanna sem ég sá um morguninn steðjaði ég þangað í ljósaskiptunum. Ákvað að stríða þeim með stórri straumflugu, Shaggy dog.
Lætin byrja
Ég fór upp á bakkann þar sem hann var þægilega hár yfir ánni og kastaði eins og ég gat, því um morguninn voru fiskarnir langt úti á hryggnum. Dró inn og því hraðar sem nær dró landi; þegar ég ætlaði að rífa fluguna upp og rykkti í kom stærsti fiskur sem ég sá í ferðinn og velti sér á eftir henni með rosalegan kviðinn upp í loft. Ég reif of hratt. En skvampið var ógurlegt. Ég var hissa á því að fiskurinn væri svo nærri landi, kastaði aftur langt. Dró nú strax mjög hratt og ekki lét dynkurinn á sér standa, núna langt frá landi, en flugan fékk bara smá kipp. Þetta var samt svakalegur dynkur. Þetta endurtók sig nokkrum sinnum. Í næstu köstum gerðist ekkert svo ég færði mig ofar og óð aðeins út. Kastaði og dró í djöfulmóð. Þegar flugan átti eftir tvo metra í stangarodd kom urriði á fleygiferð upp úr vatninu, metra upp þar sem flugan var og hlammaðist svo niður. Mér krossbrá. Í næsta kasti koma annar og lamdi í fluguna án þess að hitta. Ég stóð gapandi þegar kona mín kom og leitaði frétta. ,,Sjö stórfiskar hafa komið með ægilegum látum í fluguna en ekki hitt" sagði ég. ,,Strippaðu hægar" sagði hún að bragði. Ég fór aftur upp á bakkann og hægði inndráttinn um svona 30%. Hann var á.
Baráttan um rétta dráttinn
Þann fisk missti ég. En nú var ég kominn með rétta dráttarlagið. Kastaði og nú dúndraði flugan beint í stopp. Fiskurinn fór svo hægt niður og upp í straum. ,,Þessi er stór sagði ég". Hann kafaði dýpra, hringsynti með þungu togi, strikaði svo út, hjó í og losnaði. ,,Þetta var sá stærsti í dag" sagði ég. Nú var tekið að skyggja meira, ég var búinn að finna rétta lagið. Og þó. Hvað eftir annað komu stórfiskar í fluguna, hjuggu í hana og negldu - án þess að festa sig. Þetta var ótrúlegt. Ég var nákvæmlega með rétta dráttinn til að æsa þá upp, og nú var ég greinilega ekki of fljótur á mér í inndrættinum, en ekki var þetta alveg nóg til að þeir tækju. Enginn festi sig á öngulinn!
Klukkan sló. Ég hafði ekki landað neinum en hafði ekki hugmynd um hve margir fiskar - og það stórir - höfðu komið í fluguna. Ég vissi þegar ég spólaði inn á hjólinu að besta veiðistund sumarsins var liðin. Blóðið dunaði í æðum, ég var rjóður í kinnum og hlakkaði yfir þessum ótrúlegu loftköstum sem ég hafði orðið vitni að. Tók fluguna og ætlaði að krækja í stöngina til að festa. Hva...? Öngullinn var brotinn. Sá stóri hafði brotið fluguna og ekkert eftir nema loðinn leggurinn. Í hálfrökkrinu hafði ég ekki veitt því athygli, enda um nóg annað að hugsa en um líðan flugunnar sem varð fyrir öllu þessu ofbeldi.
Ekki von að þeir festu sig.
Höfundur SJH
Birt 2005