Það er æðislegt að lenda í skemmtilegri bleikjuveiði, þegar bleikjan verður tryllt í fluguna og kemur á eftir henni í boðaföllum. Það er skemmtilegt svæði á Snæfellsnesi sem margir eiga eftir að reyna Vatnasvæði Lýsu. Sumarið 2005 lenti Guðmundur Guðmundsson í svakalegri veiði á svæðinu og segir hérna skemmtilega frá ævintýrinu. Fyrir þá sem vilja kynna sér málið nánar þá selur Iceland Outfitters veiðileyfi á svæðið á heimasíðu sinni sjá nánar hérna: ioveidileyfi.is/silungur
Þriðjudaginn 19. júní fór ég með Gunnar Jörgen frá Danmörku vestur á Snæfellsnes til veiða og er það stund sem ég gleymi aldrei, hvað þá hann. Við fórum vestur um miðjan dag og komum vestur um sex leitið og komum dótinu okkar fyrir á Hofi þar sem við gistum hjá Lailu. Þar hittum við fyrir tvær þýskar konur sem áttu að deila húsi með okkur. Í spjalli sem við áttum við þær upplýstum við þær um að það væri eins gott að við fengjum fisk því við höfðum ákveðið að kaupa aðeins kartöflur og brauð til að hafa með okkur og ef við fengjum engan fisk yrðum við bara að borða það. Þetta fannst þeim mjög djarft af okkur sérstaklega þeirri eldri sem er búin að búa hér í þrjátíu ár og var einmitt að fara að veiða í Lýsuvötnum.
Við byrjuðum á því að fara í Staðará og vorum þar í miklu fjöri því það var lax stökkvandi um allt, sem er reyndar ekki gott, enda fengum við engan en þó tvær grannar tökur. Þetta var mjög skemmtilegt en átti eftir að batna því ég fór með hann í Vatnsholtsvatnið mjög seint um kvöldið - eða um ellefu leitið. Það hafði verið mjög mikill vindur um daginn en gekk svo niður. Ég vissi að gruggið sem kemur í vatnið tæki nokkra tíma að setjast, svo ég fór með hann á stað við vatnið þar sem tært vatn rennur út í það, sagði honum að setja litla svarta flugu á hjá sér og athuga hvað myndi gerast, honum fannst það reyndar skrítið að setja slíka flugu undir við þessar aðstæður, en hann lenti í veislu það var á í hverju kasti og allt bleikja frá einu og hálfu pundi upp í þrjú pund, vatnið var spegilslétt svo hann sá þær alltaf koma á fleygiferð og taka fluguna, hann var eins og lítill krakki á jólunum því eins og hann sagði, ,,ég hef aldrei upplifað annað eins? og hefur hann farið víða til veiða og til margra landa enda orðin sextugur. Þetta var eitt af þeim kvöldum sem maður gleymir aldrei og ég get ekki skilið hvers vegna ekki er leyft að veiða seint á kvöldin og um nætur, þetta er langskemmtilegasti tíminn til veiða. Við vorum að til sirka eitt um nóttina í blanka logni og blíðu og endalausar tökur, við slepptum flestum fiskunum en tóku þó tíu vænar bleikjur með okkur til að snæða, hreint út sagt ógleymanleg stund.
En það skemmtilega við þetta allt saman var það, að þegar við komum heim biðu þær þýsku eftir okkur því þær voru spenntar að vita hvað við myndum hafa í matinn og urðu ekki lítið hissa þegar þær sáu fiskinn og heyrðu söguna sem Gunnar sagði þeim, með lýsingarorðum sem ég skildi ekki því hann lýsti þessu ýmist á ensku, þýsku eða dönsku, hann var í öðrum heimi af gleði eftir þetta kvöld. Ég varð síðan að elda fyrir þau silung með smjöri og kartöflum upp á gamla mátann og eitt er víst að miðað við hvað þau borðuðu þá fannst þeim maturinn góður, sem hann og var. Ég get lítið sagt annað en það, að þetta eru stundir sem ég elska. Hvað er allt heimsins glingur og gull í samanburði við slíkar stundir út í náttúrunni seint að kvöldi og næturlagi, sem ekkert fær truflað nema söngur fuglanna og gleðitónar félagana vegna stórkostlegrar náttúru okkar og nú á ég líka heimboð í Danmörku og Þýskalandi. Þarna átti ég stórkostlega stund með þremur ólíkum manneskjum sem ég hafði aldrei hitt áður og það sem meira er ég átti stóran þátt í því að þau upplifðu eitthvað sem þau hafði aldrei dreymt um, það fékk ég að heyra frá þeim öllum og það er bónus á hina gleðina.
SKRÁÐU ÞIG HÉRNA FYRIR VIKULEG FRÉTTABRÉF!
Kær kveðja Gummi í Arkó.
Guðmundur Guðmundsson.
Krummahólum 2.
111 Reykjavík.
e-mail gummigumm@simnet.is
heimasíða www.blog.central.is/gummigumm
Sími 5677454 og 8937654