Opnun Mývatnssveitar 2005
Síðasta helgin í maí var dýrleg í Mývatnssveit þegar opnunarhollið fór af stað með bökkum Laxár.
Sól skein í heiði og fuglar sungu, og þá sungu hjörtu manna þegar stangir bognuðu! Fiskar voru mjög vel haldnir, feitir og boltalegir, tóku bæði púpur og straumflugur. Rektor, Gray Ghost, Nobbler og Black Ghost voru sterkir í straumflugnadeild, þungur Rektor sérlega skæður á sökklínum. Púpurnar sem gáfu voru Pheasant tail, Mýsla, Krókur og fleiri slíkar. Ungur drengur frá Akureyri átti lengi þann stærsta, 2,8 kg, en Bragi Guðbrandsson kom sterkur inn sunnudagskvöld og landaði sínum stærsta á 24 ára ferli í Laxá: 9 punda ferlíki úr Laxá.
Svæðin voru mjög misjöfn: Hofstaðaey var róleg lengi vel, Geirastaðir hreint ævintýr á fyrstu vakt þegar Birgir og Daníel voru orðnir útveiddir kl 10 að morgni með 30-40 fiska tekna, Geldingaey sterk með Braga og Yngva Örn og Helluvað gott með Akureyringana; Hamar rólegur þar sem Kristján Þór bæjarstjóri og sonur máttu reyna hve ,,óréttlátt" lífið getur stundum verið eins og Kristján Þór stundi yfir hádegismatnum, og Brettingsstaðir einnig fremur hægir af stað.
Sumir áttu fisklausar vaktir meðan aðrir voru útveiddir eftir tvo tíma! Við félagarnir drógum ,,gullpottinn" sem reyndist nú heldur rýr í ár: Hofstaðaey var róleg allar vaktir í byrjun og var þó SJH heldur ánægður þegar hann fékk bolta í fyrsta kasti í Mjódd! Síðan komu nokkrir á Rektor í Vörðuflóa, ekkert á Þúfu og rólegt hjá þeim sem voru í Skriðuflóa eyjar meginn.
Engin slátrun
Nú er fjögurra fiska kvóti á dag, tveir á vakt, sem takmarkar ,,slátrun" mjög á svona tímum. Margir telja þetta nokkuð þröngan stakk, en er ekki nóg að fara heim með 10-12 bolta úr svona ferð? Hvar þarf marga fiska í kistuna til að vera ánægður?
Má ekki gefa veiðimönnum slaka til að veiða inn í sólarlagið þessar björtu nætur úr því að kvótinn er hvort sem er kominn niður í 2 á vakt?Reglunar hafa verið hertar mjög í Laxá á liðnum árum. Nú er fullt skyldufæði í húsinu, ekki sveigjanlegur veiðitími og kvótinn kominn í lágmark að margra mati. Ásókn samt endalaus! Á stundum eins og gáfust síðustu helgi er Laxá örugglega ein besta - ef ekki besta urriðaá í heimi. Veðrið lék við menn en sumum þótti súrt í broti að hætta kl. 22 loksins þegar kvöldsólin gyllti ána, lognið skall á og fiskar tóku að bylta sér í yfirborðinu!
Skiptir þá máli hvort fiskarnir veiðast kl. 20 eða 23.30?
Ævintýri
Sumir lentu í ævintýrum: Snæbjörn Jónsson tók sjö í röð á Miðmundarvaði, stærsti var 5 pund; Bragi tók þann stærsta á ferlinum, 9 pund, margir lentu í gengdarlausum skotum með raðveiði, eins og Óskar Páll í Stekkjarskerjapolli þegar hann var stanslaust í fiski í 3 tíma!
SJH var í Brotaflóa og setti í samtals 10 fiska á tveimur tímum (hlé á milli) og var meðalviktin líklega fjögur pund, allir tóku púpu á dauðareki með botni, Pheasant tail. Sá stærsti var örugglega rúm 5 pund en sá smæsti varla innan við 3 pd. Svo voru auðvitað rólegar vaktir; SJH fór niður Hamarsland einn morgunn án þess að verða var.