2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
14.3.2020

Veitt á nærbuxum! - úr safni Flugur.is

Þó að tíðrætt sé að verð veiðileyfa sé orðið hátt á landinu þá er enn hægt að komast í veiði sem hentar öllum fjárhag. Fjöldinn allur af vötnum á landinu geyma flotta fiska sem sjaldan sjá flugur og hægt er að veiða á brókunum einum fata. Hérna er ein skondin saga frá slíkum stað frá Kristínu Helgu Gunnarsdóttur frá 2005. 

 Á netinu finnst himneskt tjaldstæði í fjarlægri sveit. Fimm fjölskyldur leggja af stað í leiðangur. Tjaldbúðir rísa og mikið er hlegið og trallað. Þótt leiðangurinn sé ekki yfirlýst veiðiferð eru stangir að sjálfsögðu með í för. Það er aldrei að vita. Þokkaleg á rennur skammt frá tjaldstæðinu og einhverjir útlegumenn reyna þar að kasta fyrir fiski, en að því er virðist án árangurs. Skyldi vera einhver veiði í þessari á? spyr einn félaganna. Það er ólíklegt. Fossinn er ekki fiskgengur, en hvur veit nema það séu einhverjir staðbundnir tittir inni á dalnum? Hver selur veiðileyfi þarna inn frá? Bara bændurnir sjálfir, segir ung afgreiðslukona og yppir öxlum. Hópurinn stóri leggur af stað á milli bæja. Bændur hrista hausinn. Þú mátt svo sem reyna. En ég tek ekki meira en þúsund kall fyrir stöngina. Ég er ekkert viss um að það hafist nokkuð hér frammi á dalnum. Með veiðileyfi í vasanum halda foreldrar og krakkar af stað. Einn er með spún, annar setur flugu á taum. Sá þriðji þræðir maðkinn. Mikið er áin falleg. Hér veiðist nú áreiðanlega ekki neitt í sól og hífandi roki. Kerling læðist með bakkanum. Skyldi vera hér branda? Eitthvað gæti leynst þarna undir moldarbörðum. Fjárinn, ég þarf að pissa. Frúin tosar teygjubuxurnar niður að hnjám- stendur á nærunum og hugsar sig um. Þeir fiska sem róa, best að láta fljóta undir barðið á meðan ég pissa. Hún kastar flugunni yfir og leggur stöngina á þúfu við hlið sér. En þarna er vön fiskibolla á ferð. Áður en hún hysjar nærurnar niður um sig hugsar hún með sér: Hvað ef hann bítur nú á á meðan ég pissa? Já, það er vissara að halda í stöngina. Maður veit aldrei, tautar frúin og grípur um handfangið.

Í sömu svipan er kippt duglega í. Það er fiskur á og enginn tittur! Skollinn sjálfur og frúin með buxurnar á hælunum. Á að taka áhættu og ráðast í það verkefni að hysja brókina upp eða á að reyna að landa fiskinum með buxurnar á hælunum? Það er ekkert ráðrúm til að hugsa. Ákvörðun er tekin á sekúndubroti. Buxurnar verða að vera á hælunum um sinn. Fiskurinn rýkur niður eftir og stefnir á stein. Frúin stekkur leifturhratt á bleikum nærbuxum upp á moldarbörðin þótt síðbrókin hefti för. Hún æðir niður að klettunum í örstuttum skrefum, heldur spennunni og er bara nokkuð ánægð með sig. Urriðinn er vænn og hann skal ekki sleppa. Hvar á að landa? Hér er hvergi eyri. Þarna á klettasillu, hugsar langbrókin með sér og veður niður klettana. Þetta er líkt og að landa fiski með bundna fætur, muldrar hún á niðurleið, hrasar en heldur spennunni. Fiskurinn þreytist. Það er núna, hvæsir fiskibollan og dregur boltann að landi, vippar honum upp á silluna svo bráðin skorðast við fætur hennar. Flugan losnar úr munnviki. Nú þarf að hugsa hratt. Hann skal ekki sleppa, urrar kerling og hlammar sér ofan á fiskinn.Skítt með bleiku nærbrókina. Hana má þvo. Rota! Með hverju á ég að rota? spyr hún sig og skimar í kringum sig á klettasillu. Laus steinn, einn, tveir og þrír og urriðinn væni er rotaður duglega þar sem frúin situr sem fastast ofan á honum. Glæsilegur fiskur, hugsar hún með sér þegar hún kastar bráðinni í grasið. Ætli hann sé ekki svona þrjú eða fjögur pund? Æ, hvað það er gott að pissa eftir þennan slag.
Að kveldi dags eru sagðar veiðisögur í tjaldi. Kerlingin sem æddi á nærbrókinni með buxurnar á hælunum og hlassaði sér á fiskinn sinn áður en hún rotaði hann verður í minnum höfð. Tveir sex punda urriðar náðu landi og margir minni. Mikið er gaman að enn skuli vera til góðir leyniveiðistaðir á Íslandi sem ekki kosta forstjóralaun en gefa þó mikla veiðivon og loforð um stóra fiska. Við segjum engum hvar nærbuxnafiskurinn veiddist!

12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði