2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
8.3.2020

Fiskar sem reka fluguna í burtu - úr safni Flugufrétta

Herfræði fluguveiðimannsins gengur út á að fá fiskinn til að opna kjaftinn og gleypa fluguna. Að minnsta kosti glefsa nógsamlega í hana til að festa sig. Flestum okkar virðist fiskurinn eiga bara tvo kosti í þessu stríði: að vera eða vera ekki,bíta eða bíta ekki. En fleiri kostir eru í stöðunni:

Það var sumarið 2000 að ég sannfærðist um að fiskar beita fleiri brögðum en þeim að bíta eða bíta ekki í stríðinu við flugur veiðimanna.Það skiptir ekki máli hvar ég var að veiðum, atvikið stendur mér ljóslifandi fyrir hugskotssjónum. Ég var með fluguna í yfirborðinu og dró hægt að mér. Hún var komin mjög nálægt. Ég fylgdist með hvort fiskur kæmi í hana. Allt í einu reis fiskur upp,rétt aftan við hana. Hann kom hálfur upp að framan og lagðist að flugunni um leið og hann spyrnti sér frá og í kaf. Flugan straukst við hann rétt aftan við haus. Fiskurinn opnaði aldrei kjaftinn. Það var eins og hann væri að stjaka við flugunni með"öxlinni" . Hún ýttist til hliðar, það var greinilegt, og hann ætlaði sér aldrei að glefsa í hana, það var ljóst. Svo hvað var hann að gera? Reka fluguna burt?

Síðar

Þetta sat ekki í mér fyrr en ég var að ræða einhver mál við Kolbein Grímsson að hann sagði mér söguna um rosatökuna í Grímsá. Laxinn kom upp með skvampi, það strekktist á línunni og svo þaut hann út langt niður hylinn og þaðan niður ána alveg þangað til sáralítið var eftir af línunni. Og það var alveg vonlaust að ná honum inn á hjólinu. Eftir langa mæðu og eltingarleik náðist laxinn og þá kom í ljós hvernig stóð á: hann var með fluguna í sporðinum. Hafði lamið fluguna með blöðkunni.

Bleikjan

Ég kveikti allt í einu á perunni. Skömmu áður hafði ég verið í bullandi ævintýri á Arnarvatnsheiði með þurrflugur. (Sjá grein um það mál á vefnum). Við stóran stein lá torfa af bleikju og ég tíndi þær upp hverja á fætur annarri. Kastaði flugunni í átt að steininum og lét hana bærast niður á spegil. Það brást ekki ef kastið var gott: bleikja tók. Svona tók ég fimm eða sex í röð. Og nú lenti flugan á nákvæmlega sama stað, þetta var nokkuð langt kast og ég sá að smá gusa kom upp við fluguna og nú var fast. Grunar lesendur nokkuð? Jú, bleikjan var með fluguna í sporðinum. Hún hafði ekki gleypt hana eins og hinar, heldur lamið hana. Rekið hana burt? Var henni tekið að blöskra þessi fluga sem tíndi burt vinkonur hennar? Var hún byrjð að skynja hættuna sem stafaði af þessu óboðna kvikindi? Hvað var hún að meina?

Þingvallavatnsbleikjan

Kolbeinn hlustaði á söguna og sagði mér aðra. Hann hafði verið á Þingvöllum og sett úr þurrflugu. Vatnið er djúpt og tært. Svo hann sá vel þegar hlussubleikja, fjögur pund eða meira, kom steðjandi neðan úr dýpinu. Hún hækkaði sig í vatninu og stefndi beint á fluguna sem lá á yfirborðinu. Þá snéri hún sér skyndilega við og lamdi sporðinum í fluguna og þaut svo rakleiðis í djúpið aftur. Hún hafði komið langa leið í þessum tilgangi einum.

Laxar

Veiðimenn segjast oft hafa séð laxa taka maðka sem rennt er að þeim og fara með frá sér og ,,leggja til hliðar". Þeir taka þvert á öngulinn og gæta þess að festa sig ekki, hreinsa bara ruslið frá. Hið sama virðist gerast í ákveðnum tilvikum með fluguna, að fiskurinn tekur hana ekki, heldur lemur, eða stjakar við. Í bandarískri grein sem ég las nýlega sagði höfundur að sér virtist margir fiskar kjósa að undirbúa ,,drápið" þegar þeir ætla sér stórar straumflugur með því að lemja þær fyrst til að ,,lama" fórnardýrið. 

Þetta er athyglisverð kenning. Oft sjáum við fiska koma mjög nálægt flugunni án þess að taka, en róta upp vatni með miklu skvampi. Þetta er ekki sama hegðun og elting, því gengið er lengra og lagt til flugunnar án þess þó að taka. Þessi höfundur taldi fiskinn vera að trufla eða slá væntanlega bráð út af laginu.  Fiskurinn ætli sér að stöðva eða lama bráðina, og svo að taka hana. Ráðið er kannski að sleppa alveg sambandi við fluguna og láta hana reka eins og dauða eftir að fiskurinn hefur lamið? Ég er ekki viss. En ég ætla að reyna að muna eftir að prófa næst þegar eitthvað svona gerist. Því það er ekki nærri alltaf sem fiskurinn festir fluguna í sér þegar hann ræðast að henni með þessum hætti. Sem betur fer, því húkk er fúlt. Hitt gæti verið skemmtilegt, að láta fluguna liggja eins og árásin hafi heppnast, og athuga hvort hann kemur aftur og tekur. Reynandi?  Hví ekki.

Höfundur Stefán Jón Hafstein

Birt 2005

12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði