Eins og þeir sem fylgjast með þá eiga urriðasvæðin fyrir norðan í Laxárdal og Mývatnssveit sér ógurlega stóran aðdáenda hóp. Við á Flugur.is erum þar ekki undanskilin frekar en upphafsmaður vefsins hann Stefán Jón Hafstein. Við höfum reglulega sagt frá ævintýrum af flottum urriðum hérna á síðunni og hérna kemur ein til. Hann Ólafur Haraldsson veiðimaður úr Reykjavík lenti í miklum ævintýrum á urriðasvæði Laxár og við segjum söguna hér með hans eigin orðum:
Þetta var ákaflega skemmtileg veiði hjá okkur 5. til 8. júní fyrir norðan.
Það hafði verið kalt dagana á undan, en sunnanáttir og hlýja tóku á móti okkur á sunnudagsmorgninum. Það er skemmst frá því að segja að langflestir veiddu vel þessa daga. Fiskurinn var í miklu tökustuði, óvenju vel haldinn og stór, maður var að setja í bjarta, 50-60 sm "Mjósundsfiska" niðri í Vörðuflóa. Það var áberandi hversu betur gekk almennt á neðri svæðunum, meðan Geirastaðir og Geldingaey voru með rólegra móti. Eftir því sem neðar dró þurfti minna að hafa fyrir fiskinum og dæmi þess að menn heimsæktu ekki nema tvo eða þrjá veiðistaði á svæðunum - enda óþarfi svosem að flytja sig þegar takan er góð.
Það vakti líka athygli (ef ekki furðu) hversu vel Arnarvatn gaf - menn lentu í góðri veiði í Kleifinni, Steinsrassi, Ærhellunni og Kláfnum vakt eftir vakt. Það var líka skemmtilegt hversu vel veiddist á straumflugur. Ég setti nánast ekki aðrar flugur undir allan tímann en Black Ghost, straumfluguversjón af Beyglunni hans Gylfa og Mýslu (hvort sem það er nú til eftirbreytni eða ekki). Ég veit til þess að menn voru að gera góða veiði á stórar þurrflugur líka.
Sjálfur lenti ég í ævintýri niðri í Lambeyjarstreng - er einn til frásagnar, og myndi þegja ef ég hefði ekki haft fiskinn fyrir augunum. Var nýbúinn að landa 59 sm fiski á Mýsluna og kastaði aftur upp í grjótin. Í þriðja kasti er hann á, kemur í áttina til mín og stekkur. Ég tók andköf, því ég hef aldrei, mér vitanlega, sett í svo stóran fisk í Laxá, þessi var svona hálfum fiski lengri en hinn fyrri, varlega áætlað. Fyrstu fimm mínúturnar lætur hann illa og stekkur mikið svona fimm metra frá landi og ég skimandi í allar áttir og meira að segja upp á þjóðveg hvort ekki séu einhver vitni að þessu.
Þá setur tröllið í lága drifið og svamlar átakalaust upp í strenginn og ekki viðlit að hægja á honum. Þar hálfpartinn leggst hann, tekur kippi öðru hvoru og mjakar sér upp í grjótin. Ég vildi auðvitað ekki missa hann þangað, tek vel á honum, en ekki séns. Ég hafði það á tilfininingunni að hann dólaði sér þetta í rólegheitunum án þess að hafa mikið fyrir því meðan mig var farið að verkja í handleggi og axlir. Toguðumst við á í ríflega tuttugu mínútur og ég haggaði honum ekki, línan öll komin út fyrir topplykkju og því erfitt að hafa stjórn á átakinu í straumnum. Þá nennti hann þessu ekki lengur, tók tvo væna kippi og var laus. Ég dró inn línuna og átti von á að flugan væri af.
En, nei, Mýslan var á sínum stað og á henni holdtægja á stærð við litlafingursnögl! Saddur og sæll hélt ég upp í Brotaflóa og sagði félaganum frá ævintýrinu. Hann þaut niðureftir og setti í tvo fiska, 50 og 55 sm á þessum síðasta hálftíma vaktarinnar. En einhver á eftir að setja í þann stóra í sumar.
Við lentum svo í þjóðsagnakenndu dýrðarkvöldi niðri í Vörðuflóa. Urrandi yfirborðstökur með skvettum og látum, sporðadansi um allt. Vænn fiskur og fjörugur eins og hver vildi hafa eins lengi og við stóðum við.